Fara í efni

Bæjarstjórn

40. fundur 08. desember 2021 kl. 17:30 - 18:40 í Ráðhúsinu í Sandgerði
Nefndarmenn
  • Einar Jón Pálsson forseti
  • Hólmfríður Skarphéðinsdóttir aðalmaður
  • Haraldur Helgason aðalmaður
  • Laufey Erlendsdóttir fyrsti varaforseti
  • Fríða Stefánsdóttir aðalmaður
  • Katrín Pétursdóttir aðalmaður
  • Magnús Sigfús Magnússon annar varaforseti
  • Pálmi Steinar Guðmundsson aðalmaður
  • Daði Bergþórsson aðalmaður
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Bergný Jóna Sævarsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar 2022

2103078

Síðari umræða.
Til máls tóku: EJP, MS, DB, FS, HH og MSM.

Afgreiðsla:

Bókun um fjárhagsáætlun:

Vinnsla fjárhagsáætlunar hefur að þessu sinni tekið mið af verklagi og verkferlum sem bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 2. desember 2020. Þetta nýja fyrirkomulag gekk nokkuð vel eftir, en mun þróast áfram á næstu árum. Umfjöllun um forsendur áætlunar hófst á fyrsta ársfjórðungi ársins og bæjarráð hefur fjallað um áætlanagerðina, forsendur og endanlega tillögu að fjárhagsáætlun á alls níu fundum á árinu. Þá hefur bæjarstjórn haldið tvo vinnufundi til yfirferðar yfir starfsáætlanir og áætlunina sjálfa.

Við gerð fjárhagsáætlunar var unnið út frá ýmsum forsendum, svo sem hagspám, áætlun Sambands ísl. sveitarfélaga um útsvarstekjur, fasteignamati, áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og atvinnuástandi í sveitarfélaginu. Ýmsir áhrifaþættir eru markaðir nokkurri óvissu. Í því sambandi skiptir mestu hver verður þróun heimsfaraldurs kórónuveiru næstu misseri, það hefur m.a. áhrif á þróun atvinnumála, útsvarstekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði, sem markast m.a. af ríkistekjum. Þá er íbúaþróun í sveitarfélaginu áhrifaþáttur, bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Heimsfaraldur Kórónuveiru Covid-19 hefur haft mikil og neikvæð áhrif á rekstur og efnahag Suðurnesjabæjar undanfarin tvö fjárhagsár, vonir standa til að fljótlega á árinu 2022 dragi enn frekar úr áhrifum faraldursins og mótast forsendur fjárhagsáætlunar m.a. af því.

Á 35. fundi bæjarstjórnar þann 5. maí 2021 voru samþykkt helstu markmið við vinnslu fjárhagsáætlunarinnar. Megin markmið verði að standast fjárhagsleg viðmið um jafnvægisreglu og skuldareglu sbr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga. Framlegð frá rekstri A og B hluta verði ekki undir 11%. Veltufé frá rekstri verði ekki undir 500 mkr. á ári á næstu árum, til að standa undir afborgunum lána og sem mestu af fjárfestingum næstu ára. Fjárfestingar verði sem mest fjármagnaðar með skatttekjum og söluhagnaði eigna á næstu árum þannig að lántökum verði haldið í lágmarki. Áhersla bæjarstjórnar er á ábyrgð og aðhald í fjármálum, bæði varðandi rekstur og fjárfestingar, en á sama tíma og út frá framangreindum markmiðum verði ekki dregið úr þjónustu við íbúa, heldur verði langtímamarkmið að bjóða íbúum upp á sem mesta og besta þjónustu á öllum þeim sviðum sem sveitarfélaginu ber að gera. Loks að gjaldskrá þjónustugjalda haldist í takti við þróun verðlags.

Í forsendum fjárhagsáætlunar er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52%, álagningarhlutfall fasteignagjalda eru óbreytt frá fyrra ári og ýmsir rekstrarliðir eru hækkaðir til samræmis við spá um verðlagsbreytingar. Þjónustugjaldskrá er að mestu uppreiknuð út frá hagspá um þróun vísitölu neysluverðs.

Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 4.933 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 403 mkr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð að fjárhæð 3,2 mkr.

