Fara í efni

Um Suðurnesjabæ

Aðdragandi og sameining

Þann 10. júní 2018 tók til starfa sameinað sveitarfélag Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs. Aðdragandi sameiningar sveitarfélaganna nær aftur til mars 2016, þegar bæjarstjórnir sveitarfélaganna áttu óformlegan fund í fundarsal bæjarstjórnar í Garði um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Í apríl 2016 hittust bæjarstjórnir sveitarfélaganna aftur á óformlegum fundi í Vörðunni í Sandgerði þar sem umræðum var fram haldið. Á þann fund mættu fulltrúar sveitarstjórnarráðuneytis og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem farið var yfir ákvæði laga um sameiningu sveitarfélaga og reglur Jöfnunarsjóðs.

Eftir þessa óformlegu fundi var fjallað um málið í bæjarstjórnum og bæjarráðum sveitarfélaganna og í desember 2016 var samþykkt að hefja óformlega vinnu við könnun á kostum þess og ókostum að sveitarfélögin sameinuðust.

Eftir samþykktir bæjarstjórnanna var skipaður vinnuhópur þriggja fulltrúa frá hvoru sveitarfélagi til að vinna að verkefninu og samið var við KPMG um ráðgjöf, greiningar og úttektir, ásamt vinnslu sviðsmynda. Sett var það markmið að fyrir lok maí 2017 skyldu liggja fyrir niðurstöður þessarar vinnu. Í framhaldi myndu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka afstöðu til þess hvort þá skyldi staðar numið eða hvort verkefninu yrði haldið áfram á forsendum sveitarstjórnarlaga og þar með væri tekin ákvörðun um að fram fari atkvæðagreiðsla meðal íbúa um sameiningartillögu. Eftir víðtækt samráð, m.a. íbúafundi í báðum sveitarfélögunum, lá skýrsla um samantekt KPMG fyrir í lok maí 2017 sem kynnt var á íbúafundum í báðum sveitarfélögunum. Á fundum bæjarstjórna sveitarfélaganna í júní 2017 var samþykkt að halda verkefninu áfram á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga og skipuð var samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna sem í sátu þrír fulltrúar frá hvoru sveitarfélagi. Nefndin lauk sínum störfum og þann 11. nóvember 2017 kusu íbúar sveitarfélaganna um sameiningartillögu. Niðurstaða kosningarinnar voru að sameining sveitarfélaganna var samþykkt, bæði í Sandgerðisbæ og Sveitarfélaginu Garði. 

Eftir að sameining sveitarfélaganna hafði verið samþykkt í íbúakosningu var hafinn undirbúningur að því að sameinað sveitarfélag tæki til starfa. Gengið var út frá því að í almennum sveitarstjórnarkosningum í maí 2018 yrði kosin níu manna bæjarstjórn fyrir hið sameinaða sveitarfélag. Jafnframt voru ráðgjafar fengnir til samstarfs til að vinna að undirbúningi þess að sameinað sveitarfélag tæki til starfa. 

Í almennum sveitarstjórnarkosningum þann 26. maí 2018 voru kjörnir níu bæjarfulltrúar til setu í bæjarstjórn hins sameinaða sveitarfélags og tók nýtt sveitarfélag til starfa þann 10. júní 2018 sem gekk undir heitinu Sameinað sveitarfélag sveitarfélagsins Garð og Sandgerðisbæjar. 

Nafn sveitarfélagsins

Eitt af þeim verkefnum sem leysa þurfti í aðdraganda þess að nýtt sveitarfélag tæki til starfa var að finna því nafn. Skipuð var nafnanefnd sem samanstóð af almennum íbúum úr hvoru sveitarfélagi fyrir sig með það verkefni að leita eftir ábendingum um nafn á nýja sveitarfélagið og gera tillögur um nöfn sem íbúar myndu kjósa um. Nefndin skilaði sínu verkefni, m.a. með samskiptum við Örnefnanefnd en áskilið er að Örnefnanefnd gefi álit um þær tillögur að nöfnum sem unnið er með. Í apríl 2018 fór fram rafræn kosning meðal íbúa þar sem kosið var milli þriggja tillagna um nafn. Nafnið Heiðarbyggð fékk þar flest atkvæði en ljóst var að kosningaþátttaka íbúa var mjög dræm. Þegar ný bæjarstjórn tók til starfa í júní 2018 var tekin ákvörðun um að fara ekki eftir niðurstöðum rafrænnar kosningar og málið sett í nýtt ferli. Þann 3. nóvember 2018 fór fram ný kosning þar sem íbúar mættu á kjörstað og kusu um þrjár tillögur að nöfnum. Niðurstaða kosningarinnar var sú að nafnið Suðurnesjabær hlaut lang flest atkvæði, eða 75,3% greiddra atkvæða. Á fundi bæjarstjórnar þann 7. nóvember 2018 var samþykkt samhljóða að óska eftir staðfestingu samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytisins á nafninu Suðurnesjabær. Þrátt fyrir að í áliti Örnefnanefndar kæmi fram að nefndin mælti ekki með nafninu staðfesti ráðherra nafnið með bréfi dags. 20. desember 2018. Nafnið Suðurnesjabær tók gildi þann 1. janúar 2019.

 Byggðamerki

Þegar fyrir lá að sveitarfélagið fengi nafnið Suðurnesjabær var hafin vinna við að finna sveitarfélaginu byggðamerki. Í samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið fór sú vinna fram í upphafi árs 2019. Almenningi var gefinn kostur á að koma á framfæri hugmyndum um byggðamerki og Hvíta húsið vann ýmsar útfærslur og hugmyndir um byggðamerki í samstarfi við bæjarstjórn. Á 12. fundi bæjarstjórnar þann 6. mars 2019 samþykkti bæjarstjórn samhljóða tillögu um byggðamerki, ásamt hönnunarstaðli.

Hönnuður byggðamerkis Suðurnesjabæjar er Bjarki Lúðvíksson hjá Hvíta húsinu. Í merkinu sem byggir á tengslum við hafið má sjá skip búið seglum bera við sjóndeildarhringinn og samhverfan í línum skipsins og öldum hafsins undir því sem vísa m.a. í sameiningu sveitarfélaganna. Skipið sjálft er hvítt en grunn liturinn blár, litur himins og hafs. 

Ákvörðun um nafn sveitarfélagsins og tilkoma byggðamerkis eru hvort um sig stórir áfangar í sameiningarferlinu. Sveitarfélagið var nú komið með mikilvæg einkenni og framundan var að ráðast í merkingar og ýmis verkefni til að festa nafn Suðurnesjabæjar í sessi.

Heimasíða

Ný heimasíða Suðurnesjabæjar var opnuð í júní 2020. Og er það mikilvægur áfangi í sameiningarferlinu en fram að þessu hafði bráðabirgðasíða verið notuð til að koma helstu upplýsingum á framfæri. Ný síða er í stöðugri þróun með það að markmiði að viðhalda starfrænni þjónustu og mæta þannig þörfu íbúa og viðskiptavina Suðurnesjabæjar með sem bestum hætti. Á síðunni er m.a. að finna ábendingahnapp sem íbúar geta notað til að koma hugmyndum sínum og öðru á framfæri.

Getum við bætt efni síðunnar?