Flokkun, hirða og meðhöndlun úrgangs
Innleiðingu á nýju flokkunarkerfi til samræmis við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs lauk á árinu 2023. Nú er flokkað í fjóra flokka á hverju heimili og eru flokkarnir þessir:
Pappír / Pappi |
Plastumbúðir |
Blandaður úrgangur |
Matarleifar |
Til viðbótar við þessa fjóra flokka verður frekari söfnun á grenndarstöðvum þar sem gleri, málmum og textíl verður einnig safnað til viðbótar við pappír / pappa og plastumbúðir. |
Matarleifum / lífrænum eldhúsúrgangi safnað í körfu með bréfpokaSamhliða dreifingu á nýjum tunnum verður körfum og bréfpokum fyrir matarleifar dreift á öll heimili. Mikilvægt er að notast við bréfpoka fyrir matarleifarnar þar sem það eru þeir pokar sem jarðgerast best svo hægt verði að nýta moltuna sem vinnst úr sérsöfnuninni. Karfan er svo sérstaklega hönnuð til þess að tryggja loftflæði að pokanum sem vinnur gegn því að pokinn fari að leka og rifna. |
Merkingin gildirÍ lögunum sem verið er að innleiða er kveðið á um að allir notist við sömu merkingar fyrir úrgang og því verða allar tunnur merktar með merkingunum sem sjá má hér að ofan. Liturinn á tunnunni skiptir því ekki máli eftir innleiðinguna heldur verður það eingöngu merkingin sem stýrir því hvað fer í hvaða tunnu. |
Borgað þegar hent erSamkvæmt lögum nr. 55/2003 er sveitarfélögum skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við hirðu og meðhöndlun úrgangs. Suðurnesjabær byggir gjaldskrá sína á áætluðum kostnaði við málaflokkinn en sú breyting varð á 1.janúar 2024 að nú er greitt fyrir þær tunnur sem eru við hvert heimili. Íbúar geta því að einhverju leyti stýrt því hvaða tunnur henta best við sitt heimili svo lengi sem krafan um fjóra flokka er uppfyllt. Nánari upplýsingar um verð og hvaða tunnutegundir eru í boði má sjá í gjaldskrá um meðhöndlun úrgangs í Suðurnesjabæ. |
Hver er kostnaður við hirðu og meðhöndlun úrgangs fyrir mitt heimili?
Kostnaðurinn er breytilegur eftir því hvaða tunnur þú velur við þitt heimili. Þú þarft að vera með sérsöfnun á fjórum flokkum en getur að einhverju leyti stýrt hvaða ílát hentar þér best. Verð og tegundir er að finna í gjaldskrá Suðurnesjabæjar.
Dæmi um kostnað við sérbýli skv. gjaldskrá 2024:
Tvískipt ílát | Blandaður úrgangur og matarleifar 240 L – 34.000 kr
Pappi og pappír 240 L – 8.500 kr
Plastumbúðir 240 L – 8.500 kr
Rekstur grenndar- og gámastöðva – 18.000 kr
Samtals: 69.000 kr á ári
Einnig er innheimt fast gjald á hverja íbúðareiningu kr. 18.000.
Hversu margar tunnur verða við mitt heimili?
Misjafnt er hversu margar tunnur verða við hvert heimili eftir aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Grunnílát á hvert heimili eru þrjár tunnur, ein fyrir pappír / pappa, önnur fyrir plastumbúðir og sú þriðja tvískipt þar sem annað hólfið er fyrir blandaðan úrgang og hitt hólfið fyrir matarleifar / lífrænan eldhúsúrgang.
Mismunandi aðstæður kalla þó á ólíkar stærðir og fjölda íláta og geta íbúar að einhverju leyti stýrt því sjálfir hvað hentar við þeirra heimili. Krafa er þó um að flokkað sé í fjóra flokka fyrir utan öll heimili.
Hvaða skyldum hef ég að gegna?
- Sorpílát sem eru geymd utanhúss skulu standa á fastri undirstöðu.
- Æskilegt er að sorpílát standi sem næst lóðarmörkum ef kostur er.
- Aðgangur skal vera greiður að sorpílátum, t.d. skal moka snjó frá þannig að starfsmenn verktaka komist að sorpílátum til að losa þau.
- Ganga skal þannig frá sorpílátum og sorpgeymslum að sorpílát fjúki ekki eða valdi óþrifum eða óþægindum.
