Fara í efni

Þakkir við lok bæjarhátíðar Suðurnesjabæjar

Þakkir við lok bæjarhátíðar Suðurnesjabæjar

Bæjarhátíð íbúa Suðurnesjabæjar lauk í gær, sunnudag.  Metnaðarfull dagskrá með fjölbreyttum viðburðum stóð yfir alla síðustu viku og náði hápunkti sl. laugardag með dagskrá á útisviði. Í lok dagskrár á laugardagskvöldið var glæsileg flugeldasýning í boði Isavia.

Við höfum ekki getað haldið svona bæjarhátíð síðan árið 2019, en starfshópur sem skipaður var á sínum tíma til að undirbúa bæjarhátíð 2020 annaðist undirbúning og framkvæmd bæjarhátíðarinnar í ár.  Í starfshópnum voru fulltrúar frá knattspyrnufélögunum Reyni og Víði, Ungmennaráði Suðurnesjabæjar, grunnskólunum og björgunarsveitunum Ægi og Sigurvon ásamt starfsfólki á stjórnsýslusviði Suðurnesjabæjar. Hátíðin er eitt af verkefnum sveitarfélagsins sem fellur undir málefni Ferða-, safna-og menningarráðs sem hefur fest ákveðna viðburði í sessi yfir árið og eru vonir bundnar við að nú taki við starfsár þar sem hægt er að framkvæma allt samkvæmt áætlun.

Fulltrúar í starfshópnum eru fulltrúar síns baklands þannig að mun fleiri aðilar komu að verkefninu,  bæði á vegum félagasamtaka og starfsfólk Suðurnesjabæjar.

Fjölmörg fyrirtæki lögðu hátíðinni lið með ýmsum hætti, meðal annars með kostun einstaka viðburða og dagskrárliða, allt í þágu íbúanna.

Bæjarhátíðin tókst einstaklega vel og það var sérstaklega ánægjulegt að sjá og upplifa hve mikil þátttaka var meðal íbúanna sem mættu vel og tóku virkan þátt í þeim viðburðum sem voru í boði.  Tilgangurinn með svona bæjarhátíð er einmitt sá að íbúarnir taki virkan þátt, hittist og kynnist betur.  Þannig eflist samfélagið sem ein heild.

Við vorum ótrúlega heppin með veður alla síðustu viku sem ýtti enn frekar undir góða þátttöku íbúa og gesta okkar og erum við þakklát fyrir það. 

Að lokinni bæjarhátíð fá allir þeir sem á einhvern hátt komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar innilegar þakkir fyrir þeirra framlag.  Það var ánægjulegt að fylgjast með hve gott samstarf var meðal allra þeirra sem stóðu að viðburðum og dagskrárliðum.  Þá þökkum við öllum þeim aðilum sem lögðu hátíðinni lið með kostun viðburða og öðrum framlögum.

Við þökkum íbúum og gestum okkar fyrir samveruna síðustu vikuna, ánægjan skein úr hverju andliti og bæjarhátíðin í ár hefur stuðlað að því að samfélagið okkar í Suðurnesjabæ stendur sterkara og samhentara á eftir.

Fljótlega verður farið að huga að næstu bæjarhátíð.  Ýmis reynsla fékkst af hátíðinni í ár og án efa verður litið til þess við skipulagningu næstu viðburða. Íbúar Suðurnesjabæjar fá þakkir fyrir þeirra framlag með frábærri þátttöku, mætingu á viðburði og hugmyndum um dagskrárliði.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar

Drónamynd frá hátíðarsvæðinu laugardaginn 27. ágúst - fengið að láni frá Knattspyrnufélaginu Víði.