Ráðherra heimsækir Suðurnesjabæ
Í dag kom Ásmundur Einar Daðason barna-og menntamálaráðherra í heimsókn í Suðurnesjabæ. Á fundi með ráðherranum fóru bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs yfir ýmis málefni Suðurnesjabæjar sem falla undir verksvið ráðherrans.
Megin ástæða heimsóknarinnar var að kynna fyrir ráðherra hvernig Suðurnesjabær stendur að móttöku og þjónustu við fylgdarlaus börn sem koma í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og barnavernd Suðurnesjabæjar þarf að taka utan um. Starfsfólk barnaverndar tók á móti gestunum í því húsnæði þar sem fylgdarlaus börn hafa búsetu og njóta þjónustu. Ráðherra lýsti mikilli ánægju með hvernig haldið er utan um verkefnið og hrósaði starfsfólki barnaverndar Suðurnesjabæjar fyrir vel unnin verk í því sambandi.
Þessi þjónusta er mikil áskorun fyrir Suðurnesjabæ og er mikill metnaður fyrir því að standa vel að málum. Það var því uppörvun fyrir starfsfólk Suðurnesjabæjar að fá hrós ráðherra fyrir það hve vel er staðið að þessu verkefni.
Suðurnesjabær þakkar ráðherra fyrir heimsóknina og væntum við áframhaldandi góðs samstarfs við ráðuneytið um þessi mál sem önnur.