UNESCO skólar á Suðurnesjum
Suðurnesjavettvangur og Reykjanes Jarðvangur (Reykjanes UNESCO Global Geopark) hafa sett af stað verkefni í samvinnu við UNESCO skóla á Íslandi að styðja við leik-, grunn, og framhaldsskóla á Suðurnesjum að gerast UNESCO skólar. Verkefnið hefur fengið styrk úr Sóknaráætlun Suðurnesja sem nýtist í að ráða verkefnastjóra til að vera tengiliður við alla skóla sem vilja sækja um að verða UNESCO skólar. Markmiðið er háleitt, en vonir standa til að allir skólar á Suðurnesjum verði UNESCO skólar á næstu tveimur árum. UNESCO er Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem er alþjóðleg stofnun sem vinnur að friði og öryggi í heiminum með því að efla samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála.
Miðvikudaginn 4. september var kynningarfundur um verkefnið, þar sem það var kynnt fyrir fulltrúum skólanna en áður hafði verkefnastjóri kynnt verkefnið í flestum skólunum. UNESCO skólar skuldbinda sig til að vinna að verkefnum sem snúa að því að auka þekkingu á málefnum Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðunum og vinna þverfagleg verkefni sem nýtast í ýmsum kennslustundum og passa vel inni í grunnþætti aðalnámsskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Flestir skólar vinna í dag fjölmörg verkefni á hverju starfsári sem styðja við innleiðingu Heimsmarkmiðanna svo umsókn um að gerast UNESCO skóli er að stóru leiti aðeins alþjóðleg viðurkenning á því starfi og yfirlýsing um að vilja bæta í slík verkefni á komandi árum. Reykjanes Jarðvangur, í samstarfi við Suðurnesjavettvang hefur skuldbundið sig til að styða við skólasamfélagið á Suðurnesum með því að Sigrún Svafa Ólafsdóttir mun starfa sem verkefnastjóri fræðslumála á vegum Reykjanes Jarðvangs næstu tvö árin og leiða umsóknarferlið og samstarf skóla á svæðinu í þessari sameiginlegu vegferð við innleiðingu verkefnisins UNESCO skólar.
Í lok kynningarfundarins þann 4. september undirrituðu stjórnendur Sandgerðisskóla, Gerðaskóla og leikskólans Grænuborgar, ásamt fjölmörgum öðrum skólum og stofnunum á Suðurnesjum viljayfirlýsingu um að vinna að því að viðkomandi skólar gerist UNESCO skólar. Bæjarstjóri Suðurnesjabæjar undirritaði einnig viljayfirlýsingu til stuðnings verkefninu.