Fara í efni

Aðgerðastjórn

53. fundur 07. janúar 2022 kl. 13:00 - 13:20 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
  • Bergný Jóna Sævarsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs
  • Guðrún Björg Sigurðardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Fundargerð ritaði: Bergný Jóna Sviðsstjóri stjórnsýslusviðs

Farið yfir stöðu vegna áhrifa covid faraldurs í skólum Suðurnesjabæjar. Í Gerðaskóla eru 8 nemendur og starfsfólk í einangrun og 25 í sóttkví.  Nokkuð er um fjarvistir af öðrum ástæðum.  Í Sandgerðisskóla eru 9 nemendur og starfsmenn í einangrun og 11 í sóttkví. Nokkuð er um fjarvistir af öðrum ástæðum.  Hjá leikskólanum Gefnarborg er 1 í einangrun og alls 49 börn og starfsmenn í sóttkví.  Hjá leikskólanum Sólborg eru engin börn eða starfsmenn í einangrun eða sóttkví.

Bólusetning barna mun fara fram strax eftir helgina og verður framkvæmd af Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Tónlistarskólanum í Reykjanesbæ.

Samkvæmt upplýsingum eftir daginn í gær eru alls 77 einstaklingar í einangrun vegna smita og alls 70 einstaklingar í sóttkví í Suðurnesjabæ. Fjöldi einstaklinga i einangrun og sóttkví hefur fjölgað nokkuð frá því um áramótin.

Aðgerðastjórn beinir þeim tilmælum til foreldra og forráðmanna að láta viðkomandi skóla vita ef börn sýna minnstu einkenni þannig að grunur geti mögulega verið um smit hjá nemendum og alls ekki senda börn í skóla heldur láta framkvæma sýnatöku til að fá úr því skorið hvort viðkomandi nemandi er með smit.

Þar sem mikið álag er á rakningarteymi Almannavarna getur liðið nokkur tími frá því smit er staðfest og þar til smitrakning hefst.  Af þeim sökum leggur aðgerðastjórn sérstaka áherslu á að fólk grípi til ráðstafana í samræmi við leiðbeiningar Almannavarna á vefsíðunni covid.is.

Aðgerðastjórn leggur áherslu á að ef fólk er að koma heim erlendis frá með börnum, þá fari börn í sýnatöku áður en þau mæta til skóla.

Varðandi starfsemi sundlauga og íþróttamiðstöðva er lögð áhersla á að komið sé í veg fyrir hópamyndun t.d. í heitum pottum sem geti leitt til þess að viðkomandi einstaklingar verði fyrir smiti eða þurfi að fara í sóttkví.

Aðgerðastjórn leggur ríka áherslu á að allir sinni persónulegum smitvörnum og að farið sé eftir þeim leiðbeiningum og sóttvarnareglum sem eru í gildi hverju sinni. Vegna þeirrar stöðu sem uppi er núna er brýnna en nokkru sinni að allir sinni smitvörnum og fari varlega.  Mjög mikilvægt er að ef fólk finnur fyrir minnstu einkennum þá halda sig heima og fara í skimun.

Fundi lauk kl. 13:20.

Getum við bætt efni síðunnar?