Snjómokstur og hálkueyðing
Snjómokstur og hálkueyðing
Vetrarþjónusta er frá 15. október til 15 apríl ár hvert.
Vaktir Umhverfismiðstöðvar vegna vetrarþjónustu er frá kl. 04:30 til 07:00 fyrri part dags og frá 17:00-23.00 seinni part dags á virkum dögum. Um helgar er vakt frá kl. 07:30-22:00.
Skipulag vetrarþjónustunnar (miðast við almennar og stöðugar veðuraðstæður)
Stofnbrautir, skólar, leikskólar, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur njóta forgangs í snjómokstri og hálkuvörnum. Miðað er við að stofnbrautir og strætóleiðir séu orðnar greiðfærar fyrir kl. 7:00 að morgni og að hreinsun annarra stofngatna sé lokið fyrir kl. 7:30. Að því loknu hefst snjómokstur á húsagötum og öðrum minni götum.
Við snjóhreinsun húsagatna verður óhjákvæmilega um að ræða að snjóruðningar safnast við innkeyrslur. Suðurnesjabær mun ekki sjá um snjóhreinsun slíkra ruðninga og verða íbúar því sjálfir að hreinsa burt snjó frá innkeyrslum sínum vegna snjómoksturs.
Vakin er athygli á að ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega mokstur á einstökum vegum eða götum.
Veðuraðstæður eins og mikill snjóstormur eða skafrenningur getur orsakað að vetrarþjónustutæki eru ekki kölluð út á göngu- og hjólastíga, gangstéttir og húsagötur fyrr en að veðrinu slotar.
Ákvarðanir um að hefja uppmokstur og brottflutning á uppsöfnuðum snjó úr þéttbýli eru teknar út frá mati á almannahagmunum og fyrirbyggjandi aðgerðum.
Hálka á götum
Við hálkuvarnir er notast við salt eftir aðstæðum og þörfum. Ákvarðanir eru teknar út frá hálkuástandi vega, veðurfari, veðurspám ásamt umferð og umferðarflæði. Götum er skipt upp í forgangsröðun þar sem áhersla er lögð fyrst á stofnbrautir, strætóleiðir, leiðir að skólum og leikskólum, fjölfarnar safngötur og varasama staði, brekkur og fleira. Húsagötur og botnlangar eru almennt ekki hálkuvarðar.
Snjór og hálka á stéttum og stígum
Snjómokstur og hálkuvarnir á stígum er forgangsraðað með áherslu á gönguleiðir að grunn- og leikskólum. Síðan eru gönguleiðir meðfram helstu stofn- og tengibrautum og göngustígar á opnum svæðum hreinsaðir. Við hálkuvarnir á gönguleiðum er notast við sand. Leitast er við að helstu gönguleiðir að grunn- og leikskólum séu orðnar greiðfærar kl. 08.00 á morgnanna.
Sveitarfélagið annast ekki snjómokstur:
- Á bílastæðum, heimreiðum eða plönum einstaklinga og fyrirtækja
- Frá sorpílátum og bílskúrum einstaklinga og fyrirtækja
- Á einkavegum að húsnæði sem skilgreint er sem sumar- eða frístundarhús í fasteignaskrá
- Á einkavegum í og að sumar- og frístundahúsahverfum
- Á Stafnesvegi utan þéttbýlis (þjónustaður af Vegagerðinni)
- Þar sem einstaklingur er skráður með lögheimili en hefur ekki fasta búsetu
- Að einstökum ferðamannastöðum
- Á hlöðum eða plönum við útihús í dreifbýli
- Á snjóruðningum sem skapast af mokstri gatna og gönguleiða
Þá ber þeim er sinna snjómokstri í sveitarfélaginu ekki að losa bíla sem fastir eru í snjó og komast ekki leiðar sinnar.
Þjónusta á lögbundnum hátíðardögum
Snjómokstur og hálkueyðing er sem hér segir:
- Á aðfangadag er mokað til kl. 15:00 með áherslu á aðalleiðir
- Á jóladag er þjónusta í lágmarki og einungis aðalleiðir mokaðar
- Á annan í jólum er mokað eins og um helgar
- Á gamlaársdag er mokað til kl. 15:00 með áherslu á aðalleiðir
- Á nýársdag er þjónusta í lágmarki og einungis aðalleiðir mokaðar
- Á skírdag er mokað eins og um helgar
- Á föstudaginn langa er mokað eins og um helgar
- Á páskadag er þjónusta í lágmarki og einungis aðalleiðir mokaðar
- Á annan í páskum er mokað eins og um helgar
Mikilvægt er að þeim sem annast snjómokstur sé sýnd tillitssemi við störf sín. Þeir leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, við að halda akstur- og gönguleiðum í sveitarfélaginu greiðfærum.