Fara í efni

Lausar lóðir

Umsókn um lóð

Umsóknum skal skilað á skrifstofu skipulags- og umhverfissviðs eða sendar undirritaðar á pdf formi á netfangið afgreidsla@sudurnesjabaer.is

Umsóknir þurfa að berast með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir næsta áætlaðan fund Framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar. 

Næsti fundur er áætlaður þann 22. janúar

 

Reglur um úthlutun lóða í Suðurnesjabæ

I. Almennar reglur

Framkvæmda-og skipulagsráði Suðurnesjabæjar er falið það verkefni í umboði bæjarstjórnar að úthluta byggingarlóðum samkvæmt eftirfarandi reglum, með undantekningum og í sérstökum tilvikum sbr. 8. og 9. gr.

 1. Auglýsing lóða

  • a.  Allar lóðir skulu auglýstar áður en þeim er úthlutað í fyrsta sinn, sjá þó 8. og 9. gr.  Lóðir sem koma til endurúthlutunar vegna þess að lóðarhafi hefur hætt við byggingu eða ekki staðið við skuldbindingar sínar, skulu auglýstar á ný. Umsóknarfrestur skal vera minnst ein vika frá því að auglýsing um lóðir birtist.
  • b.  Auglýsingar um nýjar lóðir og endurúthlutun lóða skal birta á vef Suðurnesjabæjar, sudurnesjabaer.is.
  • c.  Á vef Suðurnesjabæjar skal hverju sinni vera listi yfir lóðir sem auglýstar hafa verið og eru enn til úthlutunar.
  • d.  Áður en lóð er auglýst til úthlutunar eða til stendur að úthluta þegar auglýstri lóð, skal liggja fyrir áætlun skipulags-og umhverfissviðs um gatna-og lagnakerfi. Í þeirri áætlun þarf að koma fram hvenær viðkomandi lóð getur talist byggingarhæf, þ.e. hvenær hún getur tengst viðkomandi gatna-og lagnakerfi. Óheimilt er að úthluta lóð ef áætlun liggur ekki fyrir við afgreiðslu úthlutunar.

 2. Umsóknir um lóðir

  • a.  Umsóknir um lóðir skulu berast skipulags- og umhverfissviði gegnum vef Suðurnesjabæjar.  Einnig má skila umsóknum á þar til gerðum eyðublöðum sem má nálgast á vef eða á skrifstofu skipulags-og umhverfissviðs.  Ef ekki eru veittar tilskyldar upplýsingar samkvæmt forskrift í umsóknarformi, telst umsókn ógild. Komi í ljós eftir úthlutun lóðar að lóðarhafi hafi veitt rangar og/eða villandi upplýsingar vegna lóðarumsóknar, er heimilt að afturkalla lóðarúthlutun.
  • b.  Ef fjöldi gildra umsókna um auglýstar lóðir er meiri en fjöldi lóða sem í boði eru, skal dregið um umsækjendur. Framkvæmda-og skipulagsráði er heimilt að ákveða við hvern útdrátt að draga fleiri umsóknir til vara þegar dregið er um hverja lóð. Útdráttur skal fara fram á reglulegum fundum Framkvæmda-og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar og er umsækjendum sem þess óska heimilt að vera viðstaddir dráttinn. Ef ástæða þykir til, t.d. ef fjöldi umsókna er verulegur, er framkvæmda-og skipulagsráði heimilt að halda sérstakan fund til útdráttar.

