Leiðbeiningar fyrir íbúa í tengslum við heitavatnsleysi
Til upplýsinga frá HS veitum eru komnar góðar leiðbeiningar fyrir íbúa sem hafa áhyggjur af húskerfum sínum útaf heitavatnsleysinu.
Það er mikilvægt að allir séu með skilning á því líka að þegar heitavatnið kemst á æðina aftur, þá tekur allt að 2 sólarhringa að koma á hita á öll hús aftur. Það tekur tíma að byggja upp þrýsting í dreifikerfinu.
Fylgist vel með fréttum og tilmælum frá hitaveitu og Almannavörnum. Frostskemmdir í húsum fara fyrst að gera vart við sig ef húshiti fer niður fyrir 4 gráður.
Við núverandi veðurfar er almennt hægt að gera ráð fyrir að slík kólnun eigi sér stað í húsum eftir 3-4 daga án hita.
- Snjóbræðsla: Ef um er að ræða snjóbræðslu sem notar affall af húsinu er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólahrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón.
- Heitur pottur: Ef affall hitaveitu fer í lögn fyrir heitan pott þá er hætt við því að frostskemmdir myndist innan sólahrings. Mikilvægt er að blása vatni út úr því kerfi með loftpressu og dæla frostlegi í gegnum kerfið til að forðast tjón.
- Gluggar: Varmastreymi er mest í gegnum glugga húsa og því þarf að hafa glugga lokaða og draga gluggagjöld fyrir ef hægt er og jafnvel að verja með teppum eða dýnum til að hindra varmasteymið.
- Rafmagns- og olíuhitarar: Takmarka skal notkun hitablásara sem ganga fyrir rafmagni eftir fremsta megni. Best er að staðsetja slíka hitablásara í tækjarýmum húsa til að koma í veg fyrir frostskemmdir í tækjarými en ekki að notast við þá til húshitunar. Gott er að hafa í huga að olíufylltir rafmagnsofnar skapa minna álag á rafveitukerfi svæðisins.
- Gashitarar: Ef notast er við gashitara er mjög mikilvægt að huga að loftræstingu og ekki loka gluggum þar sem gashitarinn er staðsettur. Ekki yfirgefa hús með gashitun í gangi og farið eftir leiðbeiningum almannavarna við notkun þeirra.
- Gólfhitakerfi: Ef um er að ræða gegnumstreymiskerfi með uppblöndun er æskilegt að taka hringrásardælur úr sambandi. Ekki þarf að taka hringrásardælur úr sambandi ef hitakerfi eru lokuð og á það við um bæði gólfhita og ofnakerfi.
- Mat á ástandi fasteignar: Til viðmiðunar um kulda í húsum er hægt að setja upp hitamæla eða setja glas með vatni á gólf við útvegg til að fylgjast með því hvort vatn sé farið að hríma.
Til viðbótar hefur Félag pípulagningameistara gefið út leiðbeiningar í forvarnarskyni til húseigenda þar sem vakin er athygli á atriðum sem geta forðað vatnstjóni. Leiðbeiningarnar má finna hér.