- Sorpílát og sorpgeymslum skal haldið við eftir þörfum og þær hreinsaðar reglulega.
Hvenær verða tunnurnar tæmdar?
Terra sér um sorphirðu á lífrænum úrgangi og blönduðum úrgangi og er það hirt á 2 vikna fresti.
Íslenska gámafélagið sér um sorphirðu á Pappa/pappír og plasti og er það hirt á 4 vikna fresti.
- Dagatal fyrir pappa/pappír og plast - Dagatalið er enn í þróun og gæti tekið breytingum.
Sorphirðudagatölin eru þannig byggð upp að einstökum sveitarfélögum er gefin mismunandi litur. Þessi litur gefur til kynna hvenær sorp er hirt í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig er hægt að sjá dagatal yfir sorphirðudaga á heimasíðu Kölku.
Hvað verður um matarleifarnar mínar?
Matarleifar / lífrænn eldhúsúrgangur frá Suðurnesjum fer í gas- og jarðgerðarstöðina GAJU þar sem honum verður umbreytt í metangas annars vegar og jarðvegsbæti (moltu) hins vegar.
Má ég ekki lengur setja málma með í endurvinnslutunnurnar?
Nei, þar sem endurvinnsluflokkarnir eru nú aðskildir fer sérsöfnun á málmum fram á grenndarstöðvum.
Hvar eru grenndarstöðvarnar staðsettar?
Grenndarstöðvarnar eru staðsettar við Gerðaveg 11 og Strandgötu 17.
Hvað verður um gömlu tunnurnar mínar?
Í anda hringrásarhagkerfisins verður reynt eftir fremsta megni að nýta þær tunnur sem eru í umferð. Tunnurnar sem eru við heimilin í dag munu verða merktar og mun nýja merkingin endurspegla nýtt hlutverk tunnunnar.
Hvað má fara í tunnurnar?
Dæmi um það sem má fara í tunnurnar má sjá hér að neðan. Þegar íbúar eru í vafa um í hvaða flokk eigi að setja úrgang hvetjum við til þess að leitarvélin á www.flokkum.is verði notuð en ef ekki gefst tími til þess er betra að setja í blandaðan úrgang en að rangflokka í hina flokkana. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að heimtur á endurvinnsluefnum verði góðar og gæði efnisins eins góð og mögulegt er.
Af hverju þarf ég að flokka?
Flokkun úrgangs er gríðarlega stórt umhverfisverkefni þar sem mikilvægt er að endurnýta það sem hægt er og sporna þannig gegn ágangi á auðlindir jarðar. Þegar við flokkum komum við efnunum aftur inn í hringrásina og getum þannig dregið úr úrgangsmyndun.
Hvað gerist ef ég flokka ekki?
Ef ekki er rétt flokkað í tunnur við heimili eru skýr fyrirmæli í lögunum um það að skilja tunnurnar eftir. Ábyrgðin færist þá yfir á íbúa að lagfæra efnið í tunnunni þannig að hægt sé að tæma þær í næstu ferð.
Hversu hreint þarf endurvinnsluefnið að vera áður en það er sett í tunnurnar?
Endurvinnsluefnið þarf að vera nokkuð hreint en ekki er þörf á að sótthreinsa umbúðir.
Hvað á ég að gera ef ég þarf að breyta þeim tunnum sem eru á mínu heimili?
Íbúar geta að einhverju leyti stýrt þeim ílátum sem eru á þeirra heimilum. Að því gefnu að krafan um fjóra flokka sé uppfyllt. Upplýsingar um stærð og tegundir íláta sem í boði eru má finna í gjaldskrá Suðurnesjabæjar.
Ef þörf er á breytingum bendum við íbúum á að hafa samband við Kölku sem sér um að skipta um ílát.
- Sími: 421 8010
- Netfang: kalka@kalka.is
Hvað geri ég ef tunnan mín er brotin?
Ef tunnan þín þarfnast lagfæringar bendum við íbúum á að hægt er að fylla út beiðni á vefsvæði Kölku
Ef þörf er á úrbótum á aðbúnaði við húsnæði er það alfarið á ábyrgð eigenda og hvetjum við íbúa til þess að huga að því að aðgengi sé gott og að sorpskýli / sorpgerði samræmist byggingarreglugerð. Við minnum einnig á að við berum sameiginlega ábyrgð á umhverfi okkar og að snyrtilegt samfélag verður til með þátttöku þeirra sem í samfélaginu búa.