Fara í efni

Við áramót

Við áramót

Áramót eru jafnan mjög sérstök tímamót þar sem litið er yfir liðið ár og rifjað upp hvað það bar í skauti sér. Ekki er síður spennandi að horfa fram á veg og íhuga hvaða væntingar eru til komandi árs. 

Liðið ár, 2021, hefur að miklu leyti verið tíðindameira en mörg önnur liðin ár. Þar ber hæst covid-19 faraldurinn sem hefur haft svo mikil áhrif á okkur öll og heimsbyggðina alla. Í byrjun ársins voru væntingar um að faraldurinn færi að fjara út, m.a. vegna tilkomu bólusetninga en annað hefur komið á daginn. Faraldurinn hefur stjórnað tilveru okkar meira en við hefðum viljað og meira en nokkur sá fyrir. Framan af faraldrinum má segja að samfélagið í Suðurnesjabæ hafi sloppið vel frá smitum, en undir lok ársins komu upp hópsmit sem höfðu töluverð áhrif á marga íbúa, starfsemi leikskólanna okkar og grunnskóla. Starfsfólk skólanna okkar, nemendur og samfélagið allt hefur tekist á við þær áskoranir sem hafa fylgt faraldrinum með miklum sóma og æðruleysi og eiga skilið þakkir fyrir vel unnin störf. 

Íþróttir og menningin

Ýmis áform um menningarviðburði og viðburði almennt runnu að miklu leyti út í sandinn vegna covid-19.  Þorrablóti Suðurnesjamanna sem haldið hefur verið mörg undanfarin ár í Garði var aflýst, fótboltamótinu Norðurbær – Suðurbær í Sandgerði og sama má segja um árshátíð starfsfólks Suðurnesjabæjar. Þá voru uppi áform um bæjarhátíð og hafði átt sér stað töluverður undirbúningur fyrir hana en vegna covid-19 þurfti að breyta þeim áformum.  Í stað einnar stórrar bæjarhátíðar var „Litla bæjarhátíðin“ haldin þar sem settir voru upp minni og breyttir viðburðir, þar á meðal bílabíó og tónleikar sem var streymt um netið heim í hús.  Íþróttamaður Suðurnesjabæjar 2020, Daníel Arnar Ragnarsson, var tilnefndur í upphafi árs og við sama tilefni var Guðlaugu Sigurðardóttur veitt sérstök viðurkenning með þökk fyrir störf að íþróttamálum.  Þá má nefna að Safnahelgi var í október og tókst vel og ljósin á jólatrjám voru tendruð með óhefðbundnum hætti með þátttöku grunnskólabarna að morgni 1. desember. Ráðist var í endurskipulagningu safnamála hjá Suðurnesjabæ og í tengslum við það er í gangi endurskipulagning á Byggðasafninu á Garðskaga. Þrátt fyrir óskemmtilegan faraldurinn og takmarkanir sem honum fylgja tókst að halda ýmsa viðburði sem er mikilvægt.

Framkvæmdir og skipulagsmál

Miklar fjárfestingar og framkvæmdir hafa verið á vegum Suðurnesjabæjar á árinu 2021. Lokið var við viðbyggingu við Gerðaskóla sem hefur komið sér vel en skólinn var farinn að búa við mikil þrengsli sem hafði sín áhrirf. Einnig var ráðist í endurbætur á elsta hluta Gerðaskóla sem var orðinn nánast ónothæfur vegna slæmra loftgæða og aðbúnaðar. Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum fyrir íbúðarhúsnæði og því hafa verið miklar framkvæmdir í gangi við uppbyggingu nýrra íbúðahverfa bæði í Garði og Sandgerði.  Á árinu voru hafnar framkvæmdir við nýtt íbúðahverfi, Skerjahverfi, í Sandgerði og má reikna með að fyrstu íbúðarhúsin rísi þar á fyrri hluta árs 2022. Á árinu hefur verið úthlutað lóðum undir um 100 íbúðir í sveitarfélaginu og árinu 2022 verður haldið áfram framkvæmdum við uppbyggingu nýrra hverfa og þannig komið til móts við eftirspurnina. Endurbótum á Sjólyst, húsi Unu í Garði, var lokið á árinu en húsið er í umsjá Hollvina Unu samkvæmt samkomulagi við Suðurnesjabæ. Síðast en ekki síst má nefna að í haust var skóflustunga tekin að nýjum leikskóla í Sandgerði en sú framkvæmd er til marks um þörf á uppbyggingu innviða samhliða mikilli fjölgun íbúa í Suðurnesjabæ. Uppbygging á nýjum leikskóla verður stærsta einstaka fjárfesting Suðurnesjabæjar árin 2022 og 2023 en gert er ráð fyrir að starfsemi hefjist í leikskólanum um mitt ár 2023. Listinn yfir einstök verkefni er þó mun lengri en hér hefur verið talið upp.

Vinna við nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar stendur yfir og er áætlað að tillaga um nýtt aðalskipulag verði tilbúin um mitt ár 2022. Þá er unnið að vinnslu deiliskipulags á nokkrum svæðum í sveitarfélaginu, meðal annars að breytingu á deiliskipulagi í Teiga-og Klapparhverfi í Garði. Á vegum Kadeco er unnið að þróunaráætlun og skipulagi lands í nágrenni Keflavíkurflugvallar og á Suðurnesjabær aðild að því mikilvæga og áhugaverða verkefni.  Landsvæðið við flugvöllinn er eitt það verðmætasta á landinu og þar eru gríðarlegir möguleikar á uppbyggingu og atvinnustarfsemi til framtíðar litið sem mun hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu í Suðurnesjabæ.

