Staða snjómoksturs í Suðurnesjabæ
Staða snjómokstur kl.17.00 þriðjudaginn 20. desember
Vel greiðfært er í Garði og leiðin frá Garði í Reykjanesbæ er einnig vel greiðfær þó hálka sé víðast hvar.
Mun meiri snjór er í Sandgerði og þar er enn þungfært og snómokstur í fullum gangi. Allar vélar í eigu Suðurnesjabæjar hafa verið og eru á fullri ferð en þær eru alls fimm talsins í mismunandi stærðum og að auki eru verktakar að störfum. Nú eru tíu vélar í Sandgerði sem vinna enn að opnun stofnbrauta. Í framhaldinu hefst vinna við að opna húsagötur og gert er ráð fyrir að það hefjist seinnipartinn í dag.
Í Garði er ein vél að störfum við að halda í horfinu og að passa upp á að ekki lokist aftur. Búið er að opna á milli Sandgerðis og Garðs og er sú leið orðin greiðfær. Byggðavegur í Sandgerði er enn lokaður en unnið er að opnun hans og stefnt að því sú vinna klárist seinna í dag.
Stafnesvegur er enn lokaður en unnið er hörðum höndum við vinnu á háum snjósköflum þar. Gert er ráð fyrir að stærri tæki bætist í þann hóp seinna í dag og það náist að opna hann að mestu fyrir lok dagsins.
Miðnesheiðin er fær en torfær á köflum sökum hálku og eins eru þykkir klakabunkar þar og því er sú leið enn varasöm af þeim sökum.
Vegagerðin hefur hafið mokstur aftur og vonir standa til að tæki á þeirra vegum nái að halda innkomuvegunum ásamt Garðbraut í Garði og Strandgötu í Sandgerði færum ásamt leiðinni á milli Sandgerðis og Garðs. Gera má ráð fyrir að vélar frá Suðurnesjabæ nái að halda Stafnesvegi að mestu opnum eftir að það tekst að opna hann með kvöldinu.
Tekið er fram að mikil hálka getur myndast við þessar aðstæður og fólki bent á að fara sérstaklega varlega í ferðum sínum þegar staðan er eins og hún er.
Förum áfram varlega og fylgjumst með tilkynningum.
Góðar stundir.