 3. Kröfur til umsækjenda og/eða umsókna

  • a.  Umsóknir teljast aðeins gildar ef þær hafa borist á rétt útfylltu þar til gerðu umsóknarformi  með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara fyrir næsta áætlaðan fund Framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar.
  • b.  Umsækjendur skulu vera fjárráða og ekki vera í fjárhagslegum vanskilum við sveitarfélagið.
  • c.  Umsækjandi má ekki vera í gjaldþrotaskiptum, hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar eða leitað nauðasamninga eða árangurslausrar aðfarargerðar 3 mánuðum fyrir umsóknardag.
  • d.  Ef umsækjandi er lögaðili skal hann vera í skilum með opinber gjöld þ.m.t. tryggingargjald, virðisaukaskatt og lífeyrissjóðsgjald. Skila skal inn vottorði þess efnis frá sýslumanni ef þess er sérstaklega óskað.
  • e.  Umsækjendur skulu leggja fram skriflega staðfestingu frá banka eða lánastofnun um greiðsluhæfi og möguleika á lánafyrirgreiðslu vegna fyrirhugaðrar húsbyggingar. Í auglýsingum um byggingarlóðir eru tilgreind þau lágmarksviðmið sem viðhöfð eru á hverjum tíma. Til hliðsjónar skal hafa fasteignamat sambærilegs húsnæðis.
  • f.  Umsækjandi og maki/sambúðaraðili hans teljast sem einn aðili.
  • g.  Hafi einstaklingur þegar fengið úthlutaðri lóð án þess að hafa hafið framkvæmdir kemur viðkomandi ekki til greina við úthlutun á nýjum lóðum.
  • h.  Hafi lögaðili fengið úthlutað fleiri en einni lóð skal hann hafa hafið framkvæmdir við hluta lóðanna til að viðkomandi komi til greina við úthlutun á nýjum lóðum.

 4. Gildistaka úthlutunar

Til þess að úthlutun lóðar öðlist gildi skal umsækjandi hafa skilað inn undirrituðum úthlutunarskilmálum og greitt gjöld sem áskilin eru samkvæmt úthlutunarskilmálum.

II. Lóðir undir einbýlishús

 5. Úthlutun lóða undir einbýlishús

Við úthlutun lóða undir einbýlishús skulu einstaklingar hafa forgang, enda uppfylli umsóknir þeirra þau skilyrði sem kveðið er á um í reglum þessum. Forgangur takmarkast þó af því að viðkomandi einstaklingur, maki hans eða sambúðaraðili hafi ekki fengið lóðaúthlutun á síðustu 5 árum og takmarkast við eina lóð. Þeim einbýlishúsalóðum sem ekki ganga út til forgangsaðila verður úthlutað til annarra sem leggja fram fullgildar umsóknir. Umsókn hjóna/sambúðarfólks skal vera sameiginleg.

 III. Lóðir undir raðhús, parhús og fjölbýlishús

 6. Úthlutun lóða undir raðhús, parhús og fjölbýlishús

  • a.  Lóðum fyrir raðhús eða fjölbýlishús skal úthlutað til lögaðila í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.
  • b.  Við úthlutun á parhúsalóðum koma lögaðilar í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, sem og einstaklinga jafnt til greina, ef um er að ræða sameiginlega umsókn um báðar íbúðir á lóðinni.

Hjón, sambýlisfólk eða starfsmenn lögaðila skoðast sem sami umsóknaraðili þegar sótt er um lóðir sem eiga undir a. og b. lið þessarar greinar.

 IV. Aðrar lóðir

 7. Úthlutun annarra lóða

Við úthlutun lóða, annarra en íbúðarhúsalóða, skulu umsækjendur tilgreina með glöggum hætti byggingaráform sín og framkvæmdahraða.  Leggja ber mat á þarfir umsækjanda um lóð, en verði ekki hægt að greina á milli umsækjenda á þeim forsendum skal beita reglum þessum eftir því sem við á hverju sinni.

8. Veiting vilyrða fyrir lóðum

Framkvæmda- og skipulagsráði er í sérstökum tilvikum heimilt að veita vilyrði fyrir lóðum, án undangenginna auglýsinga, þegar sótt er um lóðir innan skipulagðra svæða eða á óskipulögðum svæðum. Framkvæmda- og skipulagsráð ákveður þegar vilyrði er veitt hversu lengi það skal gilda, þó ekki lengur en 6 mánuði. Umsækjandi getur sótt um framlengingu á gildistíma vilyrðis ef lóð er ekki byggingarhæf, af ástæðum sem varða sveitarfélagið, innan þess tíma sem vilyrðið gildir.

Framkvæmda- og skipulagsráði  er heimilt að krefja umsækjanda lóðar um gjald ef byggingaráform umsækjanda krefjast breytinga á deiliskipulagi sem falla ekki undir 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Upphæð gjaldsins skal ákveðin með hliðsjón af kostnaði við nauðsynlega breytingu á deiliskipulagi, enda sé hún gerð með samþykki umsækjanda.

