Útskálakirkja
Útskálakirkja var reist á árunum 1861-1863 að frumkvæði sóknarprestsins, síra Sigurðar B. Sívertsens (1808-1887). Yfirsmiður hennar og hönnuður var Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891). Útskálakirkja er járnklætt timburhús á hlöðnum grunni, með sönglofti, forkirkju og turni og tekur um 200 manns í sæti. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi.
Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu, sem nær var horfin. Altaristaflan er eftir danska listmálarann Gustav Theodor Wegener (1817-1877) og sýnir boðun Maríu. Predikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykjavík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.
Heimild: kirkjubladid.is