Fara í efni

Stuðningur við fullorðna

Félagsleg ráðgjöf

Markmið félagslegrar ráðgjafar er annars vegar að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál og hins vegar að veita stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda. 

Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinga og fjölskyldur til sjálfshjálpar þannig að hver og einn geti notið sín sem best í samfélaginu.

Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar á eftirtöldum sviðum:
 • Fjárhagsvanda og fjármála að öðru leyti
 • Húsnæðisvanda
 • Atvinnuleysis
 • Samskipta innan fjölskyldna, meðal annars sambúðarvanda
 • Uppeldismála og málefna barna og unglinga
 • Hjónaskilnaða og sambúðarslita
 • Ættleiðingarmála
 • Áfengis- og vímuefnavanda
 • Skertrar færni og fötlunar
 • Aðstæðna á efri árum
 • Vegna umsókna um stofnanavistun

Ávallt er leitast við að veita ráðgjöfina í samhengi við önnur úrræði ef við á og tengja hana þjónustu annarra aðila eftir því sem hentar, svo sem skóla, heilsugæslustöðvar o.fl.

Félagsleg ráðgjöf er meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Allir sem orðnir eru 18 ára og eiga lögheimili í Suðurnesjabæ geta leitað ráðgjafar sér að kostnaðarlausu með því að snúa sér til félagsþjónustu sveitarfélagsins.

Starfsfólk félagsþjónustunnar er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði, svo sem ef barni er hætta búin.

 

Húsnæðismál

Félagsþjónustan veitir  ráðgjöf, sér um afgreiðslu á umsóknum um sérstakan húsnæðisstuðning og úthlutanir á félagslegu leiguhúsnæði.

Félagslegt leiguhúsnæði

Félagslegar leiguíbúðir eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa sérstaka aðstoð við að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrði og/eða annarra félagslegra erfiðleika og skulu fjárhags- og félagslegar aðstæður þeirra metnar út frá ákveðnum viðmiðum reglna um félagslegar leiguíbúðir.

Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði, fá úthlutuðu leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar er bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk umsækjanda og félagslegum aðstæðum umsækjanda sem skulu metnar sérstaklega samkvæmt reglum sveitarfélagsins um félagslegar leiguíbúðir. Sótt er um félagslegt leiguhúsnæði hjá ráðgjafa húsnæðismála og er hægt að panta tíma  í síma 4253000 eða með því að senda tölvupóst á afgreidsla@sudurnesjabaer.is. 

Íbúðir fyrir 60 ára og eldri

Íbúðum eldri borgara í Miðhúsum í eigu Suðurnesjabæjar er ætlað að vera húsnæðisvalkostur fyrir íbúa Suðurnesjabæjar sem eru orðnir 60 ára og eldri.

Í fjölbýlishúsnæðinu er aðgengi að skipulögðu félagsstarfi og mötuneyti.

Ekki er um sérstakt þjónustuúræði að ræða en íbúum stendur samskonar þjónusta til boða eins og öðrum íbúum sveitarfélagsins sem búa á einkaheimilum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016 og reglna sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna. Einnig er veittur sérstakur húsnæðisstuðningur til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms. Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir 18 ára og eldri hjá Fjölskyldusviði Suðurnesjabæjar.

Heimilisofbeldi

Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi frá sínum nánustu.

Mikilvægt er að þeir sem búa við heimilisofbeldi hafi samband við Lögregluna á Suðurnesjum í gegnum Neyðarlínuna með því að hringja í 112. Einnig er hægt að hafa samband við félagsþjónustu Suðurnesjabæjar í síma 425 3000. 

Verklagið hjá lögreglunni og félagsþjónustu Suðurnesjabæjar byggist á því að farið er á heimili þegar tilkynning berst til lögreglu um heimilisofbeldi. Á heimilinu er veitt fyrsta hjálp ásamt því að rannsaka málið. Ákveðin eftirfylgni er í málunum sem felst í að starfsmaður félagsþjónustu hefur samband við þolanda innan þriggja daga til að meta þörf á stuðningi og að veita upplýsingar um úrræði. Meintum geranda er einnig boðið að koma í viðtal til að fara yfir hans stöðu. Lögreglan og starfsmaður félagsþjónustu fara svo á heimili þolenda til að fara yfir stöðuna.