Endanleg úthlutun getur aldrei farið fram fyrr en að lokinni skipulagsvinnu, sé hennar þörf og að fengnu samþykki bæjarstjórnar.

9. Útboð lóða eða byggingarréttar

Bæjarstjórn getur ákveðið að lóð eða byggingarréttur á lóð sé boðinn út. Sé lóð eða byggingarréttur á lóð boðinn út gilda ákvæði í útboðsskilmálum, ef ágreiningur er um aðra skilmála og reglur.

 V. Ýmis ákvæði

 10. Ákvæði um gildistíma úthlutunar

  • a.  Við úthlutun allra lóða skal frestur lóðarhafa til að hefja framkvæmdir á lóðinni vera 8 mánuðir frá því lóð er tilbúin fyrir byggingarframkvæmdir.  Lóð telst tilbúin fyrir byggingarframkvæmdir þegar gatnagerð er lokið og stofnkerfi lagna fyrir viðkomandi lóð er tilbúið, sbr. gr. 1 d.  Framkvæmdir teljast hafnar þegar lokið er við undirstöður undir fyrirhugaða byggingu.  Framlenging á frestinum kemur því aðeins til greina að lóðarhafi sæki um slíkt skriflega áður en fresturinn rennur út og geti fært fram rök fyrir slíkri beiðni.  Óheimilt er að veita lengri frest en sem nemur 4 mánuðum.
  • b.  Úthlutun fellur úr gildi ef frestur rennur út án þess að lóðarhafi hefji byggingarframkvæmdir eða setji fram rökstudda beiðni um lengri frest.
  • c.  Við úthlutun lóða skal taka tillit til þess hvort viðkomandi hefur staðið við skuldbindingar sínar vegna fyrri úthlutana, þar með talið að eðlileg framvinda hafi verið í byggingarframkvæmdum.
  • d.  Tilkynna skal lóðarhafa með skriflegum hætti að úthlutun sé fallin úr gildi. Um endurgreiðslu gjalda vegna úthlutunar sem felld er úr gildi vísast til samþykktar um gatnagerðargjöld í Suðurnesjabæ.
  • e.  Afturkalla skal lóðarúthlutun ef lóðarhafi greiðir ekki gatnagerðargjald á tilskildum tíma í samræmi við samþykkt um gatnagerðargjöld í Suðurnesjabæ.

 11. Meðhöndlun umsókna

Við alla afgreiðslu umsókna og meðhöndlun þeirra skal gæta jafnræðis og samræmis í samræmi við ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

12. Persónuupplýsingar

Við meðferð mála og varðveislu gagna vinnur Suðurnesjabær eftir þeim lögum sem um það gilda.  Nöfn umsóknaraðila sem hljóta úthlutun lóða eru birt í fundargerðum framkvæmda-og skipulagsráðs.

13. Svör við umsóknum

Að lokinni úthlutun skal öllum umsækjendum svarað með formlegum hætti innan fimm virkra daga frá afgreiðslu úthlutunar..

 VI. Lóðaleigusamningar

 14. Gerð lóðaleigusamninga

Lóðarleigusamningur verður ekki gerður fyrr en eftirfarandi skilyrðum hefur verið fullnægt:

  • a.  Að öll gjöld hafi verið greidd að fullu eða um þau samið við Suðurnesjabæ.
  • b.  Þegar jarðvegsskiptum undir fyrirhugaða byggingu er lokið. Þegar lokið er við undirstöður undir viðkomandi mannvirki.
  • c.  Eignaskiptayfirlýsing skal liggja fyrir, sbr 16. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 með síðari breytingum.
  • d.  Lóðarhafi ber kostnað af þinglýsingu lóðarleigusamnings.

 VII. Önnur ákvæði

  • a.  Framkvæmda-og skipulagsráð Suðurnesjabæjar getur sett ítarlegri ákvæði eða skilmála við úthlutun lóða
  • b.  Lóðarhafa er óheimilt að framselja lóð sem hann hefur fengið úthlutað til þriðja aðila fyrr en lóðarleigusamningur hefur verið gefinn út.

