Fara í efni

Fróðleiksfúsi í Þekkingarsetrinu í Sandgerði

Fróðleiksfúsi í Þekkingarsetrinu í Sandgerði

 Þriðjudaginn 30.janúar var vígsluathöfn í Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði, þar sem Fróðleiksfúsi var kynntur til leiks. Fróðleiksfúsi er gagnvirkur fræðsluleikur fyrir fróðleiksfúsar fjölskyldur til að kynnast náttúru og lífríki Íslands og um leið safngripum í Þekkingarsetri Suðurnesja. Verkefnið mun skapa og endurbæta afþreyingu í nærsamfélaginu og auka á heimsóknir innlendra sem erlendra gesta í Þekkingarsetrið. Unnið verður að því að þýða verkefnið á pólsku og ensku. Verkefnið hefur tvívegis fengið styrki úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja, auk þess að hafa fengið styrki frá HS Orku til tækjakaupa og Suðurnesjabæ til kynningarstarfsemi.

Verkefnið er leitt af Daníel G Hjálmtýssyni verkefnastjóra Þekkingarsetursins sem er jafnframt hugmyndasmiður verkefnisins. Grafíska hönnunarfyrirtækið Jökulá sá um viðmóts-og útlitshönnun og vel valdir útskriftarnemar tölvunarbrautar Háskólans í Reykjavík sáu um forritun og kóðun. Fróðleiksfúsi stækkar með hverjum deginum í Þekkingarsetri Suðurnesja og hann hlakkar til að taka á móti sem flestum í Þekkingarsetrinu til að miðla sinni þekkingu með fræðslu til gesta. Fróðleiksfúsi er sérstaklega mikill barnakall og vill mjög gjarnan hitta sem flest börn til að kenna þeim sem mest um náttúru-og dýralíf.