Fara í efni

Fasteignagjöld 2024

Fasteignagjöld 2024

Álagning fasteignagjalda 2024 liggur fyrir í Suðurnesjabæ.

Gjalddagar fasteignagjalda eru tíu, frá 1. febrúar til 1. nóvember 2024. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga.

Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Suðurnesjabæ er veittur afsláttur af fasteignaskatti í samræmi við reglur um afslætti og viðmiðunartekjur. Afslátturinn er reiknaður á grundvelli heildarárstekna heimilisins næsta árs á undan álagningarárinu. Það er að segja, afsláttur af fasteignasköttum ársins í ár miðast við tekjur ársins 2022.

Rétt til afsláttar eiga íbúðaeigendur í sveitarfélaginu sem búa í eigin íbúð og eru 67 ára eða eldri eða hafa verið úrskurðaðir 75% öryrkjar fyrir 1. janúar 2024. Afsláttur nær einungis til þeirra íbúðar sem viðkomandi býr í. Einstaklingar 67 ára og eldri fá afslátt af fasteignaskatti frá og með næstu áramótum sem þeim aldri er náð.

Nánari upplýsingar um skiptingu fasteignagjalda og viðmiðunartekjur má sjá í gjaldskrá fasteignagjalda.

Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2024 eru aðgengilegir á island.is undir flipanum „Mínar síður“

 Sorpgjöld

Gjöld vegna hirðu og meðhöndlunar úrgangs eru innheimt með fasteignagjöldum.

Með breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 ber sveitarfélögum að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Sveitarfélög þurfa því að hverfa frá því að nota kerfi sem innheimtir eitt fast gjald fyrir meðhöndlun úrgangs í að innheimta samkvæmt því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér. Skylt er að innheimta gjald sem miðast við magn og gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun hans.

Suðurnesjabær byggir gjaldskrá sína á áætluðum kostnaði við málaflokkinn. Skylt er að flokka í fjóra flokka við heimili en íbúar geta nú, að einhverju leyti, stýrt því hvaða tunnur henta best við sitt heimili svo lengi sem krafan um fjóra flokka er uppfyllt.

Á álagningarseðlum sem íbúar fá í ár er að finna upplýsingar um gjöld annars vegar byggð á stærðum, fjölda og tegundum íláta og hins vegar gjöld vegna fasts kostnaðar vegna reksturs grenndar- og söfnunarstöðva og annars fasts kostnaðar.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Suðurnesjabæjar