 VIII. Gildistaka

Reglur þessar voru samþykktar í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar þann 8. maí 2024 og öðlast þegar gildi.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri

Lóðir fyrir íbúðarhúsnæði- Úthlutunarskilmálar

Suðurnesjabær, sem umráðandi að skipulögðu byggingarlandi, setur eftirfarandi úthlutunarskilmála sem gilda við úthlutun lóða fyrir íbúðarhúsnæði í Suðurnesjabæ og byggja á reglum um úthlutun lóða í Suðurnesjabæ.

1. Almenn ákvæði

Úthlutunarskilmálarnir gilda gagnvart öllum þeim sem úthlutað fá byggingarlóð í Suðurnesjabæ undir íbúðahúsnæði. Af hálfu Suðurnesjabæjar er það forsenda fyrir lóðarúthlutun, að hver sá er úthlutun hlýtur skuli samþykkja skilmálana og þær skuldbindingar sem þar kveður á um og hlíti þeim að öllu leyti. Þar sem skipulagsskilmála og almenna úthlutunarskilmála greinir á, gilda skipulagsskilmálar. Lóðin er afhent í því ástandi sem hún er í við úthlutun hennar.

2. Lóðarhafi

Hver sá, sem fær úthlutað byggingarrétti á lóð er hér eftir nefndur lóðarhafi. Lóðarhafi hefur skyldum að gegna og ber ábyrgð á lóðinni, framkvæmdum á henni og frágangi, gagnvart Suðurnesjabæ.

3. Ýmis gjöld

  • a.  Staðfestingargjald lóðar: Hver sá, er fær lóð úthlutað (lóðarhafi), skal greiða óafturkræft staðfestingargjald kr. 350.000 af hverri lóð eða hverri íbúðareiningu innan eins mánaðar frá því að lóð var úthlutað, ella fellur úthlutunin úr gildi. Staðfestingargjald gengur upp í leyfisveitinga og þjónustugjöld við samþykkt byggingaráforma, sjá lið c.
  • b.  Gatnagerðargjald: Hver sá, er fær lóð úthlutað (lóðarhafi), skal greiða gatnagerðargjald af lóðinni sem ákveðin eru við samþykkt byggingaráforma samkvæmt lögum nr. 153/2006 og samþykkta gjaldskrá um gatnagerðargjöld í Suðurnesjabæ. Við útgáfu byggingarleyfis skal byggingarleyfishafi hafa staðið skil á greiðslu gatnagerðargjalds eða hafa gengið frá greiðslufyrirkomulagi við sveitarfélagið með viðunandi tryggingum. Byggingarleyfishafi skal þó hafa staðið fullnaðarskil á greiðslu gatnagerðargjalda eigi síðar en við fokheldi.
  • c.  Leyfisveitinga- og þjónustugjöld: Lóðarhafa ber að greiða gjöld fyrir leyfisveitingar og þjónustu skipulags- og byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar, samkvæmt gildandi gjaldskrá þar um. Gjöld þessi eru ákveðin við samþykkt byggingaráforma og skulu greidd samhliða endanlegum útreikningi á gatnagerðargjöldum.
  • d.  Heimlagnagjöld: Lóðarhafa ber að greiða stofngjald fráveitu til Suðurnesjabæjar, samkvæmt gildandi gjaldskrá þar um. Frárennslislagnir eru lagðar allt að 1 metra inn fyrir lóðarmörk. Lóðahafa í byggðakjarnanum Sandgerði ber að greiða heimæðargjald vatnsveitu til Suðurnesjabæjar, samkvæmt gildandi gjaldskrá þar um. Heimæð fyrir kalt vatn er lögð inn í inntaksrými húss. Heimlagnagjöld í Garði vegna rafmagns, heitu og köldu vatni og í Sandgerði vegna rafmagns og heitu vatni eru samkvæmt skilmálum og gjaldskrá HS Veitna.
  • e.  Skipulagsgjald: Skipulagsgjald er 0,3% af brunabótarmati og er innheimt af tollstjóra.

4. Fylgigögn lóðarúthlutunar og gildistími.

Auk þessara skilmála skal lóðarhafi fá afhent lóðarblað (hæðar- og mæliblað) ásamt gildandi deiliskipulagi og skilmálum þess.

