Fara í efni

Sjávarflóð eru náttúruvá

Sjávarflóð eru náttúruvá

Eftirfarandi grein eftir Magnús Stefánsson bæjarstjóra var birt í MBL þann 10. október sl.

Á Íslandi lifum við í nábýli við náttúruöfl að ýmsu tagi, mismunandi eftir svæðum landsins. Á sumum svæðum eru skilgreind hættusvæði hvað varðar ofanflóð, bæði snjóflóð og aurflóð. Á öðrum svæðum eru jarðskjálftar og eldvirkni og síðan eru víða um land svæði sem stendur ógn af sjávarflóðum.  Á ákveðnum stöðum með ströndum Reykjaness eru þekktir staðir þar sem sjávarflóð hafa gengið á land við ákveðin veðurskilyrði undanfarin ár.  Augljóst er að sjávarborð hefur hækkað frá því sem verið hefur og þegar saman fara mesti straumur með hæstri sjávarstöðu og áhlaðandi vegna veðurs hefur sjór gengið á land og valdið tjónum. Samhliða er sú þróun í gangi að á vissum stöðum er landsig á svæðum þar sem búast má við sjávarflóðum.  Þar fara saman tveir kraftar sem saman valda aukinni hættu á að sjávarflóð gangi á land. Samkvæmt lögum á ríkið að leggja til fjármagn til sjóvarna og birtist sjóvarnaáætlun í samgönguáætlun, þar sem einnig eru áætlanir varðandi vegi, hafnir, flugvelli o.fl. 

Út frá þeirri augljósu þróun sem á sér stað varðandi sjávarflóð og fyrirsjáanlegar auknar breytingar til framtíðar er deginum ljósara að nauðsynlegt er að ráðast í mun umfangsmeiri varnir gegn sjávarflóðum en nú er gert ráð fyrir í sjóvarnaáætlun samgönguáætlunar.  Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun sem nú er í vinnslu er áætlað framlag ríkisins til sjóvarna á landinu öllu um 150 milljónir króna á ári. Það er augljóst að sú fjárhæð dugar skammt ef ráðast á í nauðsynlegar varnir gegn sjávarflóðum til að verjast ágangi sjávar. Þörf fyrir varnir gegn sjávarflóðum með ströndum Suðurnesjabæjar er með þeim hætti að í raun þyrfti að nýta alla þessa fjárhæð bara í því sveitarfélagi á ári til að byggja upp nauðsynlegar varnir gegn sjávarflóðum. Það er til dæmis augljóst að ágangur sjávar og þau sjávarflóð sem orðið hafa undanfarin ár veldur landeyðingu með landbroti og mikilvægt að vinna gegn þeirri þróun með sjóvörnum. Víða um land eru nauðsynlegar aðgerðir til að vinna gegn landeyðingu með uppgræðslu og öðrum aðferðum, til þess að vernda landið og landslag. Sömu sjónarmið ættu að vera uppi um varnir gegn landeyðingu við sjávarstrendur.

Það má færa rök fyrir því að sjóvarnaáætlun eigi ekki samleið með vegum, höfnum og flugvöllum í samgönguáætlun enda eru sjóvarnir ekki beint tengdar samgöngum með sama hætti.  Hins vegar má færa rök fyrir því að varnir gegn sjávarflóðum séu að mörgu leyti sambærilegar við varnir gegn ofanflóðum, enda hvort tveggja náttúruhamfarir í eðli sínu. Nefna mætti hættu af hraunflóðum í sömu andrá. Að þessu sögðu má færa rök fyrir því að fjármögnun varna gegn sjávarflóðum ætti að vera með svipuðum hætti og varnir gegn ofanflóðum og lúta svipuðum lögmálum.  Það er einfaldlega staðreynd að samfara áhrifum af loftslagsbreytingum verður aukin hætta á sjávarflóðum til framtíðar.

Niðurstaðan er sú að það er mikil nauðsyn að gera áætlanir um markvissar varnir gegn sjávarflóðum til framtíðar og verja mun meira fjármagni til þeirra en nú er gert ráð fyrir.  Sjávarflóðin eru raunveruleg náttúruvá í nútíð og verður til framtíðar.  Það er því nauðsynlegt til framtíðar að byggja upp varnir sem fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að ráðist sé í varnir eftir að sjávarflóð hafa gengið á land með tilheyrandi tjónum á landi og mannvirkjum. Hér er um mikilvægt framtíðarmál að ræða og því nauðsynlegt að taka til aðgerða nú þegar.