Börn og fjölskyldur
Barnaverndarþjónusta
Markmið barnaverndarþjónustu er að tryggja börnum viðunandi uppeldisskilyrði með því að styrkja fjölskyldur og beita úrræðum til verndar einstaka börnum þegar það á við. Með börnum er átt við einstakling undir 18 ára aldri.
Hvert á að hringja ef áhyggjur af barni koma upp?
Viljir þú tilkynna um aðstæður barns getur þú hringt í síma 425 3000 á dagvinnutíma og fengið að ræða við félagsráðgjafa. Komi upp neyðartilvik eftir að skrifstofu hefur verið lokað, getur þú hringt í 112 og sagt frá áhyggjum þínum.
Hver getur tilkynnt til barnaverndarþjónustu?
Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Einnig er skylt að tilkynna ef grunur leikur á að lífi ófædds barns sé stofnað í hættu.
Almenningur getur tilkynnt til barnaverndarþjónustu undir nafnleynd. Það þýðir að þó barnaverndarstarfsmaður fái nafn og símanúmer þess sem tilkynnir þá mun starfsmaðurinn halda því leyndu fyrir þeim sem málið snýr að. Þeir sem hafa afskipti af börnum, svo sem starfmenn leikskóla, skóla, frístunda og heilbrigðisstofnanna er skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu. Nafnleynd á ekki við um þessa aðila þegar kemur að tilkynningum.
Hvað gæti legið að baki tilkynningu um aðstæður barna og unglinga?
- Endurtekin slys og óhöpp sem hægt hefði verið að fyrirbyggja
- Endurteknir áverkar sem barn á erfitt með að útskýra
- Vannæring
- Lélegur fatnaður og umhirða sem samræmist ekki aðstæðum
- Óeðlileg útivist og endurtekin brot á útivistarreglum
- Áfengis- eða vímuefnaneysla foreldra
- Almennt vanhæfi foreldra
- Atriði sem sérstaklega varða unglinga
- Áfengis- og vímuefnaneysla
- Léleg skólasókn
- Endurtekin afbrot
- Ofbeldishegðun
- Þunglyndi, geðræn vandkvæði, sjálfsvígshugleiðingar
Hvað gerir barnaverndarþjónusta?
Þegar barnaverndarþjónusta hefur fengið tilkynningu um barn, meta barnaverndarstarfsmenn hvort ástæða sé til að kanna málið nánar. Foreldrar barns eru í flestum tilvikum látnir vita af tilkynningu og vinnunni sem mun fara í gang. Undartekningar eiga við ef barn er talið vera í hættu í umsjá foreldra og það talið þjóna hagsmunum barnsins að foreldri viti ekki af könnuninni í bili.
Vinna barnaverndarþjónustu sem fer af stað þegar ákvörðun hefur verið tekinn um að kanna skuli málið, felst í því að fá greinargóðar upplýsingar um barnið og hagi þess svo stuðningur og aðstoð við barn, foreldra og fjölskyldu verði sem markvissastur. Í flestum tilfellum felst stuðningur barnaverndarþjónustu í stuðningsviðtölum, ráðgjöf, fræðslu og leiðbeiningum. Gangi samstarf milli barnaverndarþjónustu og foreldra ekki upp og aðstæður barns eru enn taldar óviðunandi getur reynst nauðsynlegt að barn fari í fóstur. Mikilvægt er að hafa í huga að fósturráðstöfun kemur aðeins til greina ef öll önnur og vægari úrræði hafa ekki skilað tilsettum árangri.
Tenglar
- Barnahús
- Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna
- Barnaverndarlög
- Barnaverndarstofa
- Umboðsmaður barna
- Viltu tilkynna aðstæður barns?
Tengd skjöl
Uppeldisleg ráðgjöf
Samkvæmt lögum um félagþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 er sveitarfélögum skylt að veita félagslega ráðgjöf, í henni felst m.a. uppeldisleg ráðgjöf. Foreldrum í sveitarfélögum stendur til boða að leita uppeldislegrar ráðgjafar hjá verkefnastjóra fjölskylduverndar, sem og öðrum starfsmönnum félagþjónustu og barnaverndar. Markmið með uppeldislegri ráðgjöf er að auka færni foreldra í uppeldishlutverki sínu og draga úr hegðunarvanda barna.
Foreldrar geta sjálfir sótt um uppeldislega ráðgjöf með því að hafa samband við þjónustuver Suðurnesjabæjar. Grunnskólarnir í Suðurnesjabæ hafa einnig verið milligönguaðilar um tilvísun í uppeldislega ráðgjöf. Foreldrar hafa rétt á 5-10 tímum, sér að kostnaðarlausu.