Aðaluppdrættir, fullunnir án athugasemda og tilbúnir til samþykktar, skulu berast til byggingarfulltrúa eigi síðar en 6 mánuðum eftir undirritun þessara úthlutunarskilmála. Verði skilyrði ekki fullnægt getur Suðurnesjabær afturkallað lóðarúthlutun umsækjanda. Afturköllunin skal vera skrifleg og birt með sannanlegum hætti.

5. Umsókn um byggingarleyfi og fylgigögn

Umsókn um byggingarleyfi skal vera skrifleg og send hlutaðeigandi leyfisveitanda. Á fyrra stigi umsóknar, þ.e. vegna byggingaráforma, skal skila inn eftirfarandi gögnum:

  • a.  Aðaluppdráttum.
  • b.  Tilkynning um hönnunarstjóra mannvirkisins.
  • c.  Skráningartöflu vegna mannvirkisins.
  • d.  Önnur gögn sem leyfisveitandi telur nauðsynleg vegna afgreiðslu umsóknar, s.s. umsögn Minjastofnunar Íslands, Vinnueftirlits ríkisins, Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og Brunavarna Suðurnesja.

Leyfisveitandi tilkynnir umsækjanda skriflega eða með tölvupósti um samþykkt byggingaráforma hans. Þessi tilkynning veitir umsækjanda ekki heimild til að hefjabyggingarframkvæmdir.

Á seinna stigi, þ.e. vegna endanlegrar afgreiðslu byggingarleyfis, skal skila inn eftirfarandi gögnum til viðbótar ofangreindum gögnum í lið a-d:

  • e.  Sér- og deiliuppdráttum ásamt nauðsynlegum fylgiskjölum.
  • f.  Undirritaða yfirlýsingu byggingarstjóra um ábyrgð á viðkomandi framkvæmd.
  • g.  Undirritaða yfirlýsingu iðnmeistara um ábyrgð á einstökum verkþáttum.
  • h.  Yfirlit hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar.
  • i.  Yfirlit hönnunarstjóra um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða og áritun hans til staðfestingar á því að um tæmandi yfirlit sé að ræða.

ATH. að skráð skal í gagnasafn Mannvirkjastofnunar að viðkomandi hönnunarstjóri, byggingarstjóri og iðnmeistarar hafi gæðastjórnunarkerfi í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 til að ábyrgðaryfirlýsing þeirra geti talist gild.

Heimilt er að samþykkja byggingaráform og gefa út byggingarleyfi samtímis hafi öllum gögnum verið skilað til leyfisveitanda.

6. Sérstakt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis

Skipulags- og byggingarfulltrúi getur óskað eftir að umsækjandi leggi fram yfirlýsingu frá viðurkenndri bankastofnun um að fjármögnun fyrirhugaðra framkvæmda sé tryggð samkvæmt fyrirhuguðum byggingaráformum áður en gefið er út byggingarleyfi.

Umsækjandi skal ekki vera í vanskilum við Suðurnesjabæ.

7. Gildistími byggingarleyfis

Byggingarleyfi fellur úr gildi hafi byggingarframkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Suðurnesjabær getur þá afturkallað lóðarúthlutun án kostnaðar. Framkvæmd telst vera hafin við fyrstu áfangaúttekt.

Stöðvist byggingarframkvæmdir í eitt ár eða lengur getur leyfisveitandi að undangenginni aðvörun fellt byggingarleyfið úr gildi og afturkallað lóðarúthlutun án kostnaðar. Það telst ekki nægjanleg framvinda verks að byggingarefni sé flutt á byggingarstað án þess að unnið sé frekar úr því.

Hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í tvö ár hið skemmsta getur leyfisveitandi tekið ófullgert mannvirki, byggingarefni og lóð eignarnámi samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. 

Suðurnesjabær áskilur sér rétt til að fresta upphafstíma framkvæmda, ef nauðsyn krefur. Suðurnesjabær er ekki bótaskyldur gagnvart lóðarhafa, þótt framkvæmdir tefjist af orsökum sem leiða af því að byggingaraðstaða er ekki talin vera fullnægjandi, s.s. vegir, vatn, holræsi og rafmagn.

