Fara í efni

Vel heppnuð bæjarhátíð Suðurnesjabæjar

Vel heppnuð bæjarhátíð Suðurnesjabæjar

Bæjarhátíð íbúa Suðurnesjabæjar lauk í gær sunnudag og hafði þá staðið yfir með skipulagðri dagskrá frá mánudeginum 21. ágúst. Daglegir viðburðir voru því alla síðustu viku sem náði hápunkti á laugardaginn með glæsilegri dagskrá á Garðskaga og lauk dagskrá kvöldsins með flugeldasýningu.

Bæjarhátíðin tókst vel í alla staði, mjög góð þátttaka íbúa og gesta alla dagana og var allt til fyrirmyndar. Meira að segja veðurguðirnir tóku góðan þátt með góðu veðri alla vikuna, að undanskildum laugardeginum þegar við fengum væna rigningu meðan dagskrá stóð yfir um miðjan dag, en veðurguðirnir tóku gleði sína á ný á laugardagskvöldið þegar stytti upp og varð blíðskaparverður. Það er gömul saga og ný að veðrið skiptir miklu máli þegar svona hátíðir eru haldnar.

Það er mikið verkefni að undirbúa, skipuleggja og svo framkvæma svona hátíð. Fjölmargir koma að þessum verkefnum. Félagasamtök í Suðurnesjabæ tóku virkan þátt með þeirra sjálfboðaliðum, starfsfólk Suðurnesjabæjar lagði mikla vinnu af mörkum, einnig þeir fjölmörgu sem komu fram og sáu til þess að viðburðir gengu vel upp. Þá voru fjölmargir aðilar sem gerðust bakhjarlar hátíðarinnar og veittu stuðning af ýmsu tagi. 

Allir þeir sem komu að undirbúningi, skipulagningu og framkvæmd bæjarhátíðarinnar, einnig þeir fjölmörgu sem veittu hátíðinni stuðning fá kærar þakkir fyrir þeirra framlag, sem varð til þess að hátíðin tókst vel í alla staði. Íbúar Suðurnesjabæjar og gestir tóku virkan þátt og nutu þess sem var í boði og er þeim öllum þökkuð virk og góð þátttaka í hátíðinni.