Heimilisofbeldi getur haft varanleg áhrif á andlega og líkamlegu heilsu þolandans. Börn eru líka þolendur heimilisofbeldis og þróa oft með sér ákveðin einkenni eins og depurð, lágt sjálfsmat, verkkvíða, skerta félagsfærni, samskiptavanda og margvíslegan tilfinninga- og hegðunarvanda. Það er því mikilvægt að mæta líka þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi og veita þeim viðeigandi stuðning svo þau geti unnið úr reynslu sinni.

Stuðningsþjónusta

Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónsuta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengt í heimahúsi.

Félagsleg heimaþjónusta

Stuðningsþjónusta í formi félagslegrar heimaþjónustu felur í sér að efla þjónustuþega til sjálfshjálpar og stuðla að því að viðkomandi geti búið sem lengst í heimahúsi. Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er meðal annars:

 • Aðstoð við heimilishald, heimilisþrif
 • Aðstoð við persónulega umhirðu, (stuðningur við athafnir daglegs lífs)
 • Aðstoð með búðarferðir
 • Félagslegur stuðningur
 • Öryggisinnlit
Félagsleg liðveisla

Félagsleg liðveisla er persónulegur stuðningur og aðstoð sem einkum miðar að því að draga úr félagslegri einangrun og styrkja fólk til þátttöku í menningar- og félagslífi. Þjónustan getur verið veitt tímabundið eða til lengri tíma, allt eftir aðstæðum. Liðveisla er aðalega veitt fötluðum börnum frá ? aldri, sem og fullorðnu fötluðu fólki. Einstaklingar sem eiga í erfiðleikum sem jafna má við fötlun og eru félagslega einangruð geta einnig átt rétt á félagslegri liðveislu.

Umsóknarferlið og þjónustuþörf

Umsækjendur skulu fylla út skriflega umsókn á þar til gerðu eyðublaði. Í kjölfarið er þjónustuþörfin metin, í  hverju tilviki fyrir sig. Mat á þjónustuþörf er ávallt unnin í samvinnu við umsækjanda og leitast er við að veita þjónustu sem hann eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Forsendur þjónustunnar er að notandi þjónustunnar búi í heimahúsi og geti ekki séð um heimilishald og persónulega umhirði vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi (þ.e. 18 ára og eldri), sem á ekki við veikindi að stríða, er að öllu jöfnu ekki veitt félagsleg heimaþjónusta.

Við mat á þjónustuþörf skulu að minnsta kosti eftirfarandi fjórir meginþættir skoðaðir sem hafa áhrif á athafnir daglegs lífs:

 1. Þörf umsækjanda fyrir þjónustu.
 2. Félagslegar aðstæður umsækjanda.
 3. Færni og styrkleikar umsækjanda.
 4. Samfélagsþátttaka, valdefling og virkni umsækjanda.

Starfsfólk félagsþjónustunnar er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði, svo sem ef barni er hætta búin.

Kostnaður vegna félagslegrar heimaþjónustu er háð gjaldskrá sveitarfélagsins

Heimsendur matur

(efni í vinnslu)

Réttindagæsla

Fatlað fólk getur leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi þess, fjárm2uni og önnur persónuleg mál. Réttindagæslumaður veitir stuðning og aðstoð við úrlausn mála.  

Þeir sem telja að brotið sé á réttindum fatlaðs fólks eiga að tilkynna það réttindagæslumanni. Hann getur einnig tekið upp mál að eigin frumkvæði. Starfsmönnum er skylt að veita réttindagæslumanni þær upplýsingar sem hann þarf vegna starfs síns. 

Fatlað fólk sem á erfitt með að gæta réttar síns getur valið sér persónulegan talsmann sem hjálpar því að koma óskum sínum á framfæri.  Talsmaðurinn aðstoðar fólk við að gæta réttar síns og við önnur persónuleg málefni,  svo sem meðferð heilbrigðisstarfsmanna, val á búsetu, atvinnu, tómstundum og ráðstöfun fjármuna. 

Skilyrði fyrir því að verða persónulegur talsmaður er þekking á persónulegum þörfum og áhugamálum þess sem hann aðstoðar. Starf persónulegs talsmanns er ólaunað en hann fær endurgreiddan kostnað vegna starfa sinna.

Nánari upplýsingar

á vef Stjórnarráðs Íslands

 

Getum við bætt efni síðunnar?