Fara í efni

Reynir Sveinsson, minning.

Reynir Sveinsson, minning.

Í dag þann 1. febrúar 2024 var borinn til grafar frá Sandgerðiskirkju Reynir Sveinsson rafvirki. Reynir var mikill Sandgerðingur enda bjó hann allt sitt líf í Sandgerði. Reynir lét mikið að sér kveða alla tíð í þágu samfélagsins í Sandgerði og kom víða við. Hann átti sæti í sveitarstjórn í 20 ár og starfaði í hafnarráði Sandgerðishafnar í 16 ár.Hann starfaði í sóknarnefnd Hvalsneskirkju í 35 ár, þar af sem formaður sóknarnefndar í 30 ár. Þá var hann meðlimur í slökkviliðinu í Sandgerði yfir 40 ár.

Reynir rak fyrirtæki sitt Rafverk hf í um 30 ár en starfaði eftir það í Fræðasetrinu í Sandgerði sem síðar varð Þekkingarsetur Suðurnesja þar til hann lauk sínum starfsferli um 70 ára aldur. Auk allra þessara starfa í þágu samfélagsins var Reynir annálaður leiðsögumaður, enda þekkti hann hvern krók og kima ásamt alls kyns sögur sem tengjast svæðinu. Reynir var mikill ljósmyndari og hann skilur eftir sig gríðarlegt magn ljósmynda sem fanga sögu Sandgerðis og nágrennis og er hluti af menningararfi sveitarfélagsins. Auk alls þessa var hann fréttaritari Morgunblaðsins um langt skeið, þar sem hann kom á framfæri fréttum af mannlífi í Sandgerði og nágrenni.

Með Reyni Sveinssyni er genginn einn af dáðustu sonum Sandgerðis, sem lagði mikið af mörkum til samfélagsins alla tíð. Fyrir hönd Suðurnesjabæjar er Reyni Sveinssyni þakkað fyrir hans mikilvæga framlag í þágu samfélagsins á svo mörgum sviðum.

Suðurnesjabær vottar aðstandendum og fjölskyldu Reynis innilega samúð vegna fráfalls hans, minning um Reynir Sveinsson mun lifa um ókomin ár.

 Magnús Stefánsson

bæjarstjóri