Fara í efni

Vinnuskóli Suðurnesjabæjar

Vinnuskólinn býður unglingum Suðurnesjabæjar upp á skemmtilega og lærdómsríka sumarvinnu fyrir ungmenni sem voru að klára 8., 9., og 10. bekk.

Umsóknir í Vinnuskóla Suðurnesjabæjar fara fram í gegnum umsóknarvefinn Völu en til þess að geta farið inn á síðuna þarf að notast við rafræn skilríki eða íslykil. Einnig er hægt að fá aðstoð við umsóknir í þjónustuveri Suðurnesjabæjar en athygli er vakin á því að ekki er hægt að klára umsókn án þess að hafa reikningsnúmer umsækjanda.

Umsóknarfrestur fyrir sumarið 2022 er til 29. maí.

Vinnuskólinn hefst  mánudaginn 13. júní verið er að vinna í því að raða í hópa og svara umsóknum.

Upplýsingar um vinnuskóla veitir Rut Sigurðardóttir.

Sækja um

Helstu verkefni skólans eru:

  • Götu- og hverfahreinsun
  • Beðahreinsun
  • Tyrfing
  • Ruslatýnsla
  • Fleira sem snýr að fegrun bæjarfélagsins
  • Aðstoða á leikjanámskeiðum

Einnig munu unglingarnir vinna að skemmtilegum og uppbyggilegum hliðarverkefnum.  Vinnuskóli Suðurnesjabæjar leitar eftir samstarfi við vinnumarkaðinn með að bjóða ungmennum að koma og kynnast starfsemi þeirra fyrirtækis og hafa  ungmenni t.a.m. fengið að fara og vinna á veitingastað, leikskóla o.fl.

 Verknámssmiðjur fyrir 9. bekk. (verður ekki 2022)

Einstaklingar sem voru að klára 9. bekk stendur til boða að taka þátt í verknámssmiðjum í Fjölbrautarskóla Suðunesja á vinnutíma. Reynt er að halda verknámsmiðjurnar árlega en það er háð styrkjum hverju sinni hvort það takist.

Þá er starfsmönnum vinnuskólans boðið að taka þátt í smiðjum í t.d. háriðn, málmsmíði, húsasmíði, rafmagni, textíl og fleira. Tilgangur verkefnisins er að gefa ungmennum kost á að reyna á eigin skinni að vinna verkefni tengd iðngreinum. Þannig fá þau góða innsýn í fjölbreytt störf tengd smiðjunum.

Hvað þarf að hafa í huga?

Röðun í flokka: Vinnuskólinn lítur svo á að unglingar þurfi að venjast því að vinna með hverjum sem er.  Þeim er því ekki raðað eftir vinahópum. Ekki er víst að þeir sem eru settir í hóp í upphafi verði saman allt sumarið. Margar ástæður geta orðið til þess að endurraða þurfi í hóp eða hópa.

Skila inn stöðu á skattkorti: Þeir sem voru að klára 10. bekk þurfa að skila inn upplýsingum um stöðu á skattkorti eða hvort það sé ónýtt til launadeildar, elsa@sudurnesjabaer.is. Hægt er að skrá sig inn á skattur.is og sækja upplýsingarnar. Skattkortið er rafrænt en ekki er hægt að sækja þessar upplýsingar fyrir þriðja aðila vegna persónuverndarlaga. Ef þessum upplýsingum er ekki skilað er reiknaður fullur skattur af launum.

Að vera rétt útbúin: Mikilvægt er að koma klædd eftir veðri og í viðeigandi fatnaði sem má skíta út. Krakkarnir fá vinnuhanska í upphafi sumars sem þau eiga að hafa alla vinnudaga. Ef þeir týnast er það á þeirra ábyrgð að endurnýja þá.

Reglur vinnuskóla Suðurnesjabæjar

Helstu kröfur til nemenda Vinnuskólans: Gert er ráð fyrir að unglingur sem sækir um vinnu í Vinnuskóla Suðurnesjabæjar sé með umsókn sinni að lýsa yfir áhuga sínum á því að taka þátt í starfi skólans og vinna samviskusamlega þau verk sem honum eru falin. Unglingnum ber að sýna kurteisi í samskiptum við stjórnendur skólans, íbúa sveitarfélagsins og þá sem með honum vinna.  Klæðnaður þarf að vera í samræmi við veður og vinnuaðstæður hverju sinni.  Ungmennin eru beðin um að hafa með sér nesti til að neyta í kaffitímum.  Tóbaksnotkun og notkun rafretta er alfarið bönnuð í Vinnuskólanum. Fari unglingur ekki  að tilmælum flokkstjóra eða sætti sig ekki við þær starfs- og vinnureglur sem gilda í Vinnuskólanum verður honum gefið tækifæri til að bæta sig.  Beri það ekki árangur er hann sendur heim launalaust í lengri eða skemmri tíma og verður forráðamönnum þá gert viðvart.

 Fræðsla

Á hverju sumri er haldinn sameiginlegur fræðsludagur með vinnuskólum í Grindavík og vinnuskólanum í Vogum þar sem fræðslu og skemmtun er blandað saman. Þessi þrír vinnuskólar skiptast á að halda daginn svo ef hann er ekki haldinn í Suðurnesjabæ þá er tekin rúta og vinnudeginum eytt þar. Mikilvægt er að hafa í huga að þátttakendur fá greitt fyrir daginn og ætlast er til að þeir taki þátt í því starfi sem fer fram.

