Eldri borgarar
Dagdvöl aldraðra
Dagdvöl aldraðra í Suðurnesjabæ var opnuð 8. febrúar 2022. Markmið dagdvalarinnar er að stuðla að áframhaldandi sjálfstæðri búsetu aldraðra heima með því að veita þann stuðning sem þarf til að viðhalda færni og getu einstaklingsins sem og að rjúfa félagslega einangrun. Þjónustan er ætluð einstaklingum með lögheimili í Suðurnesjabæ og Sveitafélaginu Vogum.
Dagdvölin er opin fimm daga vikunnar og geta einstaklingar valið sjálfir hversu mikið þeir vilja nýta sér þjónustuna þ.e. það getur verið allt frá einum degi upp í alla virka daga. Opið er alla virka daga frá kl. 08:00-15:30
Í dagdvölinni verður boðið upp á eftirfarandi:
- Morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu
- Félagslegur stuðningur
- Eftirlit með heilsufari
- Aðstoð við böðun og persónulega umhirðu
- Líkamsþjálfun
- Tómstundariðju
- Akstur að heiman og heim
Frekari upplýsingar veitir forstöðumaður Steinunn Anna Helgadóttir í síma 425 3192 eða í tölvupósti steinunn@sudurnesjabaer.is
Sótt er um dagdvöl á sérstöku umsóknareyðublaði.
Kostnaður vegna dagdvalar er háð gjaldskrá sveitarfélagsins
Stuðningsþjónusta í formi félagslegrar heimaþjónustu
Stuðningsþjónusta í formi félagslegrar heimaþjónustu felur í sér að efla þjónustuþega til sjálfshjálpar og stuðla að því að viðkomandi geti búið sem lengst í heimahúsi. Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er meðal annars:
- Aðstoð við heimilishald, heimilisþrif
- Aðstoð við persónulega umhirðu, (stuðningur við athafnir daglegs lífs)
- Aðstoð með búðarferðir
- Félagslegur stuðningur
- Öryggisinnlit
Umsóknarferlið og þjónustuþörf
Umsækjendur skulu fylla út skriflega umsókn á þar til gerðu eyðublaði. Í kjölfarið er þjónustuþörfin metin, í hverju tilviki fyrir sig. Mat á þjónustuþörf er ávallt unnin í samvinnu við umsækjanda og leitast er við að veita þjónustu sem hann eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir. Forsendur þjónustunnar er að notandi þjónustunnar búi í heimahúsi og geti ekki séð um heimilishald og persónulega umhirði vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í þeim tilvikum sem umsækjandi deilir heimili með fullorðnum einstaklingi (þ.e. 18 ára og eldri), sem á ekki við veikindi að stríða, er að öllu jöfnu ekki veitt félagsleg heimaþjónusta.
Við mat á þjónustuþörf skulu að minnsta kosti eftirfarandi fjórir meginþættir skoðaðir sem hafa áhrif á athafnir daglegs lífs:
1. Þörf umsækjanda fyrir þjónustu.
2. Félagslegar aðstæður umsækjanda.
3. Færni og styrkleikar umsækjanda.
4. Samfélagsþátttaka, valdefling og virkni umsækjanda.
Starfsfólk félagsþjónustunnar er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði, svo sem ef barni er hætta búin.
Kostnaður vegna félagslegrar heimaþjónustu er háð gjaldskrá sveitarfélagsins
Heimsendur matur
Þeir sem af heilsufarsástæðum geta hvorki annast matseld sjálfir né komist ferða sinna hjálparlaust geta fengið heimsendan mat alla virka daga. Maturinn er framreiddur í eldhúsi í Miðhúsum, félagsmiðstöð aldraðra í Suðurnesjabæ og keyrður heim til viðkomandi um hádegisbil. Greiðsluseðill er sendur í heimabanka mánaðarlega.
Panta þarf heimsendingu með dags fyrirvara. Sama á við ef gera þarf breytingar á áskrift.
Sími: 425 3170. Tölvupóstfang: vilma@sudurnesjabaer.is
Nálgast má matseðla Miðhúsa á facebooksíðu Suðurnesjabæjar
Kostnaður á heimsendum mat er háð gjaldskrá sveitarfélagsins
Eldri borgarar húsnæði
Íbúðir fyrir 60 ára og eldri
Íbúðum eldri borgara í Miðhúsum og við Melteig í eigu Suðurnesjabæjar er ætlað að vera húsnæðisvalkostur fyrir íbúa Suðurnesjabæjar sem eru orðnir 60 ára og eldri.
Í Miðhúsum er aðgengi að skipulögðu félagsstarfi og mötuneyti.
Ekki er um sérstakt þjónustuúræði að ræða en íbúum stendur samskonar þjónusta til boða eins og öðrum íbúum sveitarfélagsins sem búa á einkaheimilum.