Fara í efni

Fyrsta úthlutun úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar

Fyrsta úthlutun úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar

Í kvöld, 9. maí,  var í fyrsta skipti úthlutað styrkjum úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar. Athöfnin fór fram á Almenningsbókasafni Suðurnesjabæjar þar sem boðið var upp á tónlistaratriði frá tónlistarskólum Suðurnesjabæjar. Wiktoria Nut spilaði á píanó, Kári Sæbjörn Kárason spilaði á gítar og Ingibjörg Hjördís Einarsdóttir söng tvö lög í lok athafnar við undirleik Geirþrúðar Fanneyjar Bogadóttur.

Menningarsjóður Suðurnesjabæjar byggir stoðir sínar á gjöf frá Litla leikfélaginu sem starfaði í Garði en skrifað var undir samkomulag um gjöfina í september 2020. Reglur sjóðsins má finna á heimasíðu Suðurnesjabæjar en ráðgert er að veita styrki úr sjóðnum einu sinni á ári.

Rakel Ósk Eckard formaður ferða-, safna- og menningarráðs afhenti styrki úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar en að þessu sinni var úthlutað styrkjum fyrir 750.000 kr.

  • Hollvinir Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst fengu úthlutað kr. 250.000 fyrir fjögur verkefni sem unnið er að.
  • Jazzfjelag Suðurnesjabæjar fékk úthlutað kr. 250.000 vegna tónleikahalds.
  • Almenningsbókasafn Suðurnesjabæjar fékk úthlutað kr. 100.000 til að mæta kostnaði við fræðsluerindi sem safnið stendur fyrir.
  • Útskálakirkja fékk úthlutað kr. 150.000 til að standa straum að kærleikstónleikum.

Í reglum sjóðsins segir m.a. að hlutverk Menningarsjóðs Suðurnesjabæjar er að styrkja menningarstarfsemi í Suðurnesjabæ með fjárframlögum og efla þannig einstaklinga og félagsamtök til virkrar þátttöku. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái framlag úr fjárhagsáætlun á hverju ári en að auki getur sjóðurinn tekið við gjöfum sem ætlaðar eru til að efla menningarlíf í Suðurnesjabæ, beri svo við.

Mikil ánægja var með úthlutunina og ljóst er að menningarlíf í Suðurnesjabæ blómstrar þessa dagana en fyrir viku opnaði Byggðasafnið á Garðskaga aftur eftir endurbætur en þar er m.a. hægt að fræðast um verslunarsögu í Suðurnesjabæ.

Styrkhöfum er óskað til hamingju og góðs gengis með verkefnin sín.

Mynd: Fulltrúar styrkhafa, ásamt Braga Einarssyni og Rakel Ósk Eckard formanni ferða-, safna- og menningarráðs Suðurnesjabæjar.