Fara í efni

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja var vígð 1887 en Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, og um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Þá var mikil endurnýjun á kirkjunni á árinu 2019. Altaristafla Hvalsneskirkju sýnir upprisuna og er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni. Altarsitaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886.Kirkjan sem er friðuð er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns.

Hallgrímur Petursson (1614-1674) mesta sálmaskáld Íslendinga þjónaði sem prestur í Hvalssnessókn á árunum 1644 til 1651. Á Hvalsnesi bjó Hallgrímur ásamt konu sinni Guðríði Símonardóttur (1598-1682) sem betur er þekkt undir nafninu Tyrkja- Gudda. Einn merkasti gripur  Hvalsneskirkju er legsteinn yfir Steinunni  dóttur þeirra sem dó á fjórða ári (1649).  Legsteinninn fannst þegar gerðar voru  endurbætur á kirkjunni árið 1964 þar sem hún hafði verið notuð sem hella í stéttina framan við kirkjuna.

 

Getum við bætt efni síðunnar?