Fara í efni

Vitadagar - Vel heppnuð bæjarhátíð

Vitadagar - Vel heppnuð bæjarhátíð

Bæjarhátíð íbúa Suðurnesjabæjar, Vitadagar – Hátíð milli vita stóð yfir alla síðustu viku og lauk sunnudaginn 1.september. Fjölmargir viðburðir voru á dagskrá hátíðarinnar alla daga vikunnar og einnig voru einstakir viðburðir utan dagskrár. Mjög góð þátttaka var meðal íbúa og gesta og voru viðburðir almennt mjög vel sóttir.

Margir aðilar komu að undirbúningi, skipulagningu og framkvæmd Vitadaga. Dagskráin var fjölbreytt og áhersla lögð á að viðburðir væru í boði fyrir allan aldur. Þeir sem fram komu á hátíðinni voru bæði margir af okkar frábæru listamönnum úr Suðurnesjabæ en einnig úrval listamanna víðsvegar af landinu. Fjölmörg fyrirtæki gerðust bakhjarlar hátíðarinnar með framlögum af ýmsum toga og þökkum við þeim kærlega fyrir en þeirra framlag skiptir öllu við hátíð sem þessa.

Flesta daga vikunnar var veður með ágætum, enda skiptir veður miklu máli þegar svona hátíðir fara fram. Þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi farið í annan gír á laugardaginn, þegar dagskrá fór fram á hátíðarsvæðinu við Sandgerðisskóla, var aðsókn og þátttaka mjög góð og flugeldasýning Björgunarsveitarinnar Sigurvonar var með þeim glæsilegri sem sést hafa.

Suðurnesjabær þakkar öllum þeim sem komu á einhvern hátt að bæjarhátíðinni, hvort sem var  við undirbúning og skipulagningu eða framkvæmd einstaka dagskrárliða. Einnig fá íbúar og gestir bestu þakkir fyrir frábæra þátttöku í bæjarhátíðinni Vitadagar – hátíð milli vita.

Við tökum áfram glöð við öllum ábendingum tengdum hátíðinni og hvað við getum gert betur fyrir næstu Vitadaga á vitadagar@sudurnesjabaer.is.