Leikskólar
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og upphaf skólagöngu barna. Í Suðurnesjabæ starfa tveir leikskólar, Grænaborg og Gefnarborg og dvelja þar um 240 börn. Grænaborg er sveitarfélagsrekinn en Gefnarborg er sjálfstætt starfsandi með styrk frá sveitarfélaginu. Leikskólarnir starfa eftir lögum um leikskóla nr. 90/2008, reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 655/2009 og aðalnámskrá. Í henni kemur fram fagleg stefnumörkun og lýsing á sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um allt leikskólastarf.
Innritun í leikskóla
Samkvæmt innritunarreglum leikskóla Suðurnesjabæjar er miðað við að börn fái leikskólapláss allt frá 18 mánaða aldri og raðast börn á biðlista eftir fæðingarmánuði barns en ekki eftir umsóknardegi. Sérstakur biðlisti er fyrir hvern leikskóla.
Aðal innritun er að jöfnu að vori til úthlutunar að hausti þegar nýtt skólaár hefst. Leikskólagjöld eru innheimt samkvæmt gjaldskrá hvers árs. Veittur er systkinaafsláttur vegna systkina sem eru samtímis í leikskóla.
Sótt er um leikskóla á vefsíðum skólanna. Hægt er að sækja um leikskólavistun um leið kennitala hefur verið skráð í þjóðskrá. Allir foreldrar/forráðamenn, óháð búsetu, hafa rétt til að sækja um leikskólavist í leikskólum Suðurnesjabæjar en lögheimilisflutningur verður að hafa átt sér stað við upphaf leikskóladvalar. Þegar barni hefur verið úthlutað leikskólarými fær foreldri/ forsjáraðili bréf í tölvupósti þar sem farið er fram á að boðið um leikskólavistina sé staðfest hjá leikskólastjóra. Ef foreldri/ forsjáraðili hefur ekki staðfest tilboðið um leikskólavistina með tölvupósti eða símtali við leikskólastjóra innan 10 virkra daga frá því að tilkynningin var send út, er litið svo á að leikskólavistinni sé hafnað.
Innritun er alfarið í höndum leikskólastjóra þar sem aðstæður í hverjum leikskóla fyrir sig ráða því hvenær leikskólaganga getur hafist. Þegar tilboð um leikskólavist er staðfest kynnir leikskólastjóri foreldri/ forsjáraðila ferli innritunar í leikskólann.
Námskrár
Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út aðalnámskrá leikskóla. Aðalnámskrá er fagleg stefnumörkun og lýsir sameiginlegum markmiðum og kröfum sem eiga við um allt leikskólastarf. Aðalnámskrá er ákveðinn rammi um leikskólastarfið og undirstaða frekari skólanámsskrárgerðar.