Aðgerðastjórn
Samkvæmt upplýsingum dagsins eru alls 32 íbúar Suðurnesjabæjar í einangrun með smit og alls 75 íbúar í sóttkví.
Í gærkvöldi var tekin ákvörðun um að loka leikskólanum Sólborgu fram að helgi, vegna mikilla affalla í hópi starfsfólks sem gerir það að verkum að mjög erfitt er að halda starfseminni gangandi. Þá eru nokkur börn í einangrun og sóttkví þannig að mjög fá börn hafa mætt í leikskólann. Þar sem bæði starfsfólk og börn hafa verið að smitast í umhverfi leikskólans er ákveðin áhætta fólgin í því að halda starfseminni gangandi, hvað varðar frekari útbreiðslu smita. Ákveðið var að taka stöðuna um næstu helgi og taka þá frekari ákvarðanir um starfsemi leikskólans.
Fyrirspurnir hafa komið frá foreldrum um leikskólagjöld þá daga sem leikskólinn er lokaður. Það mál er í skoðun og verða teknar ákvarðanir um þetta á næstu dögum.
Stjórnendur leikskólans Sólborgar fengu hrós og þakkir frá aðgerðastjórn fyrir hvernig unnið hefur verið að málum síðustu daga og vikur vegna alls konar mála sem uppi hafa verið vegna Covid smita sem hafa herjað á starfsfólk og börn í leikskólanum.
Staðan í Sandgerðisskóla er þannig í dag að nú eru 9 nemendur í einangrun, fækkað um 3 frá í gær. Áfram eru alls 7 nemendur í sóttkví og alls 38 nemendur voru ekki mættir í skóla í morgun. Staðan í skólanum er því svipuð og var í gær.
Aðgerðastjórn leggur ríka áherslu á að allir sinni persónulegum smitvörnum og að farið sé eftir þeim leiðbeiningum og sóttvarnareglum sem eru í gildi hverju sinni. Vegna þeirrar stöðu sem uppi er núna er brýnna en nokkru sinni að allir sinni smitvörnum og fari varlega. Mjög mikilvægt er að ef fólk finnur fyrir minnstu einkennum þá halda sig heima og fara í skimun.
Fundi lauk kl. 9:30.