Fara í efni

Nýjar upplýsingar vegna leikskólans Sólborgar í Sandgerði

Nýjar upplýsingar vegna leikskólans Sólborgar í Sandgerði

Sem kunnugt er var í september s.l. ákveðið að loka öllu húsnæði leikskólans Sólborgar í kjölfar úttektar Mannvits verkfræðistofu á gæðum innivistar og ástandi húsnæðisins, en starfsemin snýr að 109 börnum og 33 starfsmönnum.

Í framhaldinu voru settar í gang umbótaframkvæmdir á þeim stöðum þar sem úrbóta var þörf í samræmi við tillögur í skýrslu Mannvits. Í bráðabirgðabyggingu leikskólans, svo kölluðu „brúna húsi“ var mat á aðstæðum þannig að ekki teldist forsvaranlegt að eyða fjármunum í endurbyggingu þess húss.

Eftir að þessi sviðsmynd kom upp um miðjan september var unnið að því hörðum höndum að koma starfsemi leikskólans í gang á nokkrum mismunandi stöðum og fór leikskólastarfið fram á Skerjaborg á Stafnesvegi, Sandgerðisskóla (skólaseli), í samkomuhúsinu, safnaðarheimilinu og Vörðunni.

Í síðustu viku tókst að koma hluta leikskólans Sólborgar í notkun eftir miklar endurbætur og eru þar nú 39 börn. Um síðustu mánaðarmót var starfsemin komin á fullt í færanlegu kennslustofunum, sem ákveðið var að festa kaup á nú í haust og hlotið hefur nafnið Mánaborg (ásamt Skerjaborg/leikskólaeiningu sem fyrir var) og eru í Mánaborg nú 33 börn. Í færanlegu kennslustofunum eru yngstu drengir skólans og í leikskólaeiningunni (Skerjaborg) sem fyrir var, eru yngstu stúlkurnar. Þar er búið að útbúa lítið móttöku eldhús og með matráði starfa þar 10 manneskjur. Aðstöðuna þar má telja góða og að auki hefur starfsfólk aðgang að kaffigámi. 

Nú eru eftir í skólaseli Sandgerðisskóla 37 elstu börnin, í tveimur stórum rýmum. Þar hafa þau verið frá því að loka þurfti skólanum og fer í raun vel um þau. Stefnt er að því að þessi börn geti flutt úr skólaselinu og yfir í Sólborg fljótlega eftir áramótin. Ætti því heildarstarfsemi leikskólans Sólborgar að vera komin í eðlilegt horf í janúar á nýju ári.

Stjórnendur Suðurnesjabæjar og Sólborgar vilja koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa komið að málum, til að láta þetta allt saman ganga upp nú í haust. Þetta hafa ekki verið auðveldar vikur og hafa margir þurft að leggja töluvert á sig. En alls staðar þar sem leitað var eftir aðstoð, var umleitunum einstaklega vel tekið. Þá má einnig þakka foreldrum fyrir þolinmæði, skilning og traust.