Fara í efni

Óvissustig Almannavarna vegna veðurs

Óvissustig Almannavarna vegna veðurs

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna slæmrar veðurspár, með snjókomu og hvassviðri og þar með útliti fyrir raskanir á umferð og jafnvel ófærð víða á vegum. Aðgerðastjórn almannavarna á Suðurnesjum verður virkjuð upp úr miðnætti í kvöld og fram á morgundaginn, eftir því hvernig aðstæður þróast. Vegagerðin og aðrir þjónustu-og viðbragðsaðilar hafa undirbúið viðbragð og mun verða fylgst vel með framvindu mála í nótt, á morgun og fram á nýársdag.

Snjómokstur verður í Suðurnesjabæ eins og aðstæður leyfa og munu starfsmenn verða við mokstur frá því síðla nætur í nótt og á morgun.  Aðstæður verða svo metnar á morgun varðandi framhaldið.

Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar hvetur alla til þess að fylgjast vel með öllum upplýsingum sem fram koma um veður og færð næstu sólarhringa og að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Vísað er á vefsíður Almannavarna; almannavarnir.is og Vegagerðarinnar; vegagerdin.is og umferdin.is.  Einnig munu koma fram upplýsingar á vefsíðu og facebook síðu Suðurnesjabæjar eftir því sem metin er þörf á hverju sinni. 

Á vefsíðu Almannavarna birtist eftirfarandi frétt nú undir kvöld:  Óvissustig vegna veðurs á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. 

Á vefsíðu Vegagerðarinnar birtist einnig eftirfarandi frétt nú undir kvöld:  Hugsanleg lokun á Reykjanesbraut í nótt.

 Suðurnesjabær óskar íbúum sínum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári og ítrekað er að allir fylgist vel með fréttum og upplýsingum sem munu koma fram um veður, færð og viðbúnað.

Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar