Fara í efni

Samkomulag um Menningarsjóð Suðurnesjabæjar

Samkomulag um Menningarsjóð Suðurnesjabæjar

Í vikunni var undirritað samkomulag á milli Suðurnesjabæjar og Litla leikfélagsins um stofnun Menningarsjóðs Suðurnesjabæjar.

Tilurð samkomulagsins er að Litla leikfélagið sem var starfandi í Garði hefur hætt starfsemi sinni og var ósk félagsins að fjármagn í eigu þess renni til menningarmála í Suðurnesjabæ.

Samkomulagið var kynnt bæjarráði í síðustu viku þar sem bæjarráð fól bæjarstjóra að móta reglur fyrir sjóðinn.

Sjóðnum er ætlað að efla lista- og menningarlíf í Suðurnesjabæ og verður hægt að sækja um í sjóðinn eftir ákveðnum reglum. 

Gert er ráð fyrir að úthlutun styrkja verði í höndum ferða-, safna- og menningarráðs en reglur um sjóðinn verða kynntar nánar þegar þær hafa verið samþykktar af bæjarstjórn.

 *Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Bergný Jóna Sævarsdóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og Bragi Einarsson, fyrir hönd Litla leikfélagsins, undirrituðu samkomulagið.