Fara í efni

Nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar

Magnús Stefánsson bæjarstjóri áritar nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar
Magnús Stefánsson bæjarstjóri áritar nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar
Nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar

Í gær þann 27. júní áritaði Magnús Stefánsson bæjarstjóri nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar, sem mun öðlast formlegt gildi þegar Skipulagsstofnun hefur staðfest og auglýst aðalskipulagið. Aðalskipulagið verður síðan aðgengilegt á heimasíðu Suðurnesjabæjar þegar það hefur öðlast formlega staðfestingu.

Aðalskipulagið hefur verið í vinnslu í nokkurn tíma, en nú er mikilvægum áfanga náð þegar aðalskipulagið mun öðlast gildi. Þetta aðalskipulag er sögulegt að því leyti að þetta er fyrsta aðalskipulagið sem er unnið fyrir Suðurnesjabæ, eftir sameiningu Garðs og Sandgerðisbæjar árið 2018. Í aðalskipulaginu felst m.a. stefna um uppbyggingu og þróun sveitarfélagsins til framtíðar og er því um mjög mikilvægt skipulag að ræða.

Fjölmargir aðilar komu að vinnslu aðalskipulagsins með einhverjum hætti, enda er það í eðli svona verkefnis að það kallar á að sem allra flestir komið að málinu. Fjölmargir skiluðu ábendingum, athugasemdum og umsögnum á vinnslutíma skipulagsins. Þá voru haldnir íbúafundir, meðal annars var haldinn rafrænn íbúafundur þegar heimsfaraldur Covid-19 hamlaði opnum fundahöldum.

Suðurnesjabær þakkar öllum þeim sem hafa komið að vinnslu aðalskipulagsins með einhverjum hætti. Aðalskipulagið var unnið í samstarfi við Verkís og þakkar Suðurnesjabær starfsfólki Verkís sem kom að verkefninu fyrir ánægjulegt og frábært samstarf. 

Suðurnesjabær óskar íbúum sveitarfélagsins til hamingju með nýtt aðalskipulag, með von um að það verði góður grunnur að frekari þróun og uppbyggingu Suðurnesjabæjar til framtíðar.