Aðgerðastjórn
Vinna aðgerðastjórnar hófst að morgni og var aðgerðastjórn að störfum fram undir miðnætti. Samráð
var við stjórnendur viðkomandi stofnana og aðra aðila.
Í gær, þann 3. nóvember, kom upp grunur um Covid smit hjá tveimur starfsmönnum leikskólans
Sólborgar í Sandgerði. Stjórnendur leikskólans sendu í gærkvöldi út póst á alla foreldra með
upplýsingum um þetta og tilkynnt að leikskólinn verði lokaður þar til annað kemur í ljós. Starfsfólk hvatt
til að halda sig heima. Snemma í morgun voru stjórnendur í þróttamiðstöðvar í Sandgerði og
Sandgerðisskóla upplýstir um stöðu mála og hvatt til þess að huga að mögulegum aðgerðum. Einhver
fjöldi starfsfólks og nemenda mættu ekki til skóla og vinnu í morgun vegna málsins. Viðbragðsáætlun
var virkjuð og unnið eftir leiðbeiningum Almannavarna.
Allir starfsmenn leikskólans Sólborgar fóru í PCR sýnatöku fyrri hluta dags í dag, 4.nóvember.
Eftir samskipti við ýmsa aðila, auk þess að safna saman upplýsingum kom í ljós síðdegis að a.m.k. þrír
starfsmenn Sólborgar höfðu greinst með smit, þar að auki a.m.k. 2 börn sem eru nemendur í
Sandgerðisskóla. Síðar um kvöldið kom í ljós að nokkur börn á Sólborg greindust með smit. Smitrakning
hófst um leið og upplýst var um stöðu mála hjá Sólborg. Búast má við upplýsingum frá
smitrakningarteymi á morgun og þá kemur betur í ljós hvert umfang smita og aðgerða vegna þeirra
verður.
Aðgerðastjórn tók ákvarðanir um aðgerðir, sem viðbrögð við þessari stöðu og miðast ekki síst að því að
beita fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að draga úr samskiptum og freista þess að koma þannig í veg fyrir
mögulega útbreiðslu smita í samfélaginu. Stjórnendur viðkomandi stofnana settu af stað sínar aðgerðir
til að bregðast við ákvörðun aðgerðastjórnar. Eftirfarandi tilkynning var birt á heimasíðu og facebook
síðu sveitarfélagsins um kl. 20:00:
Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í Suðurnesjabæ er varðar staðfest Covid-19 smit, m.a. meðal starfsfólks leikskólans Sólborgar í Sandgerði og hjá nemendum í Sandgerðisskóla hefur aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar ákveðið eftirfarandi aðgerðir í samráði við viðkomandi stjórnendur:
Leikskólinn Sólborg verður lokaður um óákveðinn tíma meðan smitrakning stendur yfir og þar til tekist hefur að ná utan um ástandið. Skólahald í Sandgerðisskóla fellur niður á morgun, föstudag 5. nóvember. Íþróttamiðstöðin í Sandgerði verður lokuð á morgun föstudag, á laugardag og sunnudag. Félagsmiðstöðin Skýjaborg verður lokuð þar til annað verður ákveðið. Kennsla fellur niður í Tónlistarskólanum í Sandgerði á morgun föstudag og bókasafn Suðurnesjabæjar í Sandgerði verður lokað fram yfir komandi helgi.
Með framangreindum aðgerðum leitast aðgerðastjórn við að koma í veg fyrir að Covid-19 smit dreifi sér í samfélaginu og eru þetta því fyrirbyggjandi aðgerðir fremur en bein viðbrögð við smitfaraldri.
Aðgerðastjórn vonast til að sem fæstir íbúar Suðurnesjabæjar verði fyrir barðinu á veirunni þessa dagana, en staðreyndin er sú að veiran er komin inn í samfélagið okkar og því er nauðsynlegt að beita aðgerðum. Framangreint verður endurmetið fyrir upphaf næstu viku og verður upplýsingum um það komið á framfæri. Íbúar eru því hvattir til þess að fylgjast með heimasíðu Suðurnesjabæjar og samfélagsmiðlum.
Allar frekari aðgerðir, svo sem varðandi sóttkví og smitgát eru ákveðnar af smitrakningu og Almannavörnum og koma upplýsingar um slíkt beint frá þeim aðilum.
Af fenginni reynslu og af gefnu tilefni eru allir hvattir til að viðhafa persónulegar smitvarnir sem við þekkjum öll vel og fara eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og landlæknis.
Aðgerðastjórn vonast til að starfsemi stofnana Suðurnesjabæjar sem og daglegt líf í samfélaginu komist í eðlilegt horf sem allra fyrst.
Aðgerðastjórn þakkaði stjórnendum Sólborgar fyrir skjót og hárrétt viðbrögð þegar málið kom upp í
gærkvöldi.