Staða leikskólans Sólborgar og nýr leikskóli við Byggðaveg
Leikskólinn Sólborg:
Eins og áður hefur komið fram, hafa endurbætur á skólahúsnæði Sólborgar gengið vel og er gaman að segja frá því að skólinn er nú raka- og myglufrír.
Öll vestari bygging Sólborgar (nýrri bygging) hefur verið tekinn í notkun en ennþá er verið að vinna að endurbótum í austari hluta (eldri bygging) Sólborgar. Þessi hluti leikskólans er algjörlega afmarkaður frá þeim hluta skólans þar sem kennsla fer fram.
Stefnt er að því að allri vinnu við endurbætur ljúki öðru hvoru megin við mánaðarmótin jan/feb. Elstu börnin, tæplega 40 talsins, sem eru í skólaseli Sandgerðisskóla, flytja þá yfir í Sólborg að nýju og ætti þá starfsemi Sólborgar að vera komin í eðlilegt horf. Áfram er gert ráð fyrir að yngstu börnin, um 40 talsins, verði í Mánaborg á Stafnesvegi.
Þá er stefnt að því að Sólheimar 5 („brúna húsið“), sem tilheyrði Sólborg, verði sett á sölu innan tíðar.
Nýr leikskóli við Byggðaveg:
Framkvæmdir við byggingu nýs leikskóla við Byggðaveg á vegum Braga Guðmundssonar ehf. ganga vel þrátt fyrir miklar vetrarhörkur undanfarnar vikur. Áætluð verklok eru skv. áður gerðum áætlunum, í desember 2023, að teknu tilliti til þeirra tafa sem urðu á upphafi framkvæmdanna.