Fara í efni

Grænn iðngarður í Suðurnesjabæ

Grænn iðngarður í Suðurnesjabæ

Eftir að Norðurál Helguvík var tekið til gjaldþrotaskipta hefur verið unnið að því að selja þær eignir sem voru í eigu þrotabúsins.  Nú liggur fyrir að Reykjanesklasinn eignast mannvirkið sem byggt var upp í þeim tilgangi að starfrækja álbræðslu Norðuráls.  Samkvæmt tilkynningu sem Reykjanesklasinn hefur sent frá sér, þá er ætlunin að nýta mannvirkið til þess að þróa þar og starfrækja grænan iðngarð.  „Ætlunin er að hýsa innlend og erlend fyrirtæki sem þurfa rými fyrir sprotastarf, rannsóknar-og tilraunastarfsemi, þróun, framleiðslu og samsetningu á vörum eða aðstöðu fyrir fiskeldi og ræktun, svo eitthvað sé nefnt“.  Þá kemur einnig fram að starfsemin muni m.a. byggja á hugmyndafræði um hringrásarhagkerfi. .

Reykjanesklasinn er boðinn velkominn í Suðurnesjabæ þar sem hann er staðsettur.  Undirbúningur verkefnisins hefur verið í fullu samstarfi við Suðurnesjabæ undanfarnar vikur og það er mjög ánægjulegt að þessum áfanga sé náð.  Þau mannvirki sem byggð voru upp fyrir álbræðslu hafa staðið ókláruð og ónotuð árum saman.  Nú er unnið að því að í stað álbræðslu verði þar starfræktur Grænn iðngarður, sem samkvæmt markmiðum Reykjanesklasans verður stórt og mikið nýsköpunar- og frumkvöðlasetur.  Fyrirmyndin er Sjávarklasinn á Granda í Reykjavík og sú hugmyndafræði um klasastarfsemi sem þar hefur verið þróuð og starfsemin þar hefur skilað eftirtektarverðum árangri.

Í tilkynningunni frá Reykjanesklasanum kemur m.a. fram að  „Með samstarfi við sveitarfélög á svæðinu, Reykjaneshöfn og aðra hagaðila er stefnt að því að starfsemi Græna iðngarðsins stuðli að aukinni verðmæta-og atvinnusköpun.  Markmiðið er að gera allt svæðið áhugavert fyrir fyrirtæki og frumkvöðla sem vilja byggja upp umhverfisvæna starfsemi, á svæði þar sem finna má öflug samfélög, hreinar auðlindir og góðar tengingar við útlönd“.  

Það eru sannarlega spennandi tímar framundan.  Um er að ræða mjög metnaðarfullt verkefni sem byggir á hugmyndafræði um klasastarfsemi, sem hefur sannað sig hjá Sjávarklasanum.  Það verður áhugavert að fylgjast með framgangi málsins og Suðurnesjabær óskar Reykjanesklasanum og þeirri starfsemi sem þar mun verða velgengni í komandi framtíð. 

Hér má nálgast fréttatilkynninguna frá Reykjanesklasanum í heild.