Fara í efni

Bæjarráð

116. fundur 29. mars 2023 kl. 14:30 - 15:45 í Ráðhúsinu í Garði
Nefndarmenn
  • Anton Kristinn Guðmundsson formaður
  • Magnús Sigfús Magnússon aðalmaður
  • Sigursveinn Bjarni Jónsson aðalmaður
  • Laufey Erlendsdóttir áheyrnarfulltrúi
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
  • Bergný Jóna Sævarsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs
Fundargerð ritaði: Bergný Jóna Sævarsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs
Dagskrá

1.Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2022

2303036

Drög að ársreikningi 2022.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að vísa ársreikningi til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

2.Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum - ársreikningur 2022

2303044

Ársreikningur SSS fyrir árið 2022, ásamt erindi varðandi uppgjör á uppsöfnuðum halla vegna Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að Suðurnesjabær greiði sína hlutdeild í uppsöfnuðum halla Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að fjárhæð kr. 6.568.796 sem greiðist á tveimur árum.

3.Fjárhagsáætlun 2024-2027

2303087

Minnisblað frá bæjarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslusviðs um fjárhagsleg markmið og vinnslu fjárhagsáætlunar 2024-2027.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að vinnsla fjárhagsáætlunar verði samkvæmt því ferli sem lagt er til í minnisblaðinu. Samþykkt samhljóða eftirfarandi megin markmið við vinnslu fjárhagsáætlunar 2024:

Megin markmið verði að standast fjárhagsleg viðmið um jafnvægisreglu og skuldareglu sbr 64. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Framlegð frá rekstri A og B hluta verði ekki undir 11%.
Veltufé frá rekstri verði ekki undir 600 mkr. á ári á næstu árum til að standa undir afborgunum lána og sem mestu af fjárfestingum næstu ára.
Fjárfestingar verði sem mest fjármagnaðar með skatttekjum og söluhagnaði eigna á næstu árum þannig að lántökum verði haldið í lágmarki.
Áhersla á ábyrgð og aðhald í fjármálum, bæði varðandi rekstur og fjárfestingar, en á sama tíma og út frá framangreindum markmiðum verði ekki dregið úr þjónustu við íbúa heldur verði langtímamarkmið að bjóða íbúum upp á sem mesta og besta þjónustu á öllum þeim sviðum sem sveitarfélaginu ber að gera.
Gjaldskrá þjónustugjalda haldist í takti við þróun verðlags.

4.Jöfnunarsjóður sveitarfélaga-endurskoðun 2023

2303098

Skýrsla starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ásamt drögum að lagafrumvarpi um heildarlög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.
Afgreiðsla:

Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir alvarlega athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Frumvarpið byggir á niðurstöðum og tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem kynntar voru nú í mars 2023.

Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Suðurnesjabæjar mun lækka um 144,4 milljónir króna frá viðmiðunarárinu 2022 þegar breytt kerfi tekur að fullu gildi, eða um 23,4%. Það er ljóst að ef tillögur starfshópsins verða að lögum með samþykkt frumvarpsins og framlag Jöfnunarsjóðs lækka eins og að framan er greint, þá mun það hafa í för með sér mikil og neikvæð áhrif á rekstur Suðurnesjabæjar til að standa undir lögbundinni þjónustu, sem og annarri þjónustu og starfsemi sem sveitarfélög þurfa að halda úti í nútíma samfélagi.

Í ákvæði til bráðabirgða V. í drögum að frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingarnar verði innleiddar í áföngum á fjögurra ára tímabili. Fyrstu þrjú árin gildi eldri reglur að hluta til en á fjórða ári taki breytt kerfi gildi að fullu. Bæjarráð Suðurnesjabæjar telur ástæðu til að vekja athygli á lögbundinni skyldu sveitarfélaga til að afgreiða fjárhagsáætlun til 3ja ára til viðbótar við næsta rekstrarár. Samkvæmt því samþykkti bæjarstjórn Suðurnesjabæjar fjárhagsáætlun 2023 auk 3ja ára áætlunar fyrir árin 2024-2026 í desember sl. Í þeirri 3ja ára áætlun er gert ráð fyrir gildandi regluverki Jöfnunarsjóðs varðandi framlög til sveitarfélagsins en ekki þeirri lækkun á framlagi Jöfnunarsjóðs sem lögð er til í tillögum starfshópsins og í frumvarpi til laga. Komi þessar tillögur til framkvæmdar mun stjórnvaldsaðgerð breyta verulega forsendum áætlunarinnar, sem er ekki í þeim anda að stuðlað skuli að sem mestum fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi sveitarfélaga sem á að felast í 3ja ára áætlunum. Verði frumvarpið að lögum er það krafa bæjarráðs Suðurnesjabæjar að aðlögunartími breytinganna verði lengdur úr fjórum árum í sjö ár.

