Fara í efni

Básendar

Básendar (Bátsandar) var fyrrum kaupstaður og útræði á Reykjanesskaga og eru sunnarlega á Miðnesi, Rosmhvalanesi. Höfnin var langt og mjótt lón, sem var eins og bás austur og inn í landið. Básendar var verslunarstaður að minnsta kosti frá  árunum 1484 til 1800. Þar var ein af höfnum einokunarverslunarinnar og náði verslunarsvæðið yfir Hafnir, Stafnes og Miðnes. Hinrik Hansen var kaupmaður á Básendum í lok 18. aldar og hefur verið nefndur síðasti kaupmaðurinn á Básendum. Yfir Básenda gekk Básendaflóðið árið 1799 og lagðist þá verslun þar af.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og náði hún hámarki á fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður. Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum missti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Básendaflóðið 1799

Básendaflóðið var mikið sjávarflóð, sem hlaust af einhverri kröppustu lægð sem farið hefur yfir Ísland á sögulegum tíma. Gekk það yfir aðfaranótt 9. janúar 1799 og olli miklum skemmdum á suðvesturlandi. Kaupstaðurinn að Básendum varð rústir einar og byggðist aldrei aftur. Kirkjur fuku á Hvalsnesi og Seltjarnarnesi. Bátar og skip skemmdust víða á svæðinu frá Eyrarbakka og vestur á Snæfellsnes.

Heimildir: Lýður Björnsson.

Getum við bætt efni síðunnar?