Fara í efni

Verndarsvæði í byggð

Markmið laga nr. 87/2015 um verndarsvæði í byggð er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Lögin gilda um byggð innan þéttbýlis og byggðakjarna utan þéttbýlis sem ástæða er til að varðveita vegna svipmóts, menningarsögu eða listræns gildis.

Verndarsvæði í byggð: Útgarður

Um er að ræða eina elstu byggð í Garði, hús og búsetuumhverfi, elsta byggðin er frá seinni hluta 19. aldar.

Svæðið er nyrst í sveitarfélaginu þar sem haldist hefur búsetumynstur strandmenningar, sjávarbænda, kvikfjárbúskaps og ræktunar. Í norðri eru vitarnir við úthaf sem umlykur svæðið til austurs. Meginleiðin til norðurs, aðalgatan Skagabrautin er til vesturs með góða akstursaðkomu að svæðinu og höfuðbýlið og kirkjan að Útskálum marka svæðið í suðri. Á svæðinu, sem er tæplega 60 ha að stærð er nú nokkuð fjölbreytt byggð, um 50 einnar- til tveggja hæða íbúðarhúsa, útihúsa og atvinnuhúsnæðis.

Verndarsvæði í byggð: Krókskotstún - Landakotstún

Um er að ræða eina elstu byggð í þéttbýli Sandgerðis, hús og búsetuumhverfi á svæði við Krókskotstún og Landakotstún, en upphaf þorpsmyndunarinnar er rakið til annars áratugar 20. aldar, þótt elsta byggðin í þéttbýlinu sé frá seinni hluta 19. aldar.

Svæðið er í norðurhluta Sandgerðis, sunnan Sandgerðistjarnar og austan Sandgerðishafnar. Byggð svæðisins þróaðist upp af höfninni og göturnar Brekkustígur og Tjarnargata voru hluti fyrstu gatnagerðar í bænum. Alls eru um 40 byggingar á hinu afmarkaða svæði, 32 íbúðarhús og 8 byggingar fyrir atvinnuhúsnæði. Svæðið er um 12 ha að stærð.

Miðbærinn er í jaðri svæðisins, en Strandgatan sem er helsta umferðar- og athafnagata bæjarins afmarkar það til vesturs. Til suðurs afmarkast svæðið af miðsvæðinu Vörðunni, sem hýsir bæjarskrifstofur að hluta og ýmiss konar þjónustu og almenningsgarð.

 

Getum við bætt efni síðunnar?