Fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2024 – áhersla á mannvirki, uppbyggingu hverfa og bætta þjónustu í fjárfestingum
Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar fyrir árið 2024 ásamt þriggja ára rammaáætlun fyrir árin 2025-2027 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 13. desember 2023. Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir heilbrigðum rekstri þar sem markmiðum um 11% framlegð er náð. Einnig var fjárfestingaráætlun fyrir sama tímabil samþykkt.
Umfjöllun um forsendur fjárhagsáætlunar hófst á fyrsta ársfjórðungi ársins þar sem megin markmið voru samþykkt. Bæjarstjórn hélt fjóra sameiginlega vinnufundi með starfsfólki sveitarfélagsins sem hluta af vinnu við fjárhags- og fjárfestingáætlun. Forsendur fjárhagsáætlunar eru að mestu byggðar á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem útgefin var í nóvember 2023 ásamt gögnum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og fleiri aðilum. Óvissa er nokkur varðandi ýmsa þætti eins og t.d. þróun verðlags ásamt þróun kjarasamninga á næstu misserum.
Gert er ráð fyrir hækkun tekna á milli ára en hún er að mestu drifin áfram af auknum tekjum af fasteignaskatti og útsvari en fjölgun íbúa hefur verið rúmlega 3,4% á árinu 2023 og gert er ráð fyrir að sú fjölgun haldi áfram. Stærsti hluti fasteignaskatta kemur frá atvinnuhúsnæði í sveitarfélaginu eins og undanfarin ár. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttu álagningarhlutfalli útsvars og fasteignagjalda á milli ára en þó með þeim breytingum sem samkomulag um tekjutilfærslu á milli ríkis og sveitarfélag frá 15.desember sl. vegna fjármögnunar þjónustu við fatlað fólk segir til um en samkvæmt því verður útsvarshlutfall sveitarfélagsins 14,97% en tekjuskattshlutfall ríkisins lækkar á móti þannig að heildarskattbyrði íbúa tekur ekki breytingum. Vatnsgjald sem hlutfall af fasteignamati húss og lóðar lækkar út 0,16% niður í 0,138% ásamt því að fráveitugjald fyrir atvinnuhúsnæði hækkar úr 0,10% upp í 0,12% til samræmis við fráveitugjöld íbúðarhúsnæðis.
Flestar gjaldskrár sveitarfélagsins hækka um að meðaltali um 7,5% en algengasta hækkunin er á bilinu 6,5% upp í 8,5%, einhverjir liðir hækka þó meira en aðrir liðir minna. Hækkun þessi er í takt við þróun verðlags samkvæmt samþykktum markmiðum fjárhagsáætlunar. Töluverðar breytingar eru á kostnaði við sorpmál en sorphirðu- og sorpeyðingargjald verður hér eftir nefnt sorpgjald og er gjald fyrir hvern úrgangsflokk eftir stærð íláta. Hækkun þessa gjalds er í takt við hækkun almennt hjá nágrannasveitarfélögum Suðurnesjabæjar og er að jafnaði um 30%.
Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 6.778 millj.kr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 746,7 millj.kr., eða 11%. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða A og B hluta áætluð jákvæð að fjárhæð 128,4 millj.kr.
Í sjóðstreymisyfirliti kemur m.a. fram að veltufé frá rekstri er 772,9 millj.kr. og handbært fé frá rekstri 726,8 millj.kr. Fjárfestingaáætlun er alls 968 millj.kr. og er áætlað að tekin verði ný lán að fjárhæð 400 millj.kr. en afborganir langtímaskulda eru áætlaðar 312,4 millj.kr. Áætlað er að handbært fé í árslok 2024 verði 441,5 millj.kr.
Helstu fjárfestingar á árinu 2024 eru áframhald við nýbyggingu leikskólans Grænuborgar í Sandgerði, áætlað er að leikskólinn verði fullbúinn til notkunar fyrir vorið 2024 og er gert ráð fyrir að framkvæmdakostnaður ársins 2024 verði 285 millj.kr. Haldið verður áfram með fjárfestingar í innviðum í nýjum hverfum í báðum byggðakjörnum, með gatnagerð og tengdum framkvæmdum og er áætlað að kostnaður við þau verkefni verði alls 275 millj.kr. á árinu 2024. Mikil eftirspurn er eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ og er áætlað að uppbygging íbúðarhúsnæðis haldi áfram á fullum krafti næstu misserin. Gert er ráð fyrir að hafnar verði framkvæmdir við gervigrasvöll og er fjárheimild til þess verkefnis 200 millj.kr. á árinu 2024 og 190 millj.kr. næstu tvö ár á eftir. Þessu til viðbótar eru ýmis minni verkefni á framkvæmdaáætlun ársins 2024.
Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er góð og er áætlað að skuldaviðmið skv. reglugerð 502/2012 verði 68% í árslok 2024 og því vel undir 150% viðmiði skv. fjármálareglu Sveitarstjórnarlaga.
Í þriggja ára áætlun áranna 2025-2027 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma sveitarfélagsins og efnahagsleg staða standist fjármálareglur Sveitarstjórnarlaga á tímabilinu og er það samkvæmt markmiði bæjarstjórnar.
Aukin áhersla er á að styðja við barnafjölskyldur í Suðurnesjabæ og hérna eru helstu breytingar á kostnaðarþáttöku sveitarfélagsins í þeim efnum:
- Umönnunarbætur fyrir foreldra sem ekki nýta dagvistun hjá dagforeldri hækka úr 45 þús.kr. upp í 100 þús.kr. fyrir hvern mánuð. Fyrst greiðsla er að loknum réttindum til fæðingarorlofs og eru greiddar þangað til að barn fær inngöngu í leikskóla eða verður tveggja ára.
- Niðurgreiðsla dagvistunar hjá dagforeldri hækkar í 80 þús.kr. á mánuði m.v. 8 tíma vistun þangað til að barnið nær 18 mánaða aldri.
- Niðurgreiðsla dagvistunar hjá dagforeldri fyrir börn 18 mánaða og eldri verður hækkuð í 112 þús.kr. á mánuði m.v. 8 tíma vistun þangað til að barni verður boðin innganga í leikskóla.
- Niðurgreiðsla á máltíðum nemenda í grunnskólum Suðurnesjabæjar verður aukin úr 50% upp í 60%, því munu foreldrar greiða 40% í stað 50% áður.
- Innleiddur verður fjölskylduafsláttur af máltíðum nemenda í grunnskólum Suðurnesjabæjar þannig að gjaldfrjálst verður fyrir börn frá sömu fjölskyldu umfram tvö.
- Hafin verður frístundaakstur barna á milli byggðarkjarna virka daga frá kl.14-17 þegar að æfingar eru í íþróttamiðstöðvum. Um tilraunaverkefni er að ræða fram á vorið en verkefnið verður endurmetið í maí m.a. með tilliti til nýtingar.
Í samræmi við áherslu bæjarstjórnar um ábyrgð og aðhald í fjármálum, bæði varðandi rekstur og fjárfestingar, verður á árinu 2024 sérstök áhersla á greiningu á rekstrareiningum sveitarfélagsins í þeim tilgangi að auka aðhald í rekstri.