Kaup á perlulistaverki Hannesar Sveinlaugssonar
Suðurnesjabær festi nýverið kaup á perlulistaverki eftir listamanninn Hannes Sveinlaugsson sem býr að Lækjamótum í Sandgerði.
Listaverkið er túlkun Hannesar á gamla Garðskagavita. Margrét I. Ásgeirsdóttir forstöðukona safna tók við verkinu fyrir hönd Suðurnesjabæjar. Við sama tækifæri afhenti Hannes annað perlulistaverk ,,Eldgos” til Monika Bałik sem var fyrir nokkru búin að tryggja sér verkið.
Sýning Hannesar á perlulistaverkum sínum á Byggðasafninu á Garðskaga var fyrsta einkasýning hans og opnaði um Bæjarhátíðina og lauk þann 17. september s.l. Margir gestir innlendir og erlendir og á öllum aldri hafa staldrað við fyrir framan perluverkin, notið þess að horfa á þau og talað um hvað það er einstök samsetning lita í þeim og litagleði. Verkin hans Hannesar veita gleði.
Hannes var mjög ánægður með móttökurnar sem verkin hans fengu og heldur nú ótrauður áfram að skapa perlulistaverk sem vonandi margir geta notið í framtíðinni.
Rætt hefur verið um að perlulistaverkið muni prýða vegg í nýrri viðbyggingu við íþróttamiðstöðina í Sandgerði eftir komandi áramót.