8. Útsetning, gröftur o.fl.

Ein útsetning á lóðarmörkum og staðsetningu húss er innifalin í leyfisveitinga- og þjónustugjöldum. Komi til endurmælinga greiðast þær sérstaklega. Áður en að útsetningu mannvirkis kemur, verða sérteikningar fyrir sökkulveggi og fráveitulagnir í grunni að liggja fyrir.

Gröftur innan sem utan lóðarmarka er óheimill án samþykkis skipulags- og byggingarfulltrúa.

Lóðarhafi skal gefa Suðurnesjabæ kost á að nýta uppgröft úr lóð, sem að öðrum kosti er fluttur burt af svæðinu, án endurgjalds.

Vakin er athygli á, að ef fornleifar finnast við framkvæmdir skal fylgja fyrirmælum 24. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012.

9. Lóðarleiga, skattar og önnur gjöld.

Lóðarleigusamningur skal gefinn út við greiðslu gatnagerðargjalds. Lóðarhafi skal greiða lóðarleigu til Suðurnesjabæjar eða tilheyrandi lóðareiganda í samræmi við lóðarleigusamning. Lóðin er leigð til 50 ára.

Lóðarhafi greiðir alla skatta og gjöld til opinberra þarfa, sem lögð eru eða verða lögð á hina leigðu lóð.

10. Veðsetning.

Lóðarhafa er heimilt að veðsetja lóðarréttindi sem nemur greiddum hluta gatnagerðargjalds lóðarinnar. Ekki eru leyfðar frekari veðheimildir fyrr en við þinglýsingu á yfirlýsingu Suðurnesjabæjar um úttekt á fokheldi eignar. Lóðarhafi getur sótt um undanþágu frá þessari reglu til bæjarráðs vegna sérstakra aðstæðna.

11. Vanefndir.

Ef lóðarhafi skilar lóð, eða ef skilmálum þessum verður eigi fullnægt í samræmi við framangreinda fresti, greiðslur, gjalddaga eða önnur ákvæði, fellur lóðarúthlutunin niður.

Skal gatnagerðargjald þá endurgreitt og verðbætt, miðað við vísitölu byggingarkostnaðar, eftir því sem kveðið er á um í gjaldskrá um gatnagerðargjöld í Suðurnesjabæ. Heimilt er að fresta endurgreiðslu uns lóðin hefur verið úthlutað að nýju, þó almennt ekki lengur en í 90 daga frá því að lóðinni var skilað, eða hún afturkölluð vegna vanefnda.

Leyfisveitinga- og þjónustugjöld endurgreiðist ekki.

12. Sala á lóðarréttindum

Lóðinni er úthlutað til viðkomandi lóðarhafa til íbúðarhúsnæðis. Er honum óheimilt að ráðstafa lóðinni eða tilheyrandi mannvirkjum til annarra aðila eða breyta um nafn á lóðarúthlutun og/eða byggingarrétti fyrr en að loknu byggingarstigi B2-fokhelt, sbr. ÍST 51:2021, nema fyrir liggi samþykki bæjarráðs.

Brot á ákvæðinu varða því, að bæjarráði er heimilt að afturkalla lóðarúthlutunina og fellur lóðin þá aftur til bæjarins með tilheyrandi mannvirkjum og endurgreiðist þá gatnagerðargjald og kaupverð byggingarréttar miðað við gildandi byggingarvísitölu, en fyrir mannvirkin skal þá lóðarhafa einungis greiddur sannanlegur útlagður byggingarkostnaður, enda reynist mannvirkin nothæf fyrir þann, sem síðar fær lóðinni úthlutað. Greiðslur bæjarsjóðs skulu inntar af hendi innan 90 daga frá því Suðurnesjabær yfirtók lóðina að nýju. Vextir reiknast ekki af slíkum endurgreiðslum.

Skilmálar þessir gilda sem skilyrði Suðurnesjabæjar gagnvart hverjum þeim er fær úthlutaða lóð undir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu.

Suðurnesjabæ 8. maí 2024

Skipulags- og bygginarfulltrúi Suðurnesjabæjar

Jón Ben Einarsson

Getum við bætt efni síðunnar?