Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2021

Fjárhagsáætlun 2021

Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar fyrir árið 2021, ásamt rammaáætlun fyrir árin 2022-2024, var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 18. desember 2020.  Áætlunin markast af mikilli óvissu vegna heimsfaraldurs Kórónuveiru og þeim miklu afleiðingum sem faraldurinn hefur haft á rekstur og efnahag sveitarfélagsins.  Á árinu 2020 hefur orðið mikið tekjufall vegna afleiðinga faraldursins, einnig hafa ófyrirséð útgjöld orðið vegna þess. Við vinnslu fjárhagsáætlunar 2021 var að venju unnið út frá ýmsum forsendum, svo sem hagspám, áætlun Sambands ísl. Sveitarfélaga um útsvarstekjur, fasteignammati, áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og atvinnuástandi í sveitarfélaginu.  Það er ljóst að margir áhrifaþættir eru markaðir mikilli óvissu, sem fyrst og fremst lýtur að því hvernig heimsfaraldurinn muni þróast árið 2021 og hver verður þróun á atvinnumarkaði á árinu.

 

Meðal forsenda áætlunarinnar má nefna að álagningarhlutfall útsvars verður óbreytt 14,52% og álagningarhlultfall fasteignagjalda verður óbreytt frá 2020.  Í þjónustugjaldskrá eru ýmsir liðir sem snerta barnafjölskyldur óbreyttir í krónutölum frá 2020 og má þar m.a. nefna leikskólagjöld.  Með því kemur  bæjartstjórn til móts við barnafjölskyldur í því erfiða árferði sem nú ríkir.  Ýmsir útgjaldaliðir taka breytingum m.a. út frá hagspá og launaliðir taka mið af kjarasamningum.

 

Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildar tekjur áætlaðar 4.415,4 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 233,7 mkr.  Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða neikvæð 142,4 mkr.  Bæjarstjórn hefur ekki ráðist í sérstakar hagræðingar aðgerðir í rekstri til þess að mæta efnahagsástandinu og tekjufalli, áætlunin felur í sér að þjónustustig sveitarfélagsins er ekki skert og áhersla lögð á að viðhalda góðri þjónustu og halda uppi viðhaldi eigna, enda er gengið út frá því að um tímabundið ástand sé að ræða.

 

Þrátt fyrir þrönga stöðu og mikla óvissu er áætlað að ráðast í miklar fjárfestingar árið 2021, eða alls 670,8 mkr.  Með því leitast bæjarstjórn við að leggja sitt af mörkum við að halda uppi atvinnu.  Meðal fjárfestinga í fjárfestingaáætlun má nefna að lokið verður við viðbyggingu Gerðaskóla og hafnar framkvæmdir við uppbygginu á nýjum leikskóla í Sandgerði.  Þá verða hafnar framkvæmdir í nýju íbúðahverfi, Skerjahverfi í Sandgerði. Mikil eftirpurn hefur verið eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ og vill bæjarstjórn mæta þeirri eftirspurn með því að halda uppi lóðaframboði.  Til að mæta fjárþörf vegna fjárfestinga er gert ráð fyrir lántöku að fjárhæð allt að 550 mkr.  Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er góð og er áætlað að skuldaviðmið í árslok 2021 verði 79,8%, sem er vel undir þeim mörkum sem fjármálareglur sveitarstjórnarlaga kveða á um.  Áætlað er að handbært fé í árslok 2021 verði 467 mkr.