Fara í efni

Sjólyst

Sjólyst í Garði er lítið hús staðsett skammt ofan við Gerðavör í miðju athafnasvæði í Gerðum. Húsið var byggt árið 1890 af Andrési Andréssyni smið hér í Garðinum. (Heimilisfang Sjólystar er Gerðavegur 28a) Talið er að byggingarefni hafi að mestu komið úr farmi Jamestown sem strandaði við Hafnir 1981. Húsið á fyrirmynd sína í torfbæjunum og finnast fá hús af þessari gerð nú. Um miðja síðustu öld var gerð viðbygging við Sjólyst þar sem er eldhús og snyrting en anddyri var reist nokkru fyrr. 

Sjólyst hefur af mörgum verið kennt við Unu Guðmundsdóttur og þá kallað Unuhús, en Una var kölluð Völva Suðurnesja bæði af Grétari Fells svo og Gunnari M. Magnússyni sem skrifaði samnefnda bók. 

Una bjó í húsinu megnið af ævi sinni ásamt fósturdóttur sinni Stefaníu G. Kristmundsdóttur og bróðir Unu, Stefán, bjó þar einnig þegar hann var heima í Garðinum í fríum en hann keypti húsið um 1920. Stefán átti mörg handtökin í húsinu og munum þess. Í húsinu var lengi bókasafn sveitarfélagsins og sá Una um það og muna margir heimsóknir sínar í bókasafnið hjá Unu.

Eftir lát Unu árið 1978 var húsið komið í eigu bæjarfélagsins að hennar eigin ósk en það stóð að mestu autt um árabil.

Nesfiskur fékk svo húsið til afnota fyrir starfsfólk og má ætla að það fyrirkomulag hafi orðið til þess að Sjólyst varðveittist því þar með fékk húsið viðhald, var hitað upp og þar var búseta.  Má leiða líkum að því að annars hefði húsið á endanum verið rifið sem urðu örlög all flestra húsa í nágrenninu. 

Mikill áhugi heimamanna var á varðveislu hússins og endurbyggingu enda verðugur fulltrúi síns byggingartíma og sterkur vilji var að hlú að minningu Unu sem leiddi til þess að stofnað var Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst. 

Stofnfundur félagsins var haldinn á afmælisdegi Unu þann 18. nóvember 2011 og aðal hvatamaður að stofnun þess var Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður  og varð hann fyrsti formaður félagsins.

Samningur var gerður milli Hollvinafélagsins og Sveitarfélagsins um rekstur og uppbyggingu Sjólystar og hefur hann verið endurnýjaður reglulega síðan.

Bæjarfélagið stýrði og kostaði endurbygginguna en Hollvinafélagið studdi vel við með öflun styrkja og var með i ráðum. Arkitekt framkvæmdanna við húsið var Magnús Skúlason en byggingameistari var Ásgeir Kjartansson sem vann verkið ásamt syni sínum Bjarka sem einnig er byggingameistari. Sigurður H. Guðjónsson, húsasmíðameistari í  Sandgerði smíðaði alla glugga í húsið og gaf hann sína ómetanlegu vinnu. Hann smíðaði einnig útidyrahurðirnar. Verkefnið hefur einnig notið stuðnings Húsfriðunarsjóðs og Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja ásamt styrkja frá ýmsum einstaklingum.

Á afmælisdegi Unu 2020 var endurbótum á Sjólyst lokið og fékk Hollvinafélagið húsið afhent þann dag til varðveislu og reksturs.

Húsið hefur að geyma sögur samferðamanna Unu af kynnum þeirra við þessa einstöku konu og er það markmið Hollvinafélagsins að starfsemin endurspegli og haldi margvíslegum störfum Unu á lofti og verði í hennar anda eins og möguleikar gefa.

Sjólyst var heimili Unu og leitast er við að halda húsinu sem líkast því sem var en því verki er ekki að fullu lokið þó vel megi við una. Þar er gott að koma annaðhvort til að spjalla og skiptast á sögum um konuna sjálfa og hennar hugðarefni eða einfaldlega að setjast með sjálfum sér og njóta orkunnar sem í húsinu er.

Fyrir utan að hafa húsið opið gestum og gangandi á laugardögum og sunnudögum yfir sumartímann er ýmiss konar starfsemi á vegum félagsins. Má þar nefna Unuhátið sem haldin er í kringum afmælisdag hennar, ljóðasamkeppni, fræðslu fyrir skólastigin og útgáfu. 

Hvað varðar útgáfu þá hefur Hollvinafélagið gefið út ljósmyndabókina Konan við hafið (myndir af samferðafólki Unu ásamt skýringartextum) og 3. útgáfu bókar Gunnars M. Magnússonar; Völva Suðurnesja. Einnig er ýmisskonar önnur útgáfa í býgerð. 

Guðmundur Magnússon hefur tekið upp viðtöl við fjölmarga einstaklinga um kynni þeirra af Unu fyrir Hollvinafélagið og verður í framtíðinni hægt að horfa og hlusta á þær upptökur á lofti hússins. Bækurnar er hægt að kaupa í Sjólyst. En bæklingur liggur frammi og er ókeypis.

Húsið er ekki rekið í ágóðaskyni og öll vinna unnin í sjálfboðavinnu. Það er opið öllum aldurshópum allar helgar, frá sumardeginum fyrsta ár hvert til loka september. Auk þess er hægt að leita til félagsins um að fá að skoða húsið á öðrum tímum og er þá komist að samkomulagi. Opnunartími er frá kl. 14:00 - 16:00 eða 17:00 en þá er gengið frá. Í eldhúsi býður félagið upp á kaffi og meðlæti endurgjaldslaust á opnunartíma en að sjálfsögðu eru frjáls framlög vel þegin. 

Einu tekjur félagsins eru félagsgjöld, styrkir og áheit sem berast ásamt bóksölunni. 

Ef gestir og aðrir vilja styrkja þetta ljúfa verkefni er bent á að hægt er að leggja inn frjáls framlög á reikning Hollvinafélagsins: 0142-05-71020, kt. 590712-0190.

 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?