Heimilisofbeldi
Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi frá sínum nánustu.
Mikilvægt er að þeir sem búa við heimilisofbeldi hafi samband við Lögregluna á Suðurnesjum í gegnum Neyðarlínuna með því að hringja í 112. Einnig er hægt að hafa samband við félagsþjónustu Suðurnesjabæjar í síma 425 3000.
Verklagið hjá lögreglunni og félagsþjónustu Suðurnesjabæjar byggist á því að farið er á heimili þegar tilkynning berst til lögreglu um heimilisofbeldi. Á heimilinu er veitt fyrsta hjálp ásamt því að rannsaka málið. Ákveðin eftirfylgni er í málunum sem felst í að starfsmaður félagsþjónustu hefur samband við þolanda innan þriggja daga til að meta þörf á stuðningi og að veita upplýsingar um úrræði. Meintum geranda er einnig boðið að koma í viðtal til að fara yfir hans stöðu. Lögreglan og starfsmaður félagsþjónustu fara svo á heimili þolenda til að fara yfir stöðuna.
Heimilisofbeldi getur haft varanleg áhrif á andlega og líkamlegu heilsu þolandans. Börn eru líka þolendur heimilisofbeldis og þróa oft með sér ákveðin einkenni eins og depurð, lágt sjálfsmat, verkkvíða, skerta félagsfærni, samskiptavanda og margvíslegan tilfinninga- og hegðunarvanda. Það er því mikilvægt að mæta líka þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi og veita þeim viðeigandi stuðning svo þau geti unnið úr reynslu sinni.
Stuðningsþjónusta í formi félagslegrar liðveislu
Félagsleg liðveisla er persónulegur stuðningur og aðstoð sem einkum miðar að því að draga úr félagslegri einangrun og styrkja fólk til þátttöku í menningar- og félagslífi. Þjónustan getur verið veitt tímabundið eða til lengri tíma, allt eftir aðstæðum.
Umsókn um stuðningþjónustu fyrir börn
Félagsleg ráðgjöf
Markmið félagslegrar ráðgjafar er tvíþætt; annars vegar að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál og hins vegar stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda.
Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinga og fjölskyldur til sjálfshjálpar þannig að hver og einn geti notið sín sem best í samfélaginu.
Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar á eftirtöldum sviðum:
- Fjárhagsvanda og fjármála að öðru leyti
- Húsnæðisvanda
- Atvinnuleysis
- Samskipta innan fjölskyldna, meðal annars sambúðarvanda
- Uppeldismála og málefna barna og unglinga
- Hjónaskilnaða og sambúðarslita
- Ættleiðingarmála
- Áfengis- og vímuefnavanda
- Skertrar færni og fötlunar
- Aðstæðna á efri árum
- Vegna umsókna um stofnanavistun
Ávallt er leitast við að veita ráðgjöfina í samhengi við önnur úrræði ef við á og tengja hana þjónustu annarra aðila eftir því sem hentar, svo sem skóla, heilsugæslustöðvar o.fl.
Félagsleg ráðgjöf er meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Allir sem orðnir eru 18 ára og eiga lögheimili í Suðurnesjabæ geta leitað ráðgjafar sér að kostnaðarlausu með því að snúa sér til félagsþjónustu sveitarfélagsins.
Flugið
er forvarnarverkefni þar sem unnið er gegn brottfalli ungmenna úr námi og starfi. Flugið er samstarfsverkefni milli Grunnskóla og Fjölskyldusviðs Suðurnesjabæjar. Þátttakendur eru nemendur í 10. bekk grunnskólanna og forráðamenn þeirra, námsráðgjafar og fulltrúi félagsþjónustunnar. Námsráðgjafi grunnskólanna í Suðurnesjabæ sér um að tilvísunarferli í Flugið.
Markmið Flugsins er að efla sjálfsmat og sjálfstraust ungs fólks sem eru í áhættuhópi og vinna með þeim á fyrirbyggjandi hátt. Að efla þrautseigju og einbeitningu ásamt því að tryggja virkni. Fylgst er með gengi nemenda eftir að þeir yfirgefa grunnskóla og veita þeim sem þurfa stuðning og aðstoð til að vera virk í starfi og námi.
Samstarfsstofnanir eru: Fræðsluráð Suðurnesjabæjar, Gerðaskóli, Sandgerðisskóli, Fjölbrautarskóli Suðurnesja, Fjölskyldusvið Suðurnesjabæjar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Félagsmiðstöðvar í Suðurnesjabæ ásamt foreldrafélögum í sveitafélaginu.