Í sjóðstreymisyfirliti kemur m.a. fram að veltufé frá rekstri verði 458 mkr. Fjárfestingar eru áætlaðar alls 806 mkr., hafin verði ný langtímalán að fjárhæð 650 mkr. og afborganir langtímaskulda verði 270 mkr. Áætlað er að handbært fé í árslok 2022 verði 553 mkr.

Í fjárfestingaáætlun er stærsta fjárfestingin 500 mkr. vegna uppbyggingar á nýjum leikskóla við Byggðaveg í Sandgerði. Meðal annarra verkefna í fjárfestingaáætlun er gert ráð fyrir að hefja uppbyggingu á gervigrasvelli, ásamt framkvæmdum í leik-og grunnskólum og íþróttamiðstöð í Sandgerði. Þá verða framkvæmdir við hringtorg við aðkomu að nýjum leikskóla, ásamt endurbyggingu gatna og frágangi opinna svæða. Mikil uppbygging stendur yfir á íbúðarhúsnæði og við blasir að sú uppbygging muni halda áfram næstu misseri. Fyrir vikið mun halda áfram fjárfesting í uppbyggingu innviða í íbúðahverfum til að koma til móts við mikla eftirspurn eftir íbúðalóðum. Þessi uppbygging á íbúðarhúsnæði felur í sér fjölgun íbúa, á árinu 2021 hefur íbúum fjölgað um tæplega 3% og eru samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár um 3.750 í byrjun desember 2021. Í forsendum fjárhagsáætlunar 2022 er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 3% á árinu 2022.

Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er góð og er áætlað að skuldaviðmið skv. reglugerð 502/2012 verði 80,2% í árslok 2022 og því vel undir 150%, sem eru þau mörk sem fjármálareglur sveitarstjórnarlaga kveða á um.

Bókun bæjarstjórnar:

Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar fyrir árið 2022, ásamt rammaáætlun áranna 2023-2025 kemur nú til síðari umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Forsendur fjárhagsáætlunar bera með sér að áfram verða áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru nokkur í rekstri og efnahag sveitarfélagsins, þó svo gert sé ráð fyrir að þau áhrif muni fara minnkandi þegar líður á árið 2022. Atvinnulífið er að ná fótfestu á ný eftir mjög neikvæð áhrif faraldursins á atvinnu-og efnahagslífið undanfarin tæplega tvö ár og er von til þess að á árinu 2022 muni þau áhrif hverfa.

Bæjarstjórn lýsir ánægju með að fjárhagsáætlun felur í sér sterka efnahagslega og rekstrarlega stöðu Suðurnesjabæjar, gert er ráð fyrir miklum fjárfestingum á árinu 2022 þar sem áfram er haldið við uppbyggingu á mikilvægum innviðum sveitarfélagsins. Þannig leitast bæjarstjórn meðal annars við að mæta mikilli fjölgun íbúa með það að markmiði að skapa aðstæður til að sveitarfélagið veiti áfram fyrsta flokks þjónustu við íbúana.

Bæjarstjórn þakkar bæjarstjóra og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnið verk við vinnslu fjárhagsáætlunar og fyrir frábært starf á árinu sem hefur verið erfitt á löngum köflum, enda hafa aðstæður verið vægast sagt óvenjulegar.


Afgreiðsla:

Fjárhagsáætlun ársins 2022 og fyrir árin 2023-2025, ásamt þjónustugjaldskrá og gjaldskrá Sandgerðishafnar er samþykkt samhljóða.

2.Fjárhagsáætlun 2021 - viðaukar

2102089

Á 85. fundi bæjarráðs var samþykkt samhljóða að vísa viðaukum nr. 6, 7, 8 og 9 til staðfestingar í bæjarstjórn.

Á 86. fundi bæjarráðs samþykkt samhljóða að vísa viðauka 10 til staðfestingar í bæjarstjórn.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að staðfesta viðaukana.

3.Ályktun bæjarráðs Árborgar um leikskólamál

2111008

Á 85. fundi bæjarráðs var fjallað um erindi frá Sambandi íslenskra sveitafélaga, þar sem fram kemur að á fundi stjórnar Sambandsins hafi verið fjallað um ályktun bæjarráðs Árborgar þar sem skorað er á stjórn Sambands ísl sveitarfélaga að beita sér fyrir fullri viðurkenningu ríkisvaldsins á leikskólastiginu sem menntastofnun og að ríkisvaldið skilgreini sveitarfélögum tekjustofn til að standa straum af kostnaði við rekstur leikskóla eftir lok fæðingarorlofs.

