Fara í efni

Aðgerðastjórn

52. fundur 29. desember 2021 kl. 11:30 - 12:00 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
  • Bergný Jóna Sævarsdóttir sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og
  • Guðrún Björg Sigurðardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.
Fundargerð ritaði: Bergný Jóna sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs

Mikil útbreiðsla á covid-19 smitum hefur verið í gangi síðustu daga og eru met slegin nánast daglega miðað við fjölda greindra smita.  Samkvæmt upplýsingum úr rakningargrunni í gær, þann 28. desember, voru alls 49 einstaklingar með smit í einangrun í sveitarfélaginu og alls 70 einstaklingar í sóttkví.

Rétt fyrir jólin kom upp smit í leikskólanum Gefnarborg og var leikskólanum lokað.  Starfsfólk, börn og fjölskyldur fara í sýnatökur í dag og á morgun mun væntanlega liggja nánar fyrir hver staðan verður og er vonast til að leikskólinn geti opnað aftur strax eftir áramótin.

Vegna þeirrar stöðu sem komin er upp, bæði á landsvísu og í Suðurnesjabæ, er aðgerðastjórn sammála um að ráðast þurfi í aðgerðir til að tryggja órofna starfsemi og þjónustu hjá Suðurnesjabæ. Felur það m.a. í sér uppskiptingu á starfsmannahópum í ráðhúsum, takmarkanir á samgangi fólks m.a. varðandi fundahöld og almennar sóttvarnir og einstaklingsbundnar sóttvarnir.

Sviðsstjórum er falið að skipuleggja starfsemi sinna sviða, m.a. út frá uppskiptingu starfsmannahópa í þeim tilgangi að tryggja órofna starfsemi og þjónustu. Þá verði aðgengi almennings að ráðhúsum takmarkað, opnunartími til að byrja með kl 11:00 – 13:00 en fólki bent á að nýta eins og kostur er samskipti með tölvupóstum og símtölum. Hafnarstjóra er falið að skipuleggja starfsemi Sandgerðishafnar í sama tilgangi. 

Ekki verði haldnir fundir nefnda og ráða nema ef nauðsyn krefur vegna mikilvægra mála, en leitast verði við að fundir nefnda og ráða verði með rafrænum hætti.  Þá er lögð áhersla á að starfsfólk Suðurnesjabæjar haldi fundum innanhúss í lágmarki og taki ekki þátt í fundum utan sinna starfsstöðva nema nauðsyn krefji og fylgt sé sóttvarnareglum.  Almennt er lögð áhersla á að fundir fari fram með rafrænum hætti.

Sviðsstjóra fjölskyldusviðs er falið að láta setja upp aðgerðaáætlun sem miði að því að tryggja órofna starfsemi í Heiðarholti, Lækjamótum og dagdvöl aldraðra, sem mun hefja starfsemi fljótlega eftir áramótin.

Framangreindar aðgerðir taki gildi frá og með mánudeginum 3. janúar 2022.

Aðgerðastjórn leggur ríka áherslu á að allir sinni persónulegum smitvörnum og að farið sé eftir þeim leiðbeiningum og sóttvarnareglum sem eru í gildi hverju sinni. Vegna þeirrar stöðu sem uppi er núna er brýnna en nokkru sinni að allir sinni smitvörnum og fari varlega.  Mjög mikilvægt er að ef fólk finnur fyrir minnstu einkennum þá halda sig heima og fara í skimun.

Fundi lauk kl. 12:00.

Getum við bætt efni síðunnar?