Fara í efni

Upplýsingar vegna leikskólans Sólborgar í Sandgerði

Upplýsingar vegna leikskólans Sólborgar í Sandgerði

Upplýsingar vegna leikskólans Sólborgar í Sandgerði

Í september s.l. var ákveðið að loka öllu húsnæði leikskólans Sólborgar í kjölfar úttektar Mannvits verkfræðistofu á gæðum innivistar og ástandi húsnæðisins. Í framhaldinu hafa verið settar í gang umbótaframkvæmdir á þeim stöðum þar sem úrbóta er þörf í samræmi við tillögur í skýrslu Mannvits. Í bráðabirgðabyggingu leikskólans, svo kölluðu „brúna húsi“ er mat á aðstæðum þannnig að ekki telst forsvaranlegt að eyða fjármunum í endurbyggingu þess húss.

Unnið hefur verið hörðum höndum síðan þessi sviðsmynd kom upp að koma starfsemi leikskólans í gang, í fyrstu á þremur mismunandi stöðum en nú á fjórum mismunandi stöðum. Starfsemin snýr að 109 börnum og 33 starfsmönnum og fer leikskólastarfið nú fram á Skerjaborg á Stafnesvegi, Sandgerðisskóla (Skólaseli), í Samkomuhúsinu og Safnaðarheimili.

Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum á aðalbyggingu leikskólans um mánaðarmótin nóv./des. en óvissuþættir varðandi það eru vissulega til staðar. Þá er stefnt að því að gerðar verði ráðstafanir til að taka við allt að 82-84 börnum þegar endurbótum er lokið og hægt að taka húsnæðið aftur í notkun og um leið myndi notkun Samkomuhúss, Safnaðarheimilis og Skólasels leggjast af.

Á 105. fundi bæjarráðs þann 10. október s.l. var lagt til að keypt verði húsnæði í formi færanlegrar skólastofu sem sett verði niður á Stafnesvegi 15 á lóð Skerjaborgar. Þessi húsnæðislausn ásamt núverandi leikskólahúsnæði á Stafnesvegi mynda leikskólaeiningu fyrir 38-40 börn. Fyrir Skerjaborg yrði gert afgirt leiksvæði sem gagnast Skerjahverfinu nýja einnig með tengingu um göngustíg þó svo að leikskólastarfsemin þar yrði tímabundin. Það er von Suðurnesjabæjar að færanlegu skólastofurnar verði komnar í notkun í lok október.

Afgreiðsla bæjarráðs á 105. fundi, 11. október 2022:

„Samþykkt samhljóða kaup á gámaeiningum og uppsetningu þeirra, kr. 29.060.640 eins og lagt er til í minnisblaði og viðauki vegna verkefnisins verði lagður fram sem fyrst.

Bæjarráð þakkar skjót viðbrögð skipulags- og umhverfissviðs, fjölskyldusviðs og starfsmanna leikskólans í vinnslu við málið og leggur áherslu á að málið verði unnið hratt og örugglega.“