Bæjarráð samþykkti samhljóða að lýsa stuðningi við stefnumótun Sambands ísl sveitarfélag um málið sem fram kemur í bókun stórnar þann 29. október 2021 þar sem tekið er undir ályktun bæjarráðs Árborgar.
Afgreiðsla:

Afgreiðsla bæjarráðs samþykkt samhljóða.

4.Félagslegar íbúðir

1806847

Á 35. fundi fjölskyldu- og velferðarráðs var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja breytingar á reglum um félagslegt húsnæði.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að staðfesta breytingar á reglum Suðurnesjabæjar um útleigu félagslegra leiguíbúða.

5.Ungmennaráð 2021-2022

2104080

Á 4. fundi ungmennaráðs dags. 12.11.2021 voru til umfjöllunar tillögur ungmennaráðs sem kynntar voru fyrir bæjarstjórn á fundi 3. nóvember 2021, sem snúa að úrbótum á leiksvæðum við grunnskóla bæjarins.

Ungmennaráð leggur til við bæjarstjórn að farið verði í verkefni a) til f), sem listuð eru upp í fundargerðinni.
Til máls tók: EJP

Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að koma upp pönnuvöllum, sbr. liður d) í fundargerð. Að öðru leyti er tillögum um úrbætur vísað til úrvinnslu hjá umhverfis-og skipulagssviði í samráði við stjórnendur viðkomandi stofnana sveitarfélagsins.

6.Bæjarráð - 85

2111005F

Fundur dags. 10.11.2021.
Til máls tók: LE.

Afgreiðsla:

Lagt fram.

7.Bæjarráð - 86

2111014F

Fundur dags. 24.11.2021.
Til máls tók: EJP.

Afgreiðsla:

Lagt fram.

8.Ungmennaráð - 4

2111010F

Fundur dags. 12.11.2021.
Afgreiðsla:

Lagt fram.

9.Fræðsluráð - 29

2111017F

Fundur dags. 12.11.2021.
Til máls tóku: FS og MS.

Afgreiðsla:

Lagt fram.

10.Fjölskyldu- og velferðarráð - 35

2111012F

Fundur dags. 18.11.2021.
Afgreiðsla:

Lagt fram.

11.Framkvæmda- og skipulagsráð - 31

2111021F

Fundur dags. 30.11.2021.
Til máls tóku: EJP, FS, LE, HH og PSG.

Afgreiðsla:

Lagt fram.

12.Samband íslenskra sveitarfélaga-fundargerðir 2021

2102005

a) Fundargerð 902. fundar stjórnar dags. 29.10.2021.
b) Fundargerð 903. fundar stjórnar dags. 26.11.2021.
Afgreiðsla:

Fundargerðir lagðar fram.

13.Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum fundargerðir 2021

2101065

Fundargerð 773. fundar stjórnar dags. 12. 11. 2021.
Til máls tók: LE.

Afgreiðsla:

Lagt fram.

14.Brunavarnir Suðurnesja fundargerðir 2021

2103029

Fundargerð 60. fundar stjórnar dags.09.11.2021.
Afgreiðsla:

Lagt fram.

15.Heklan fundargerðir 2021

2101066

a) 86. fundur stjórnar dags. 11.06.2021.
b) 87. fundur stjórnar dags. 10.09.2021.
c) 88. fundur stjórnar dags. 05.11.2021.
Afgreiðsla:

Fundargerðir lagðar fram.

16.Kalka sorpeyðingarstöð - fundargerðir 2021

2103058

a) 529. fundur stjórnar dags. 08.10.2021.
b) 530. fundur stjórnar dags. 09.11.2021.
Afgreiðsla:

Fundargerðirnar lagðar fram.

17.Almannavarnarnefnd Suðurnesja - fundargerðir

1905009

Fundur dags. 22.11.2021.
Afgreiðsla:

Lagt fram.

18.Reykjanes jarðvangur fundargerðir 2021

2101103

a) 60. fundur stjórnar dags. 18.06.2021.
b) 61. fundur stjórnar dags. 20.08.2021.
c) 62. fundur stjórnar dags. 24.09.2021.
Til máls tók: PSG.

Afgreiðsla:

Fundargerðirnar lagðar fram.

Fundi slitið - kl. 18:40.

Getum við bætt efni síðunnar?