Fara í efni

Fjárhagsáætlun ársins 2023 samþykkt samhljóða

Fjárhagsáætlun ársins 2023 samþykkt samhljóða

Á 51. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar miðvikudaginn 7. desember 2022 samþykkti bæjarstjórn samhljóða fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar fyrir árið 2023, auk rammaáætlunar fyrir árin 2024-2026. 

Umfjöllun um forsendur fjárhagsáætlunar hófst á fyrsta ársfjórðungi ársins og bæjarráð hefur fjallað um áætlanagerðina, forsendur og endanlega tillögu að fjárhagsáætlun á alls níu fundum á árinu.  Þá hefur bæjarstjórn haldið þrjá sameiginlega vinnufundi með starfsfólki sveitarfélagsins til yfirferðar yfir starfsáætlanir og áætlunina sjálfa.

Við gerð fjárhagsáætlunar var unnið út frá ýmsum forsendum, svo sem hagspám, áætlun Sambands ísl. sveitarfélaga um útsvarstekjur, fasteignamati, áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og atvinnuástandi í sveitarfélaginu og almennt um þróun atvinnumála. Ýmsir áhrifaþættir eru markaðir nokkurri óvissu. Í því sambandi skiptir mestu hver verður þróun verðlags og hvernig tekst að ná niður verðbólgu.  Þróun efnahagsmála og kjarasamningar eru því stærstu óvissuþættir um þessar mundir. Þá er íbúaþróun í sveitarfélaginu áhrifaþáttur, bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Heimsfaraldur Kórónuveiru Covid-19 hefur haft mikil og neikvæð áhrif á rekstur og efnahag Suðurnesjabæjar undanfarin ár, en nú eru áhrif af því að mestu horfin.

Helstu markmið við vinnslu fjárhagsáætlunar hafa verið að standast fjárhagsleg viðmið um jafnvægisreglu og skuldareglu sbr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga. Framlegð frá rekstri A og B hluta verði ekki undir 10% á komandi árum. Veltufé frá rekstri verði ekki undir 500 mkr. á ári til að standa undir afborgunum lána og sem mestu af fjárfestingum.  Fjárfestingar verði sem mest fjármagnaðar með skatttekjum og söluhagnaði eigna á komandi árum þannig að lántökum verði haldið í lágmarki. Áhersla bæjarstjórnar er á ábyrgð og aðhald í fjármálum, bæði varðandi rekstur og fjárfestingar, en á sama tíma og út frá framangreindum markmiðum verði ekki dregið úr þjónustu við íbúa, heldur verði langtímamarkmið að bjóða íbúum upp á sem mesta og besta þjónustu á öllum þeim sviðum sem sveitarfélaginu ber að gera. Gjaldskrá þjónustugjalda verði í takti við þróun verðlags.

Í forsendum fjárhagsáætlunar ársins 2023 er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52%, álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði er lækkað úr 0,295% í 0,28%, með því er bæjarstjórn að koma til móts við hækkun á fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Að öðru leyti er álagning fasteignagjalda óbreytt frá fyrra ári. Ýmsir rekstrarliðir eru hækkaðir til samræmis við spá um verðlagsbreytingar. Þjónustugjaldskrá er að mestu uppreiknuð út frá hagspá um þróun vísitölu neysluverðs. 

Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 5.654 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 533 mkr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð að fjárhæð 8.853 þús.kr.

Í sjóðstreymisyfirliti kemur m.a. fram að veltufé frá rekstri verði 594 mkr. og handbært fé frá rekstri 558 mkr. Fjárfestingahreyfingar eru áætlaðar alls 1.000 mkr., tekin verði ný langtímalán að fjárhæð 600 mkr. og afborganir langtímaskulda verði 272 mkr. Áætlað er að handbært fé í árslok 2022 verði 507 mkr.

Stærsta fjárfesting Suðurnesjabæjar á árinu 2023 verður uppbygging á nýjum leikskóla við Byggðaveg í Sandgerði og er áætlaður framkvæmdakostnaður á árinu 2023 600 mkr.  Þá stendur yfir mikil uppbygging á íbúðarhúsnæði og við blasir að sú uppbygging muni halda áfram næstu misseri. Fyrir vikið mun halda áfram fjárfesting í uppbyggingu innviða í nýjum íbúðahverfum til að koma til móts við mikla eftirspurn eftir íbúðalóðum. Þessi uppbygging á íbúðarhúsnæði felur í sér fjölgun íbúa. Á árinu 2022 hefur íbúum fjölgað um tæplega 3% og eru samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár 3.910 í lok nóvember 2022. Í forsendum fjárhagsáætlunar 2023 er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 3% á árinu.

Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er góð og er áætlað að skuldaviðmið skv. reglugerð 502/2012 verði 78,6% í árslok 2023 og því vel undir 150% sem eru þau mörk sem fjármálareglur sveitarstjórnarlaga kveða á um.

Í þriggja ára áætlun fyrir árin 2024-2026 er gert ráð fyrir batnandi rekstrarafkomu A-og B hluta og að sveitarfélagið standist ákvæði sveitarstjórnarlaga um jafnvægi í rekstri fyrir árið 2026.