Fara í efni

Þróunaráætlun K64

Þróunaráætlun K64

Kadeco hefur kynnt nýja þróunaráætlun um uppbyggingu í nágrenni Keflavíkurflugvallar undir heitinu K64.  Þróunaráætlunin hefur verið í vinnslu undanfarin misseri og hefur alþjóðlegt teymi ráðgjafa og sérfræðinga undir heitinu KCAP haldið utan um og leitt þá vinnu.  Suðurnesjabær, Reykjanesbær og Isavia hafa tekið fullan þátt í vinnu við verkefnið með Kadeco og KCAP teyminu, enda nær þróunarsvæðið yfir landsvæði innan skipulagsmarka sveitarfélaganna sem liggur að skipulagssvæði Keflavíkurflugvallar.  Allt landið er í eigu íslenska ríkisins og fer Kadeco með eignarhald á landinu fyrir hönd ríkisins. 

Þróunaráætlunin er metnaðarfull og í henni er horft til lengri framtíðar um uppbyggingu atvinnu-og athafnastarfsemi á svæðinu, með sterkum tengingum við alþjóðaflugvöllinn, höfnina og atvinnusvæðið við Helguvík og Bergvík.  Með þróunaráætluninni er lagður grunnur að uppbyggingu alls konar starfsemi, en í grunninn er gert ráð fyrir margvíslegri flugtengdri starfsemi á alþjóðlegum markaði.  Í áætluninni er einnig fjallað um tækifæri og áform varðandi samgöngur á svæðinu og frekari uppbyggingu byggðarlaganna með tilheyrandi íbúafjölgun og uppbyggingu innviða í sveitarfélögunum.

Uppbyggingarsvæðið í nágrenni flugvallarins er án efa verðmætasta landsvæði landsins til framtíðar litið og því mikilvægt að vandað sé til verka við allar áætlanir um þá uppbyggingu og hagnýtingu á landsvæðinu, til hagsbóta fyrir Suðurnesin og í raun landið allt.  Horft er til alls kyns atvinnustarfsemi og m.a. lögð áhersla á grænan iðnað og hugmyndafræði hringrásarhagkerfis, sem á vel við um þá starfsemi sem er í burðarliðnum í græna iðngarði Reykjanesklasans við Bergvík sem var kynnt í síðustu viku.  Þá er þróunaráætlunin í góðu samræmi við nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar sem verður staðfest á næstu dögum.

Með þróunaráætluninni K64 skapast mjög miklir möguleikar og mörg tækifæri til alls kyns uppbyggingar í Suðurnesjabæ og á Suðurnesjunum í heild.  Næst á dagskrá er að kynna og markaðssetja þau tækifæri innanlands og alþjóðlega með það að markmiði að sem mesta af þeim gangi eftir á næstu árum.  Fulltrúar Suðurnesjabæjar hafa tekið fullan þátt í þessu metnaðarfulla verkefni og lagt sitt af mörkum með tillögum og hugmyndum á vinnustofum og fundum með þeim ráðgjöfum og sérfræðingum sem hafa unnið verkefnið. 

Suðurnesjabær þakkar öllum þeim sem hafa komið að þessu verkefni fyrir ánægjulegt og gott samstarf, framtíðin mun svo fela í sér hvernig áformin sem felast í þróunaráætluninni ganga eftir og standa miklar vonir til að þessi vegferð muni skila aukinni hagsæld fyrir samfélögin og íbúana á Suðurnesjum.