Auk þess er markmiðið að hvert sumar er að bjóða krökkunum einnig upp á ýmsa fræðslu tengdum forvörnum og hinum ýmsu málefnum s.s. launum, réttindum, sjálfsmynd, næringu, hreyfingu og fleira.

 
Algengar spurningar og svör
Hvað er vinnuskólinn?

Vinnuskóli Suðurnesjabæjar er fyrir öll 14-16 ára ungmenni búsett í Suðurnesjabæ. Allir sem sækja um fá starf í skólanum.

Af hverju ætti ég að sækja um starf í Vinnuskólanum?

Þátttaka í Vinnuskólanum er kjörið tækfæri fyrir ungmenni til þess að öðlast reynslu af því að vinna sér inn laun á hvetjandi og jákvæðan hátt. Þar gefast ungmennum tækifæri á að taka þátt í að snyrta og fegra umhverfið sitt, kynnast nýjum félögum og læra heilmikið um umhverfismál, mannleg samskipti og virðingu gagnvart vinnu.

Hvað er ég að vinna lengi?

Sumarið 2022 fá hóparnir að vinna í 7 vikur. 

Vinnutími: 

8. bekkur = 8:00-12:00 

9. bekkur = 8:00 -12:00 og 13:00 -15:30

10. bekkur = 8:00 -12:00 og 13:00 -15:30

 

Fæ ég matarhlé?

Já, allir fá klukkustundar ólaunað matarhlé en einnig er einn kaffitími sem tekinn er fyrir hádegi. 

Hvenær fær ég útborgað?

Launatímabil Vinnuskólans eru frá 21 til 20 hvers mánaðar. Útborgunardagur er fyrsta hvers mánaðar. Hægt er að skoða tímaskráningar rafrænt inn á Völu.

Hvað er skattkort og hvað á ég að gera við það?

Allir launþegar á Íslandi sem eiga hér fasta búsetu og hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á svokölluðum persónuafslætti og er skattkortið til þess gert að halda utan um það. Árið 2016 voru öll skattkort gerð rafræn og eru nemendur beðnir um að senda beiðni um notkun skattkorts á tölvupóstfangið elsa@sudurnesjabaer.is. Taka þarf fram ef verið er að nota persónuafslátt á öðrum vinnustað og þá hvernig nemandi vill að persónuafsláttur skiptist. Allir nemendur eldri en 16 ára þurfa að skila inn stöðu á skattkorti.

Þarf ég að borga hluta af laununum mínum í lífeyrissjóð?

Börn byrja að greiða í lífeyrissjóð næstu mánaðarmót eftir 16 ára afmælisdaginn.

Hvert fara launin mín?

Launin eru lögð inn á bankareikning ungmennanna og þurfa því allar bankaupplýsingar að fylgja umsókn. Aðeins er hægt að nota bankareikning ungmennisins.

Hvert á ég að mæta?

Í Vinnuskóla Suðurnesjabæjar eru tvær starfsstöðvar, ein í Garði og ein í Sandgerði og velja umsækjendur sér starfstöð í umsóknarferlinu. Starfsstöðin í Garði er við áhaldahúsið og starfsstöðin í Sandgerði er við félagsmiðstöðina Skýjaborg.

Get ég skipt um hóp?

Hægt er að óska eftir breytingum á hóp, en flokkstjórar þurfa að meta það hverju sinni hvort það henti.

Hvað á ég að gera ef ég er veik(ur)? Fæ ég borgað fyrir daginn?

Foreldrar verða að tilkynna frí og veikindi rafrænt í gegnum Völu

Veikindadagar eru ekki greiddir.

Má ég reykja í vinnunni?
Nei, Vinnuskóli Suðurnesjabæjar er tóbaks- og vímuefnalaus vinnustaður. Þar með talið eru rafsígarettur (vape) bannaðar.

Laun í vinnuskóla 

Launatímabil A er 21. maí-20. júní (13.-20.  júní)

Laun í vinnuskóla 2022 

8. bekkur:  995 krónur á tímann og í boði er að vinna í 7 vikur í alls 112 tíma. (4 klst á dag)

9. bekkur: 1242 krónur á tímann og í boði er að vinna  í 7 vikur í alls 182 tíma.

10. bekkur: 1491 krónur á tímann og í boði er að vinna í 7 vikur í alls 182 tíma.

Laun eru greidd út fyrsta hvers mánaðar og launatímabil eru frá 21. til 20 hvers mánaðar.

Í fyrstu útborgun þá er greitt fyrir tímabilið 13-20. júní, í annari úborgun frá 21. júní - 20. júlí og þriðju útborgun er frá 21.- 28 júlí. 

Athugið að hægt er að skrá sig inn á Vala vinnuskóli til að skoða tímaskráningar.

Skila inn stöðu á skattkorti: Þeir sem eru 16 ára á árinu þurfa að skila inn upplýsingum um stöðu á skattkorti eða hvort það sé ónýtt til launafulltrúa á netfangið elsa@sudurnesjabaer.is. Hægt er að skrá sig inn á skattur.is og sækja upplýsingar þaðan. Skattkortið er rafrænt en ekki er hægt að sækja þessar upplýsingar fyrir þriðja aðila vegna persónuverndarlaga. Ef þessum upplýsingum er ekki skilað er reiknaður fullur skattur af launum.

Getum við bætt efni síðunnar?