Suðurnesjabær litríkur í lok sumars
Suðurnesjabær er enn litríkari nú í lok sumars þegar listasmiðjan hefur málað götulist víðsvegar um bæjarfélagið. Verkefnið er unnið í samstarfi við vinnuskólann, umsjónamaður listahópsins var Víglundur Guðmundsson. Listahópurinn, sem samanstóð af um 10 ungmennum á aldrinum 13-16 ára, lögðu hart að sér og saman sköpuðu þau fjölbreytt og áhugaverð verk. Nýju götulistaverkin eru staðsett við umhverfismiðstöðina í Sandgerði, Þekkingasetrið í Sandgerði, Vitahúsið í Sandgerði, Braggann í Garði og á vegg við Strandgötuna í Sandgerði.
Ungmennin ásamt umsjónarmanni unnu vel saman og úr varð árangursríkt og fjölbreytt list allt frá listrænum samrunum hugmynda nemenda til vel útfærðra stíleraðra lógóa. Smiðjan er skýr vitnisburður um sköpunarkraft sem býr í ungu fólki í bænum og ummæli fólks á förnum vegi telja verkefnin lífga upp á bæinn. Hópurinn hefði vilja gera meira en veðurskilyrðin settu sitt strik í reikninginn en vonandi næsta sumar þá verður hægt að bæta úr því!
Með þessu verkefni fengu ungmennin tækifæri til að fegra sitt nærumhverfi og taka virkan þátt í samfélaginu. Við hvetjum alla bæjarbúa til að skoða þessi glæsilegu listaverk sem nú prýða bæinn okkar.