Bæjarráð leggur til að skoðað verði sérstaklega hvort ekki er ástæða til að veita sérstök framlög úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga sem veita þjónustu og taka utan um fylgdarlaus börn sem koma til landsins og falla undir lög um barnavernd. Viðkomandi sveitarfélög þurfa að bera beinan og óbeinan kostnað vegna þessarar þjónustu sem er lögbundin og felur það í sér sérstakar áskoranir fyrir viðkomandi sveitarfélag og á slíkt sérstaklega við um Suðurnesjabæ. Jafnframt er ástæða til að benda á þau vinnubrögð ríkisins að án nokkurs samráðs við sveitarfélög er einstaklingum sem leita til landsins sem flóttamenn og leita eftir alþjóðlegri vernd komið fyrir í búsetu í sveitarfélögum sem ekki hafa gert samning við ríkið um samræmda móttöku flóttamanna. Vegna þessara vinnubragða ríkisins fellur beinn og óbeinn kostnaður á viðkomandi sveitarfélög, án nokkurs fyrirvara og án samráðs við viðkomandi sveitarfélög. Bæjarráð leggur til að skoðað verði sérstaklega hvort ekki er ástæða til þess að Jöfnunarsjóður veiti viðkomandi sveitarfélögum sérstök framlög til að mæta þeim kostnaði sem um ræðir.

Í viðauka við lagafrumvarpið og í skýrslu starfshópsins er yfirlit yfir samsetningu útgjaldastuðuls, þar sem tilteknar eru einstaka breytur og hlutfall bak við hverja breytu. Út frá því er ljóst að breytingar á hlutföllum milli einstaka breyta hafa bein áhrif á útreikning framlaga úr sjóðnum. Bæjarráð Suðurnesjabæjar bendir á að hlutfall barna er hátt í íbúasamsetningu sveitarfélagsins og jafnframt er þjónusta og starfsemi vegna fylgdarlausra barna og flóttafólks íþyngjandi fyrir Suðurnesjabæ. Þá bendir bæjarráð á að fjölgun íbúa sveitarfélagsins hefur verið viðvarandi undanfarin ár með tilheyrandi auknum kostnaði vegna innviða og þjónustu. Samkvæmt fyrirliggjandi forsendum mun íbúum halda áfram að fjölga næstu misseri og ár. Í því sambandi óskar bæjarráð eftir endurskoðun á þeim breytum sem eiga við um framangreint og að forsendur t.d. um viðmið íbúafjölgunar um 2,5% ár ári sl 3 ár verði yfirfarnar sérstaklega í tilviki Suðurnesjabæjar.
Bæjarráð leggur til að í útgjaldabreytu verði gert ráð fyrir kostnaði vegna sambærilegrar þjónustu í tveimur stórum byggðarkjörnum, þar sem halda þarf uppi þjónustu í stað þess að færa einstaka starfsemi milli byggðarkjarna. Við þessar aðstæður er meiri fjárþörf á mann þegar horft er til útgjaldaþarfar.

Í tillögum starfshópsins er lagður út tekjuhagkvæmiferill, þar sem m.a. er gengið út frá hámarkstekjum og 80% leiðréttingu milli hámarkstekna og tekjuhagkvæmniferils. Bæjarráð leggur til að tekjuhagkvæmniferill verði aðlagaður þannig að hann lækki við hærri íbúatölu en gert er ráð fyrir í módelinu. Suðurnesjabær rekur þjónustu í tveimur álíka stórum byggðarkjörnum sem veldur ákveðnu óhagræði og sú skerðing á framlagi sem tillagan gerir ráð fyrir mun koma verulega niður á þjónustu við íbúana í byggðarkjörnunum.



5.Húsnæðisáætlun

2109054

Drög að húsnæðisáætlun Suðurnesjabæjar 2023.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að vísa húsnæðisáætlun til afgreiðslu í bæjarstjórn og kynningar í framkvæmda-og skipulagsráði.

6.Ráðhús - húsnæði

2303102

Minnisblað frá framkvæmdastjórn með tillögu varðandi húsnæðismál.
Afgreiðsla:

Samþykkt samhljóða að fela framkvæmdastjórn að skila bæjarráði tillögu um húsnæðismál sviða Suðurnesjabæjar sem miði að því að starfsemi sviðanna verði í einu ráðhúsi Suðurnesjabæjar.

Fundi slitið - kl. 15:45.

Getum við bætt efni síðunnar?