Atvinnulíf

Eins og fram hefur komið hefur verið mikið um að vera í alls kyns uppbyggingu í Suðurnesjabæ á árinu og mikið að gera hjá iðnaðarmönnum og öðrum sem að þeim verkefnum koma. Ennþá eru of margir íbúar sveitarfélagsins án atvinnu sem rekja má til covid-19 faraldursins en vonir eru um að úr því rætist á næstu vikum og mánuðum. Rekstur ferðaþjónustufyrirtækja gekk ágætlega á því tímabili ársins þegar ferðamenn fóru að koma aftur til landsins, en gekk ekki eins vel á öðrum tímum ársins.  Umsvif atvinnufyrirtækja á Keflavíkurflugvelli og í afleiddri þjónustu voru í sama takti og þróun flugumferðar á árinu, mjög lítil framan af ári en jukust svo þegar á leið árið og samhliða var fleira fólk ráðið til starfa. Í Suðurnesjabæ er rekin starfsemi nokkurra fyrirtækja sem framleiða matvæli og gekk rekstur þeirra vel. Sem dæmi um það má nefna Stafnes harðfiskinn, Reykjavík Asian, Green Salat Story, Litla brugghúsið í Garði ásamt fleirum. Að öðru leyti hefur atvinnulíf gengið vel, ekki síst í sjávarútvegi. Nú undir lok ársins kom hið nýja og glæsilega hátækni fullvinnsluskip Baldvin Njálsson heim eftir að hafa verið í smíðum á Spáni. Skipið er í eigu Nesfisks í Garði og er með glæsilegri fiskiskipum í fiskveiðiflotanum. Suðurnesjabær óskar eigendum og áhöfn til hamingju með nýja skipið og óskar þeim farsældar.

Íbúar

Íbúum Suðurnesjabæjar fjölgar stöðugt og nú í lok árs 2021 eru íbúarnir um 3.750 talsins og hefur fjölgað um 3% á árinu. Í könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann í samvinnu við sveitarfélögin á Suðurnesjum þar sem m.a. var kannað hvernig íbúum líður og hvert viðhorf þeirra er til búsetu í sínum sveitarfélögum á Suðurnesjum kom m.a. fram að íbúar í Suðurnesjabæ eru almennt mjög ánægðir með sitt sveitarfélag og búsetu í Suðurnesjabæ. Þessar niðurstöður eru ánægjulegar og eru í samræmi við markmið sveitarfélagsins um að veita sem mesta og besta þjónustu við íbúana og mun sveitarfélagið halda áfram á þeirri braut. Stofndagur Suðurnesjabæjar var 10. júní 2018 og þar með er afmælisdagur sveitarfélagsins 10. júní. Á þriggja ára afmæli Suðurnesjabæjar í ár var starfsmönnum sveitarfélagsins sem hafa hætt störfum vegna aldurs haldið sérstakt kveðjuhóf þar sem þeim voru þökkuð störf í þágu samfélagsins.

Náttúran

Við yfirferð ársins sem nú er að líða er ekki hjá því komist að nefna eldgos og jarðhræringar. Mikið hefur verið um jarðskjálfta, bæði í upphafi árs og svo aftur nú undir lok ársins. Eldgos hófst við Fagradalsfjall í mars og stóð fram á haustið. Allt er þetta út af fyrir sig eðlilegt þar sem Reykjanes er virkt af jarðhræringum og eldvirkni, enda kemur Atlandshafshryggurinn á land við Reykjanestá. Hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi eldgos og jarðskjálfta verður að koma í ljós en eðli máls samkvæmt megum við þó eiga von á áframhaldi álíkra atburða á næstu árum og áratugum. Eins og staða mála er þessa dagana er allt eins líklegt að gos hefjist á ný í námunda við Fagradalsfjal, hver veit nema þar brjótist upp heitasta áramótabrennan um þessi áramót !

Framtíðin

Nú við áramót er ekki síður áhugavert að líta fram á næsta ár, 2022 og gera sér í hugarlund hvað það muni bera í skauti sér fyrir íbúa Suðurnesjabæjar. Það er ljóst að sú mikla uppbygging sem er í gangi í íbúðahverfum mun halda áfram enda liggur fyrir mikil eftirspurn eftir íbúðalóðum og því mun fylgja frekari fjölgun íbúa. Suðurnesjabær mun halda áfram miklum fjárfestingum og framkvæmdum sem miða að því að innviðir sveitarfélagsins þjóni íbúum sínum sem best.

Þrátt fyrir erfiða stöðu í faraldri við áramót göngum við bjartsýn í mót nýju ári enda er full ástæða til að taka á móti árinu 2022 og þeim áskorunum sem bíða úrlausnar með tilhlökkun.

Ég óska íbúum Suðurnesjabæjar, starfsfólki og bæjarstjórn farsældar á komandi ári með þökk fyrir ánægjulega samfylgd og samstarf á árinu 2021.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri