Fara í efni

Félagsleg úrræði og stuðningsþjónusta

Fjárhagsaðstoð

Markmið fjárhagsaðstoðar er að tryggja að þeir einstaklingar, hjón og fjölskyldur sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, fái fjárhagsaðstoð, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla reglna þessara. Sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón hafa samkvæmt reglum þessum hefur einnig fólk í óvígðri sambúð.

Fjárhagsaðstoð er eingöngu ætluð til framfærslu en ekki til fjárfestinga eða greiðslu skulda. Heimilt er að veita einstaklingum og fjölskyldum aðstoð vegna sérstakra aðstæðna, sbr. ákvæði IV. kafla reglna þessara.

Jafnan skal kanna til þrautar aðra möguleika en fjárhagsaðstoð, s.s. frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, lífeyris- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga og námsstyrki. Fjárhagsaðstoð skal veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr.40/1991.

Umsækjendum um fjárhagsaðstoð er skylt að leita sér að atvinnu og taka vinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því. Fjárhagsaðstoð skal veitt fólki í tímabundnum erfiðleikum og er hugsuð sem aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur til að mæta grunnþörfum þeirra.

Fylgigögn með umsókn:
 • Skattframtal
 • Staðgreiðsluskrá
 • Yfirlit yfir tekjur sl. þrjá mánuði áður en umsókn er lögð fram, svo sem launaseðlar, yfirlit yfir tryggingabætur, lífeyrissjóðsgreiðslur, atvinnuleysisbætur eða greiðslur frá stéttarfélögum sem dæmi.
 • Læknisvottorð ef við á
 • Upplýsingar um stöðu og nýtingu persónuafsláttar
 • Öll fjárhagsaðstoð til framfærslu er skattskyld, sjá nánar reglur um fjárhagsaðstoð.
Umsókn
Reglur

 

Húsnæðismál

Félagsþjónustan veitir  ráðgjöf, sér um afgreiðslu á umsóknum um sérstakan húsnæðisstuðning og úthlutanir á félagslegu leiguhúsnæði.

Félagslegt leiguhúsnæði

Félagslegar leiguíbúðir eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa sérstaka aðstoð við að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrði og/eða annarra félagslegra erfiðleika og skulu fjárhags- og félagslegar aðstæður þeirra metnar út frá ákveðnum viðmiðum reglna um félagslegar leiguíbúðir.

Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði, fá úthlutuðu leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar er bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk umsækjanda og félagslegum aðstæðum umsækjanda sem skulu metnar sérstaklega samkvæmt reglum sveitarfélagsins um félagslegar leiguíbúðir. Sótt er um félagslegt leiguhúsnæði hjá ráðgjafa húsnæðismála og er hægt að panta tíma  í síma 4253000 eða með því að senda tölvupóst á afgreidsla@sudurnesjabaer.is. 

Íbúðir fyrir 60 ára og eldri

Íbúðum eldri borgara í Miðhúsum og við Melteig í eigu Suðurnesjabæjar er ætlað að vera húsnæðisvalkostur fyrir íbúa Suðurnesjabæjar sem eru orðnir 60 ára og eldri.

Í Miðhúsum er aðgengi að skipulögðu félagsstarfi og mötuneyti.

Ekki er um sérstakt þjónustuúræði að ræða en íbúum stendur samskonar þjónusta til boða eins og öðrum íbúum sveitarfélagsins sem búa á einkaheimilum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016 og reglna sveitarfélagsins um sérstakan húsnæðisstuðning.

Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna. Einnig er veittur sérstakur húsnæðisstuðningur til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum hér á landi vegna náms. Sótt er um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir 18 ára og eldri hjá Fjölskyldusviði Suðurnesjabæjar.

Félagsleg ráðgjöf

Markmið félagslegrar ráðgjafar er annars vegar að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál og hins vegar að veita stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda. 

Haft er að leiðarljósi að styðja einstaklinga og fjölskyldur til sjálfshjálpar þannig að hver og einn geti notið sín sem best í samfélaginu.

Félagsleg ráðgjöf tekur meðal annars til ráðgjafar á eftirtöldum sviðum:
 • Fjárhagsvanda og fjármála að öðru leyti
 • Húsnæðisvanda
 • Atvinnuleysis
 • Samskipta innan fjölskyldna, meðal annars sambúðarvanda
 • Uppeldismála og málefna barna og unglinga
 • Hjónaskilnaða og sambúðarslita
 • Ættleiðingarmála
 • Áfengis- og vímuefnavanda
 • Skertrar færni og fötlunar
 • Aðstæðna á efri árum
 • Vegna umsókna um stofnanavistun

Ávallt er leitast við að veita ráðgjöfina í samhengi við önnur úrræði ef við á og tengja hana þjónustu annarra aðila eftir því sem hentar, svo sem skóla, heilsugæslustöðvar o.fl.

Félagsleg ráðgjöf er meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Allir sem orðnir eru 18 ára og eiga lögheimili í Suðurnesjabæ geta leitað ráðgjafar sér að kostnaðarlausu með því að snúa sér til félagsþjónustu sveitarfélagsins.

Starfsfólk félagsþjónustunnar er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera samkvæmt lagaboði, svo sem ef barni er hætta búin.

Getum við bætt efni síðunnar?