Fara í efni

Snjómokstur í Suðurnesjabæ og skert þjónusta

Snjómokstur í Suðurnesjabæ og skert þjónusta

Uppfærð frétt – mánudagurinn 19. desember kl.20.00

Í ljósi slæmrar veðurspár fyrir þriðjudaginn 20. desember og færðar á vegum er áfram gert ráð fyrir skertri þjónustu hjá stofnunum Suðurnesjabæjar.

  • Starfsmenn félagsþjónustu, heimaþjónustu og dagdvalar eldri borgara hafa verið í samskiptum við þjónustuþega sína varðandi lokanir og skerta þjónustu.
  • Skipulagt skólastarf í grunnskólum fellur niður og ættu foreldrar og forráðamenn að vera búnir að fá tilkynningar þess efnis frá sínum skólum. Foreldrar og forráðamenn leikskólabarna eru hvattir til þess að fylgjast með tilkynningum frá sínum skólum.
  • Gert er ráð fyrir að snjómokstur haldi áfram kl.04.00 aðfaranótt þriðjudags 20. desember. 

Sýnum þolinmæði og förum áfram varlega, önum ekki út í umferðina að óþörfu og fylgjumst með fréttum og tilkynningum m.a. frá Vegagerðinni og lögreglunni á Suðurnesjum.

Þeim sem staðið hafa vaktina við snjómokstur og hreinsun gatna eru færðar þakkir fyrir þeirra störf. 

-----------------------------------

Uppfærð frétt – mánudagurinn 19. desember kl.17.00

Snjómokstri hefur verið hætt í dag en mun hefjast að nýju um kl.04.00 í nótt. Aðstæður eru orðnar nokkuð góðar í Garði en enn er illfært í Sandgerði, skafrenningur  og óráðlegt að ferðast um á bílum.

Frekari upplýsingar um snjómokstur og þjónustu er snýr að stofnunum Suðurnesjabæjar verða birtar eins fljótt og hægt er.

 ---------------------

Uppfærð frétt – mánudagurinn 19. desember kl.08.00

Skipulagt skólahald fellur niður í leik-,  grunn - og tónlistarskólum Suðurnesjabæjar vegna veðurs. Foreldrar- og forráðamenn eru hvattir til þess að fylgjast með upplýsingum og tilkynningum frá skólum.

Íþróttamiðstöðvar og sundlaugar suðurnesjabæjar eru lokaðar en fólk er hvatt til að fylgjast með frekari tilkynningum.

Skert starfsemi er á skrifstofum Suðurnesjabæjar en hægt er að hringja í síma 425 3000 og senda tölvupóst á afgreidsla@sudurnesjabaer.is.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og lögreglunni á Suðurnesjum eru vegir illfærir og lokaðir.

Reykjanesbrautin er lokuð, Grindavíkurvegur er lokaður, Sandgerðisvegur og Garðskagavegur eru lokaðir.

Við hvetjum alla þá sem geta til að halda sig heima og fylgjast með frekari tilkynningum frá Vegagerðinni og lögreglu.

------------------------------

 

Uppfærð frétt - sunnudagurinn 18. desember kl.20.30

----------------------------------------

Uppfærð frétt - sunnudagurinn 18. desember kl.17.00

Færð er enn þung í Suðurnesjabæ en búið er að opna allar stofnæðar og bílastæði við þjónustustofnanir og skóla. Vonir standa til að það náist að opna flest allar götur í dag.

Starfsmenn Suðurnesjabæjar ásamt verktökum munu halda áfram að sinna snjómokstri jafnt og þétt. Áfram er biðlað til íbúa um að ferðast ekki um að óþörfu og sýna þolinmæði.

Við minnum alla á að fara varlega og að fylgjast með fréttum, tilkynningum og veðurspá.

-----------------------------------

Færð í Suðurnesjabæ líkt og á Suðurnesjum og á Suðurlandi hefur verið slæm í dag og biðlum við til fólks um að það haldi sig heima og ferðast ekki um að óþörfu. Starfsmenn umhverfismiðstöðvar Suðurnesjabæjar hafa unnið við snjómokstur frá því í nótt en þar sem enn snjóar er erfitt að halda götum greiðfærum. Snjómokstri verður haldið áfram fram eftir kvöldi og hefst aftur snemma á sunnudagsmorgun.

Íbúar eru hvattir til þess að fylgjast með upplýsingum frá Vegagerðinni og þá er bent á þjónustusíma Vegagerðarinnar 1777.

Tilmæli frá lögreglunni á Suðurnesjum má finna á facebook síðu embættisins.

Förum varlega og sköpum ekki óþarfa hættu í umferðinni.