Fara í efni

Skagagarður

Skagagarðurinn á Rosmhvalsnesi er eitt fárra íslenskra mannvirkja frá miðöldum sem varðveist hefur. Fáum mun kunnugt um tilvist hans, en engu að síður má telja Skagagarðinn einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefur hann vísbendingar um löngu horfna atvinnuhætti.

Garðurinn lá frá bænum Kirkjubóli norður til Útskála. Við báða enda hans tóku við miklir túngarðar og mundu mannvirki þess því hafa girt með öllu fyrir skagann. Sjálfur garðurinn var um 1500 metra langur, um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.

Lengi vel var talið að garðurinn væri frá 13. eða 14. öld, en elstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur vart verið hlaðinn síðar en á 10. öld.

Garðinum hefur væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar kornræktar á Suðurnesjum fyrr á öldum. Herma þjóðsögur meira að segja að bærinn Sandgerði hafi upphaflega gengið undir nafninu „Sáðgerði“. Hinsvegar dregur sveitarfélagið Garðurinn nafn sitt af Skagagarðinum.

Á hinum köldu öldum Íslandssögunnar áttu Suðurnesjamenn bágt með að trúa sögnum um akuryrkju á Garðskaga fyrr á tíð. Þess í stað freistuðust þeir til að skýra byggingu Skagagarðsins á öllum skemmtilegri hátt.

Frá því að elstu menn kunna frá að segja, höfðu verið haldnir vikivakar og jólaskemmtanir að bænum Flankastöðum. Þetta voru hinar mestu dans- og gleðisamkomur og oft drukkið meira en góðu hófi gegndi. Þar sem veislugestir frá Útskálum og öðrum bæjum af norðanverðum skaganum áttu yfir heiði að fara, gat bakaleiðin reynst æði varasöm, enda auðvelt að villast þegar saman fór myrkur, ölvun og flatt landslag án hæða, hóla eða annarra kennileita. Það var því hald manna að garðurinn hafi verið hlaðinn til að vísa slompuðum vegfarendum veginn.

Staðsetning: Liggur frá Útskálakirkju í Garði að Kirkjubólsvelli. Farið eftir þjóðvegi 45 í átt að Garðskagavita.

 

Getum við bætt efni síðunnar?