Fara í efni

Vinnslutillaga Aðalskipulags Suðurnesjabæjar 2022-2034

Vinnslutillaga Aðalskipulags Suðurnesjabæjar 2022-2034

Framkvæmda- og skipulagsráð Suðurnesjabæjar samþykkti þann 16. mars 2022 að vinnslutillaga Aðalskipulags Suðurnesjabæjar 2022-2034, ásamt umhverfismatsskýrslu, verði kynnt íbúum og send til umsagnaraðila til umsagnar. Vinnslutillagan er kynnt  skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 15. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Aðalskipulag Suðurnesjabæjar 2022-2034 er nýtt aðalskipulag sem felur í sér endurskoðun gildandi aðalskipulaga, þ.e. Aðalskipulags Garðs 2013-2030 og Aðalskipulags Sandgerðisbæjar 2008-2024. Innan sveitarfélagamarka er einnig í gildi Aðalskipulag Keflavíkurflugvallar 2013-2030, en það er ekki  hluti af endurskoðuninni.

Vinnslutillagan er sett fram í greinargerð, á þremur skipulagsuppdráttum á einu kortablaði, auk umhverfismatsskýrslu. Greinargerðinni er skipt upp í átta meginhluta. Í inngangi er lýst afmörkun aðalskipulagsins, helstu gögnum og aðferðum við skipulagsvinnuna. Þá eru leiðarljós og meginmarkmið aðalskipulagsins en stefna aðalskipulagsins er sett fram eftir málaflokkum, þ.e.

  • Sjálfbært og aðlaðandi samfélag
  • Blómlegt og fjölbreytt atvinnulíf
  • Traustir og hagkvæmir innviðir
  • Vel menntað og heilbrigt samfélag

Lýst er forsendum og sett fram markmið og leiðir fyrir málaflokkana og einstök viðfangsefni. Þá er gerð grein fyrir almennum og sértækum ákvæðum fyrir landnotkunarflokka og takmörkun á landnotkun.

Fyrirhugaður er íbúafundur þar sem vinnslutillaga aðalskipulagsins verður kynnt. Þar mun tillagan einnig liggja frammi og hægt verður að fá svör við spurningum og koma á framfæri ábendingum. Íbúafundurinn verður auglýstur síðar hér á vef Suðurnesjabæjar og í Víkurfréttum. Auk þess mun vinnslutillagan liggja frammi á skrifstofu Suðurnesjabæjar Sunnubraut 4 í Suðurnesjabæ.

Umsagnir eða athugasemdir við vinnslutillögu Aðalskipulags Suðurnesjabæjar 2022-2034 skulu berast til Suðurnesjabæjar á afgreidsla@sudurnesjabaer.is undir yfirskriftinni „Aðalskipulag Suðurnesjabæjar - vinnslutillaga“ fyrir 14. apríl 2022. Umsagnir má einnig senda bréfleiðis á skrifstofu sveitarfélagsins Sunnubraut 4, 250 Suðurnesjabæ.