Fara í efni

Ríkisstjórnin í heimsókn í Suðurnesjabæ

Ríkisstjórnin í heimsókn í Suðurnesjabæ

Þriðjudaginn 10. ágúst hélt ríkisstjórnin sumarfund sinn á Suðurnesjum ásamt því að funda með fulltrúum sveitarfélaganna fjögurra og fulltrúa Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Fulltrúar Suðurnesjabæjar fóru á fundinum yfir málefni sem snúa sérstaklega að Suðurnesjabæ og má þar m.a. nefna að leggja þarf stóraukna áherslu á heilbrigðisþjónstu í Suðurnesjabæ sem í dag er engin, dagdvöl og þá sértæk dagdvalarrými og sjóvarnir. Á fundinum fóru fulltrúar sveitarfélaganna einnig yfir málefni er snúa sameiginlega að Suðurnesjum sem heild.

Að loknum fundarhöldum hélt ríkisstjórnin blaðamannafund og síðan lá leiðin í heimsókn í Suðurnesjabæ þar sem Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, fór sértaklega yfir málefni sveitarfélagsins, uppbyggingu og helstu staðhætti. Í Suðurnesjabæ var stoppað á tveimur stöðum, í Þekkingarsetri Suðurnesja þar sem starfsmenn leiddu ráðherra í sannleikann um allt það merkilega starf sem þar er unnið er og að lokum var stoppað í Garðskagavita þar sem systkinin úr Klassart, Fríða Dís og Smári, fluttu vel valin og frumsamin lög. Þá stýrði Magnús bæjarstjóri, hópnum í fjöldasöng við lagið Traustur vinur og boðið var uppá bjórsmökkun á frá Litla Brugghúsinu.

Suðurnesjabær þakkar ráðherrum fyrir ánægjulega samveru og vonar að samtalið skili árangri til frekari uppbyggingar í Suðurnesjabæ og á Suðurnesjum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í sólinni í Suðurnesjabæ.